Lyfjalög

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 12:22:03 (8193)

2002-04-24 12:22:03# 127. lþ. 127.15 fundur 601. mál: #A lyfjalög# (rekstur lyfjabúða o.fl.) frv. 63/2002, MF
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 127. lþ.

[12:22]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. og formanns heilbr.- og trn., Jónínu Bjartmarz, stendur öll heilbr.- og trn. að þessu nefndaráliti sem hér er mælt fyrir og við teljum að þær breytingar sem frv. felur í sér séu allar til bóta frá því sem nú er. Engu að síður virðist vera nauðsynlegt að skoða lyfjalögin heildstætt fljótlega og ýmis önnur ákvæði lyfjalaga þyrfti að fara í eftir þær róttæku breytingar sem gerðar voru, að mig minnir 1994.

Við ræddum töluvert í nefndinni um orðalagsbreytingar sem lagðar eru til á 13. gr. laganna, þ.e. 1. gr. frv. Þar er fjallað um lyfjaauglýsingar og í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

,,Nefndin tekur undir þá túlkun sem sett er fram í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins, en þar kemur m.a. fram að Lyfjastofnun telji að fullyrðingar um að vara hafi bætt áhrif á líkamsstarfsemi geti verið þáttur í markaðssetningu heilsuvöru. Nefndin leggur til frekari orðalagsbreytingu sem er til þess fallin að styrkja þá túlkun frekar. Nefndin vekur athygli á því að regla 13. gr. laganna gildir jafnt um innflutta vöru sem vöru framleidda hér á landi.``

Það er ekki að ástæðulausu, virðulegi forseti, að þetta er sérstaklega tekið fram því það kom fram hjá þeim fulltrúum sem heimsóttu nefndina í störfum nefndarinnar að það virðist vera einhver mismunun á því hvernig heimilt er að auglýsa náttúruvöru sem framleidd er hér innan lands og þá sem er flutt inn, ekki heimildirnar heldur hvernig farið er með þær. Því bendir ýmislegt til þess að hugsanlega þurfi að auka eftirlit með því hvernig staðið er að því að auglýsa þessa náttúruvöru og þá fyrst og fremst þá sem flutt er inn.

Ég býst við að flestir hv. þm. kannist við auglýsingar um náttúruvöru þar sem tilgreind eru í löngu máli öll þau heillavænlegu áhrif sem viðkomandi vara getur haft á líkamann eða líkamsstarfsemina. Ef gilda eiga ákveðnar fastar reglur --- og ég tek fyllilega undir það sem hv. þm., formaður nefndarinnar sagði um það --- þá verðum við að ganga úr skugga um að ekki sé farið á skjön við þessi lög þegar um er að ræða innflutta náttúruvöru. Það reyndist ekkert auðvelt að finna orðalag sem gæti í raun lýst vilja nefndarinnar, hvað þá Lyfjastofnunar eða heilbrrn. En ég tel að þessi niðurstaða sé sú illskásta, ef það má orða það þannig, á lagatexta.

Virðulegi forseti. Einnig er gerð breyting á 3. gr. þar sem skerpt er á þeirri skyldu að í lyfjabúð á almennum afgreiðslutíma og öðrum álagstímum, skuli eigi færri en tveir lyfjafræðingar vera við afgreiðslu lyfseðla og fræðslu og ráðgjöf um rétta notkun og meðhöndlun lyfja, en að ráðherra hafi engu að síður heimild til þess að gera auknar kröfur ef umfangið er meira og veita undanþágur ef sérstakar aðstæður eru til eða umfangið er minna.

Í umsögn Lyfjastofnunar um nákvæmlega þetta atriði sem ég vil gjarnan halda til haga hér, virðulegur forseti, koma fram nokkrar athyglisverðar staðreyndir um breytingar sem hafa átt sér stað frá því að róttækar breytingar voru gerðar á lyfjalögum fyrir nokkrum árum síðan, þ.e. á lyfjalögum, nr. 93 frá 1994. Ég vildi koma þessari umsögn til skila og leyfa mér að lesa hana hér upp, með leyfi forseta:

