Nám í málm- og véltæknigreinum

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 13:22:04 (8205)

2002-04-24 13:22:04# 127. lþ. 128.2 fundur 691. mál: #A nám í málm- og véltæknigreinum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 127. lþ.

[13:22]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör hans. Þau staðfesta það sem ég var búin að heyra, að úrbætur þarf að gera í þessum efnum.

Fyrst um kjarnaskólann. Ég skoðaði ákvæði framhaldsskólalaganna um þetta efni áður en ég flutti þessa fyrirspurn og ég get ekki lesið þau öðruvísi en svo að um sé að ræða einn kjarnaskóla sem aðrir skólar eða deildir styðjast við. Það sem hann upplýsir hér um skipulegt samstarf þriggja skóla hér fyrir sunnan og Verkmenntaskólans á Akureyri er í raun og veru önnur leið og hef ég enga skoðun á því á þessu stigi.

Í öðru lagi vil ég líka nefna það í tengslum við Borgarholtsskóla að þar sem það virðist greinilega hafa verið skoðað að hafa grunnnámið sameiginlegt fyrir þessar iðngreinar þá hafi átt að fá þar atvinnulífið inn í reksturinn á framhaldsnáminu. Þannig var Bílgreinasambandið með framhaldsnámið samkvæmt samningi sem gerður var til tveggja ára og með tveggja ára möguleika. En Bílgreinasambandið er farið út og sér núna um framhaldsnámið annars staðar. Því er nokkuð þokukennt hvernig gengið hefur með stefnumótunina og hvernig það er hugsað að fara í þessi mál.

Ég vil segja vegna þeirra athugasemda sem komu frá öðrum þingmönnum, sem ég þakka fyrir, að á námsstefnunni sem ég vísaði til í upphafi kom fram að í byrjun síðasta áratugar útskrifuðust almennt 800--900 manns með sveinspróf. Núna 2001 voru þeir komnir í 529. Þetta er mjög alvarlegt. Ég tek undir aðvörunarorð þeirra.

Það var líka niðurstaða þeirra fulltrúa sem áttu viðræður við menntmrn., sem runnu út í sandinn, að mikil og knýjandi þörf sé á að taka alla framkvæmd starfs- og verknáms á Íslandi til alvarlegrar umræðu í þjóðfélaginu og auka skilning á þýðingu þess fyrir velferð þjóðarinnar.

Herra forseti. Að sjálfsögðu munum við taka þessi mál upp aftur á hausti komanda þegar ráðherrann hefur fengið tækifæri til þess að setja fingraför sín á þetta þýðingarmikla nám.