Nám í málm- og véltæknigreinum

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 13:11:43 (8201)

2002-04-24 13:11:43# 127. lþ. 128.2 fundur 691. mál: #A nám í málm- og véltæknigreinum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi RG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 127. lþ.

[13:11]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég spyr hæstv. menntmrh. um stefnuna varðandi málm- og véltæknigreinar:

1. Hver er stefna ráðherra varðandi nám í málm- og véltæknigreinum?

2. Hvert var markmiðið með flutningi námsins frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti til Borgarholtsskóla og hvernig hefur það reynst?

3. Hvar er fyrirhugað að kjarnaskóli verði fyrir greinina?

4. Hvernig er samstarfi við fræðsluráð málmiðnaðarins háttað?

Á málþingi Samtaka iðnaðarins í fyrradag var fjallað um þýðingu iðnnáms og spurt: ,,Er iðnmenntun óþörf eða órjúfanlegur hluti þekkingarsamfélagsins?``

Ingólfur Sverrisson hjá Samtökum iðnaðarins orðaði það svo: ,,Iðnmenntun er órjúfanlegur hluti þekkingarsamfélagsins. Mikilvægi góðrar iðnmenntunar hefur aldrei verið jafnaugljós og nú`` --- og hann vill hæfilega blöndu af bókviti og verkviti í askana.

Samkvæmt framhaldsskólalögum hefur starfsgreinaráð málmiðnaðar stórt hlutverk í mótun iðnnáms og ítarlegar umræður hafa farið fram á liðnum árum um framtíð menntunar í málmiðnaði milli menntmrn. og fræðsluráðs málmiðnaðarins um möguleika þess að fræðsluráði eða sjálfseignarstofnun á þess vegum taki að sér þann rekstur. Ég set ekki fram afstöðu til þess en vek athygli á viðræðunum.

Í haust lágu fyrir samningsdrög sem miðuðu að því að nýr skóli, Málm- og véltækniskóli Íslands, yrði rekinn við Borgarholtsskóla næstu fimm ár undir skólastjórn atvinnulífsins. Verður ekki annað séð en sú ákvörðun hafi orðið til í menntmrn. að flytja skólann til atvinnulífsins með samningi. Það er jafnframt ráðuneytið sem breytir um grundvallarstefnu og ákveður að kjarnaskóli verði, eftir því sem fréttir herma, í þremur tilteknum skólum. Báðar þessar ákvarðanir vekja spurningar um stefnu ráðuneytisins varðandi menntun í málmiðnaði. Virðist nú sem niðurstaða ráðuneytisins hafi orðið sú að kjarnaskóli í málmiðnaði verði í þremur skólum, í Hafnarfirði, á Akranesi og í Borgarholti. Að óljóst hafi verið um stefnumörkun til framtíðar þegar einhliða ákvörðun menntmrn. var tekin um að leggja niður öfluga málmiðnaðarkennslu við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og hún flutt í Borgarholtsskóla.

Þessar ráðstafanir vekja líka spurningu um hvort efni hafi staðið til að flytja verkmenntun utan af landi suður í stóru skólana miðað við þróun mála, hvort ekki hefði verið ástæða til að hafa myndarlega deild á Akureyri tengda kjarnaskólanum fyrir sunnan. Það er varla ofsagt að fjölbreytt iðnmenntun er undirstaða öflugs atvinnulífs og að mikilvægt er að skapa góð skilyrði fyrir hvers konar iðnnám og hlúa að þeim greinum þar sem farið er að halla undan fæti. Í málmiðnaði færist það í vöxt að t.d. útlendingar sem ekki eru með próf en hafa reynslu ráði sig til starfa. Æ færri fara í nám, margir hafa áhyggjur af þróun mála í málmiðnaði og óttast jafnvel að greinin leggist af. Því inni ég nýjan menntmrh. eftir stefnu hans því sjaldan hefur verið jafnbrýnt að tryggja öflugt námsframboð í þessum þýðingarmiklu iðngreinum og einmitt nú.