Nám í málm- og véltæknigreinum

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 13:15:00 (8202)

2002-04-24 13:15:00# 127. lþ. 128.2 fundur 691. mál: #A nám í málm- og véltæknigreinum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 127. lþ.

[13:15]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Spurt er: ,,Hver er stefna ráðherra varðandi nám í málm- og véltæknigreinum?``

Svarið er svohljóðandi: Nýlega hafa verið gefnar út metnaðarfullar námskrár í málm- og véltæknigreinum. Námskrárnar eru unnar í nánu samráði við atvinnulífið í greinunum. Skipan námsins byggist á því að sameiginlegur grunnur er fyrir þá sem ætla að læra bíliðngreinar, blikksmíði, rennismíði, stálsmíði og vélvirkjun. Að grunnnáminu loknu tekur svo við sérhæfing í fyrrtöldum greinum. Námskrá fyrir grunnámið kom út árið 1999 og fyrir sérhæfinguna í fyrra. Stefnan í þessu efni mótast af áherslum hinna nýju námskráa og viðleitni til að tryggja sem best framkvæmd kennslunnar til hagsbóta fyrir nemendur og fyrirtækin í atvinnugreininni.

Önnur spurningin er: ,,Hvert var markmiðið með flutningi námsins frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti til Borgarholtsskóla og hvernig hefur það reynst?``

Krafan um meiri sérhæfingu í verklegri kennslu iðngreina í framhaldsskólunum hefur verið vaxandi undanfarin ár og því nauðsynlegt að búa kennslunni sem best skilyrði. Það getur hins vegar kallað á að fækka verði kennslustöðum ef um fámennar greinar er að ræða. Í anda þessa var kennsla í málmiðnaði flutt úr Fjölbrautaskólanum í Breiðholti í Borgarholtsskóla sem frá upphafi var hannaður til að geta skapað þeirri menntun fyrsta flokks aðstöðu, en Fjölbrautaskólinn í Breiðholti hefur búið við þröngan húsakost.

Ekki er vafi á því að í Borgarholtsskóla hefur verið komið á laggirnar aðstöðu til kennslu í málm- og véltæknigreinum sem stenst samanburð við það sem gott er talið í nágrannalöndum okkar. Ekki hefur verið gerð úttekt á því hvernig til hefur tekist með flutninginn frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti til Borgarholtsskóla en að mati ráðuneytisins var það rétt ákvörðun. Þar var byggt húsnæði bæði fyrir málmiðngreinar og bíliðnir sem eiga talsvert mikið sameiginlegt, t.d. sameiginlega grunndeild.

Þriðja spurningin er: ,,Hvar er fyrirhugað að kjarnaskóli verði fyrir greinina?``

Svarið er svohljóðandi: Á árinu 1998 hófst athugun á kostum þess að fela fagaðilum í málmiðngreinum að annast rekstur skóla er sæi um kennslu í málm- og véltæknigreinum samkvæmt námskrá ráðuneytisins. Niðurstaða þeirrar athugunar lá fyrir í nóvember 2001. Að athuguðu máli taldi ráðherra ekki unnt að stofna sjálfstæðan einkarekinn málmiðnaðarskóla. Þegar þessi niðurstaða var fengin lá ljóst fyrir að leita yrði nýrra leiða til að bæta framkvæmd starfsnáms í málmiðnaði. Var ákveðið að leita þeirra leiða m.a. með skipulegu samstarfi þriggja framhaldsskóla sem starfrækja málmiðndeildir, Borgarholtsskóla, Iðnskólans í Hafnarfirði og Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi auk Verkmenntaskólans á Akureyri. Tilgangur samstarfsins er að skilgreina og afmarka þá þætti í starfsemi málmiðndeilda sem betur mega fara og leita leiða til úrbóta.

Þá er einnig ástæða til að fylgja sérstaklega eftir nýrri námskrá í málmiðngreinum og athuga hvernig framkvæmd hennar verður best háttað. Ráðuneytið telur jafnframt brýnt að aðilar á vinnumarkaði komi að þessu samstarfi. Búið er að funda með skólameisturum skólanna og leggja drög að næstu skrefum í framgangi málsins.

Síðasta spurningin hljóðar svo: ,,Hvernig er samstarfi við fræðsluráð málmiðnaðarins háttað?``

Eins og fram kom áðan hefur ráðuneytið átt í nánu samstarfi við fræðsluráð málmiðnaðarins um einkaskóla í málmiðnaði. Þótt þær viðræður skiluðu ekki niðurstöðu hafa þær skilað margháttuðum lærdómi um skipulag og áherslur í fræðslumálum málm- og véltæknigreina. Auk þess hefur ráðuneytið falið fræðsluráðinu ýmis verkefni, svo sem umsýslu námssamninga og framkvæmd sveinsprófa í málmiðngreinum. Ráðuneytið væntir þess að gott samstarf verði við fræðsluráðið áfram eins og hingað til þótt ekki tækist að ná sameiginlegri niðurstöðu um að það tæki að sér starfrækslu skóla í málmiðnaði.