,,Lyfjastofnun þakkar fyrir fund með heilbrigðis- og tryggingamálanefnd Alþingis þann 15. apríl sl. um frumvarp til lyfjalaga, 601. mál, rekstur lyfjabúða o.fl. Vegna umræðu um mönnun lyfjabúða og ummæla eins af forsvarsmönnum Lyf og heilsu lyfjabúðanna í Morgunblaðinu í gær, vill Lyfjastofnun fyrir sitt leyti koma eftirfarandi á framfæri:

Lyfjastofnun telur að kröfur um tvo lyfjafræðinga að lágmarki í lyfjabúð á höfuðborgarsvæðinu og í stærri byggðarlögum á landsbyggðinni geti ekki verið íþyngjandi fyrir lyfjabúð. Að baki hverri lyfjabúð á þessum svæðum er að jafnaði sá mannfjöldi er bera ætti uppi rekstur lyfjabúða. Því má ekki gleyma að lyfjabúðir eru hluti af heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðisþjónusta hefur átt undir högg að sækja þegar kemur að útgjöldum ríkisins og hallarekstur tíður. Það er aftur á móti alkunna að lyfjabúðir eru ekki reknar með tapi og hagnaður þeirra að öllu jöfnu nokkur. Er það jákvætt og ætti að gagnast heilbrigðisþjónustu landsmanna. Mætti gera ráð fyrir því að við þær aðstæður væri hægt að auka þjónustu við viðskiptavini, lyfjafræðilega umsjá og ráðgjöf til sjúklinga við alla meðferð og notkun lyfja.

Á sjúkrahúsum svo dæmi séu tekin eru gerðar kröfur um að til staðar séu færustu læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk til að mæta þörfum sjúkra og sá fjöldi sem nauðsynlegur er til að sinna fjölda sjúklinga. Þykir það sjálfsögð og eðlileg krafa. Á sama hátt þykir það sjálfsögð og eðlileg krafa að lyfjabúðir sem starfa í skjóli opinberra leyfa hafi yfir að ráða nægjanlegum fjölda lyfjafræðinga, lyfjatækna og öðru sérþjálfuðu starfsfólki til að sinna þeim fjölda sjúklinga sem til þeirra leita. Lyfjastofnun leggur í þessu sambandi áherslu á að sé þessu ekki til að dreifa er hætta á mistökum í afgreiðslu lyfja til sjúklinga. Fjölgun er tilvika`` --- og þetta er, virðulegi forseti, alvarleg athugasemd sem hér er gerð af hálfu Lyfjastofnunar, þar sem segir: ,,Fjölgun er tilvika þar sem mistök í afgreiðslu lyfja má rekja til m.a. reynsluleysis í viðkomandi lyfjabúðum og undirmönnunar. Ófullnægjandi er að einungis einn lyfjafræðingur sé á vakt í lyfjabúð sérstaklega á höfðuborgarsvæðinu þar sem algengara er að verða að aðstoðarfólk sé ófaglært en ekki lyfjatæknar. Flestir þekkja af eigin raun að oft er mikið annríki í lyfjabúðum og afgreiðsla lyfja ekki eina starfsemin sem þar fer fram. Þar fer einnig fram sala fæðubótarefna, snyrtivara o.fl. og starfsfólk því oft við önnur störf en afgreiðslu lyfja. Við mikið annríki og undirmönnun sérfræðinga í lyfjabúðum eykst hættan á mistökum. Lyfjastofnun vill fyrir sitt leyti koma því skýrt á framfæri að stofnuninni hafa borist tilkyningar um mál þar sem lyf hafa verið ranglega afgreidd þar sem rekja mátti mistök til afleysingarfólks og undirmönnunar. Þess má einnig geta að að öllum líkindum eru mistök í lyfjaafgreiðslu í lyfjabúðum í fæstum tilfellum tilkynnt til stofnunarinnar.

