Lyfjalög

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 12:39:04 (8194)

2002-04-24 12:39:04# 127. lþ. 127.15 fundur 601. mál: #A lyfjalög# (rekstur lyfjabúða o.fl.) frv. 63/2002, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 127. lþ.

[12:39]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Við erum hér að ljúka umræðu um frv. til laga um breytingu á lyfjalögum. Það er nauðsynlegt að þessi lög séu eins og önnur lög í heilbrigðisþjónustunni, stöðugt til endurskoðunar. Það hafa orðið miklar breytingar í uppbyggingu lyfjaverslana og raunar orðið eðlisbreyting á þeim undanfarin ár. Lögin verða auðvitað að taka tillit til þess. Það er m.a. gert í þessu frv. Með því er tekið á því að hið nýja rekstrarform er í mörgum tilfellum þannig að einn rekstraraðili rekur margar lyfjaverslanir. Með þessu eru bæði rekstrarleg og fagleg ábyrgð gerð skýrari. Hér er einnig skýrt betur hversu margir lyfjafræðingar verða að vera til staðar.

Í frv. er lögð á það rík áhersla að staðið sé við núverandi orðalag, þ.e. að að öllu jöfnu séu tveir lyfjafræðingar til staðar. Það er ekki gengið svo langt að segja að tveir lyfjafræðingar eigi að vera til staðar. Með góðum vilja, ef menn vilja túlka það þannig, mætti segja að þetta þýddi fleiri stöðugildi, að matarhlé, kaffihlé og allar frístundir væru dekkaðar þannig að stöðugt væru til staðar tveir lyfjafræðinga. Auðvitað var túlkunin ekki sú. Það má alltaf hagræða innan hvers vinnudags þannig að tveir lyfjafræðingar séu við afgreiðslu og svo sé það lagt til hliða þegar kringum eðlileg matar- og kaffihlé.

Ein er sú fagstétt sem komið hefur mjög sterkt inn í afgreiðslu lyfja, þ.e. lyfjatæknar. Það var farið mjög rækilega yfir það í nefndinni hvernig venjuleg afgreiðsla í hefðbundnu apóteki gengur fyrir sig. Það er ljóst að lyfjatæknar gegna þar mikilvægu hlutverki og eiga að gera það áfram. Ég vil leggja áherslu á, herra forseti, að það er leyfð ákveðin undanþága varðandi rekstur apóteka og afgreiðslu í þeim. Ég legg ríka áherslu á að undanþágan verði ekki veitt nema í algjörum undantekningartilfellum og þá miðað við að það sé á hinum minni stöðum og horft til þess og það haft að leiðarljósi að ef ekki er hægt að reka lyfjaverslun nema með einum lyfjafræðingi ella leggist afgreiðslan af og þessi þjónusta verði ekki til staðar. Það yrði sú leiðbeining sem hv. ráðherra þarf að hafa í huga, að þetta mundi aldrei eiga við á höfuðborgarsvæðinu eða á stærri stöðum úti á landi.

Það var einnig rætt í nefndinni, herra forseti, að í nánustu framtíð mætti hugsanlega horfa til umfangs hverrar lyfjaverslunar og hversu margir lyfseðlar væru afgreiddir. Einnig á að leggja þær skyldur á herðar stærstu lyfjaverslununum að þar verði fleiri starfandi lyfjafræðingar en tveir sé umfangið það mikið að það verði metið svo að fleiri slíka þurfi. Einhvers staðar þarf að finnast flötur á því hvernig meta eigi umfang og hvenær ráðherra heimili ekki rekstur lyfjaverslunar án hinna tveggja lyfjafræðinga, sem sett er fram sem lágmarkskrafa.

Varðandi 1. gr. frv. um heilsuvörur og markaðssetningu á þeim er það nokkuð flókið. Vafðist töluvert fyrir hv. heilbr.- og trn. að finna orðalag þannig að ljóst væri að hægt væri að selja heilsuvörur án þess að heimila lýsingar og loforð um lækningarmátt umfram það sem framleiðandi gæti staðið við, þar sem þessi vara teldist ekki lyf og hefði ekki gengið í gengum það þróunarferli sem lyf verða að gera. Þetta er nokkuð vandasamt. Vissulega eru hér framleiddar vörur sem eru heilsuvörur, m.a. heppileg bætiefni fyrir heilbrigt fólk sem gera einnig mörgum sjúklingum gott en teljast ekki til lyfja.

[12:45]

Við gátum sem sagt ekki fundið heppilegra orðalag en það sem kemur fram í frumvarpinu, og reyndum að víkka aðeins þau áhrif sem efnin mega hafa. Í núgildandi lögum mega efnin ekki hafa áhrif á líkamsstarfsemi, en þetta er í raun og veru þrengt niður í líffærastarfsemi, þannig að það gefur meiri möguleika á auglýsingum eins og ,,Mjólk er góð`` o.s.frv.

En það sem er alveg ljóst er að í dag eru fluttar inn mjög margar tegundir af alls konar fæðubótarefnum og heilsuvörum erlendis frá. Þær vörur eru þá með merkingar sem gefa loforð um bætandi áhrif vörunnar og bætta heilsu, en á mörgum þeirra er tekið fram að varan hafi ekki farið gegnum viðurkenndan rannsóknarferil. Þessar vörur hafa því svona rýmri markaðssetningu en þær íslensku. Þetta er nokkuð sem við þurfum að skoða því það hlýtur að vera krafa okkar að ekki sé verið að selja hér innfluttar vörur sem hafi rýmri auglýsingaheimild heldur en þær íslensku og númer eitt, tvö og þrjú að ekki sé verið að lofa neinu umfram það sem eðlilegt má teljast með þessum erlendu vörum. Þetta er nokkuð sem verður að skoða vel.

Í umfjöllun okkar komu einnig fram möguleikar á lyfjafræðilegri umsjón lyfjaverslana. Þetta er ný þjónusta sem verið er að koma á, hugsanlega sem afsprengi af heilbrigðiskerfi okkar því á meðan við höfðum heilsugæslu sem nokkurn veginn hélt utan um sinn sjúklingahóp, þá var á sama tíma haldið utan um þau lyf sem hver og einn einstaklingur sem var skráður á heilsugæslustöðina tók inn. Þar af leiðandi var hægt að skoða víxlverkanir af þessum lyfjum, en í dag er þjónustan þannig að heilsugæslan er sprungin, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu. Fólk leitar þar að auki til þeirra sérfræðinga sem það helst vill og kýs og fær þar lyf og það er enginn einn sem heldur utan um þetta. Þetta er auðvitað stórhættulegt ástand, herra forseti, sem við þurfum að komast út úr og sú leið sem ég sé besta er að efla heilsugæsluna þannig að það verði hlutverk hennar, eins og það á að vera, að halda utan um lyfjanotkun sinna skjólstæðinga og vera þá á vaktinni ef viðkomandi þarf að taka inn lyf sem hefur víxlverkandi áhrif.

Við afgreiðslu þessara laga og í framtíðinni þurfum við alltaf fyrst og fremst að horfa til þess að öryggi sjúklinganna sé í fyrirrúmi en ekki rekstrarþáttur lyfjastofnananna, lyfjaverslananna, að það sé gróði þeirra sem stjórni okkur og afgreiðslu málsins. Við þurfum stöðugt að gæta fyllsta öryggis því að röng afgreiðsla á lyfjum getur verið lífshættuleg og þar þurfum við fyrst og fremst að standa vörð.