Lyfjastofnun leggur áherslu á að ekki séu færri en tveir lyfjafræðingar að störfum samtímis í lyfjabúð á almennum opnunartíma, en fleiri ef þörf krefur auk lyfjatækna og annars þjálfaðs starfsfólks ef umfang starfsemi er með þeim hætti. Fyrir breytingarnar sem urðu með nýjum lyfjalögum nr. 93/1994, þar sem frjálsræði var aukið í lyfsölu, var algengt að ekki voru færri en þrír til fjórir lyfjafræðingar að störfum samtímis í lyfjabúð á höfuðborgarsvæðinu. Þetta hefur breyst með tilkomu lyfjakeðja sem reka stærstu lyfjabúðirnar og svo virðist vera sem stefnan sé að fækka lyfjafræðingum.``

[12:30]

Virðulegi forseti. Þegar umræður fóru fram um þær róttæku breytingar sem gerðar voru á lyfjalögum árið 1994 var ítrekað fullyrt í þessum ræðustól, af þáv. hæstv. heilbrrh. og þeim sem stóðu að þeim breytingum, að þetta mundi ekki hafa það í för með sér að lyfjafræðingum að störfum í lyfjabúðum fækkaði, alls ekki. Þvert á móti yrði faglegur metnaður lyfjabúðanna miklu meiri en verið hefði fyrir breytingar. Eins og nokkur okkar bentu á, reyndar einnig næsti hæstv. heilbrrh. á eftir, Ingibjörg Pálmadóttir, virtist ljóst að þetta yrði örugglega eins og sýnt hefði sig hjá öðrum þjóðum þar sem svipaðar breytingar hefðu verið gerðar, þar hefði dregið úr öryggi við afgreiðslu lyfja í lyfjabúðum.

Þetta er náttúrlega gjörsamlega óþolandi. Það er m.a. hlutverk Alþingis að tryggja að lágmarksöryggi sé til staðar. Ég tel að þær breytingar sem lagðar eru til í frv. séu frekar til þess og einnig til að ráðherra heilbrigðismála eigi betra með að fylgjast með þeim ábendingum sem fram koma frá Lyfjastofnun um hver þörfin er hverju sinni á hverju svæði. Lyfjastofnun hlýtur að sjálfsögðu þegar koma fram ábendingar um mistök sem hafa orðið við afgreiðslu lyfja vegna undirmönnunar eða afleysinga, að láta hæstv. ráðherra eða ráðuneytið vita þá þegar, þannig að leyfilegt og mögulegt sé að grípa til aðgerða.

Ég tel að með þessari brtt. sem hér er lögð til á gildandi lögum hafi hæstv. heilbrrh. þær heimildir sem til þarf en það er undir hæstv. ráðherra komið að nýta heimildirnar þannig að öryggið sé tryggt.

Það segir jafnframt í þessari umsögn, með leyfi forseta:

,,... svo virðist vera sem stefnan sé að fækka lyfjafræðingum. Það er mat Lyfjastofnunar að slíkt sé á kostnað faglegrar umsýslu með lyf í apótekum, þar með talið öryggis í lyfjadreifingu. Á síðastliðnu ári voru óvenju hröð skipti lyfsöluleyfishafa í lyfjabúðum á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega hjá lyfjabúðakeðjunum. Lyfjastofnun telur að þau hröðu skipti lyfsöluleyfishafa í lyfjakeðjunum megi rekja til of mikils álags og minni raunverulegrar faglegrar ábyrgðar en skv. 21. gr. lyfjalaga ber lyfsöluleyfishafi faglega ábyrgð á rekstri lyfjabúðarinnar. Slíkt virðist einungis vera í orði en ekki á borði hjá lyfjabúðakeðjum, enda eru lyfsöluleyfishafar í reynd starfsmenn lyfjabúðakeðju og háðir fyrirmælum vinnuveitanda sem býr oft ekki yfir faglegri sérfræðiþekkingu sem nauðsynleg er við umsýslu með lyf.``

Þessi orð, virðulegi forseti, eru auðvitað áminning um að virkt eftirlit þarf að vera í gangi. Lyfjastofnun hefur auðvitað mjög mikilvægu hlutverki að gegna en miðað við lögin sem í gildi eru og þær breytingar sem hér eru lagðar til erum við engu að síður að vísa töluverðri ábyrgð yfir á hæstv. ráðherra. Ég hef skilið það þannig af samtölum, af því sem fram hefur komið hjá fulltrúum ráðuneytisins í nefndinni, að fullur vilji sé til að viðhalda þarna mjög öflugu eftirliti.

Í bréfi frá Lyfjastofnun er talað um lyfjafræðilega umsjá. Fyrir nokkru var kynnt hér á landi rannsókn sem gerð var í Bandaríkjunum af prófessor Lindu Strand við Minnesota-háskólann og þar sem koma fram þær staðreyndir að hluti innlagna á sjúkrahús sé vegna ónákvæmrar lyfjaneyslu. Það er verið að þróa sérstakt kerfi, lyfjafræðilega umsjá, sem felur í sér athugun og endurskoðun á lyfjaneyslu. Virk efni hvers konar lyfja eru skoðuð, samverkanir efna við efni úr öðrum lyfjum, náttúrulyfjum sem öðrum, og aukaverkanir skoðaðar.

Með lyfjafræðilegri umsjá á að tryggja að sjúklingur sem kemur með lyfseðil geti leitað til lyfjafræðings eða sérfræðings til að skoða þau lyf sem viðkomandi einstaklingur neytir, hvort sem það eru náttúrulyf, náttúruvörur eða lyf á lyfseðli. Þetta eykur mikilvægi þess að lyfjafræðingar séu nægilegar margir að störfum í stórum apótekum þar sem mikið er um viðskipti og afgreiða þarf marga lyfseðla, þ.e. marga viðskiptavini á dag. Mér finnst það fyrirkomulag til fyrirmyndar sem Lyfja er að taka upp sem tilraunaverkefni og hefur kynnt sérstaklega. Sé hægt er að draga úr innlögnum á sjúkrahúsin með því að bæta lyfjafræðilega umsjón er það auðvitað þess virði. Samkvæmt því sem fram hefur komið í fréttum má hugsanlega rekja allt að 10% innlagna á sjúkrahús til ónákvæmrar lyfjaneyslu. Væri hægt að koma í veg fyrir þó ekki væri nema helming þess með þessu væri það auðvitað mikill sigur. Það væri sparnaður en ekki síður til bóta fyrir sjúklingana sjálfa.

Í ljósi umræðunnar um ótæpilegar ávísanir á ávanabindandi lyf, sem auðvitað geta verið eðlilegar, þ.e. ávísanir á ávandabindandi lyf eins og morfínlyf geta verið fullkomlega eðlilegar þegar um er að ræða alvarlega sjúkdóma og verki, alvarleg langvarandi veikindi. Engu að síður virðist hafa verið vísað á þau í öðrum tilgangi og þá til eiturlyfjaneytenda. Ef þessi lyfjafræðilega umsjón yrði aukin og eftirlit og eftirfylgni í lyfjabúðunum hert með því að taka upp þessa starfsemi held ég að draga mundi úr hættunni á óeðlilegum tilvísunum á ávanabindandi lyf. Ég tel að í framtíðinni eigi að taka þessar aðferðir upp í lyfjaverslunum. Það þýðir hins vegar að nauðsynlegt er að faglærðir starfskraftar séu til staðar, hvort sem um er að ræða lyfjafræðinga eða lyfjatækna, þ.e. að allar stöður séu mannaðar í samræmi við umfang starfseminnar.

Að síðustu, virðulegi forseti, vil ég hnykkja aðeins á því sem ég kom inn á við 1. umr. um þetta mál. Ég tel nauðsynlegt að fylgjast með því hvernig lyf eru afgreidd á smærri stöðum á landsbyggðinni þar sem ekki er um að ræða apótek. Það eru til reglur um geymsla lyfja skuli vera, hvernig henni skuli háttað og gæta eigi fyllsta öryggis í meðferð lyfja þar til þau eru afhent viðtakanda. Ég tel nauðsynlegt að herða eftirlit með því að eftir þessum reglum sé farið.

Annað atriði minntist ég á við 1. umr. og ráðherra tók undir það sérstaklega, er opnunartími í lyfjabúðum, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, þar sem engin lyfjaverslun er opin frá tólf á miðnætti til fimm eða sex að morgni. Það hefur valdið verulegum erfiðleikum. Þeir sem ráða þar för eru kannski fyrst og fremst að hugsa um arðsemina, að ekki sé um fjöldaafgreiðslu að ræða á þessum tíma. Engu að síður getur fólk mjög nauðsynlega þurft á lyfjum að halda og ég held að ráðuneytið og hæstv. ráðherra ættu að beita sér fyrir því, í samráði við þá sem reka lyfjaverslanir, að úr þessu verði bætt.