Aðflutningsgjöld af hljóðmagnarasettum til kennslu

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 13:31:57 (8209)

2002-04-24 13:31:57# 127. lþ. 128.3 fundur 692. mál: #A aðflutningsgjöld af hljóðmagnarasettum til kennslu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 127. lþ.

[13:31]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. jákvæðar undirtektir við fyrirspurn minni og veit að hann sem reyndur kennari frá fyrri tíð þekkir til vandamála eins og þeirra sem ég rakti áðan varðandi rödd kennara. Mér er ljóst að hæstv. menntmrh. hefur ekki vald á breytingum á tollalögum beinlínis, en mér fannst eigi að síður ástæða til að vekja athygli á mikilvægu máli með þessari fyrirspurn þannig að því yrði hreyft og gæti þá leitt til þess að það yrði skoðað.

Það er alveg rétt hjá hæstv. menntmrh. að líklega er ekki um mikla fjármuni að ræða en það fælist þá í því ákveðin hvatning til skólanna að kaupa slík tæki ef ríkið mætti kostnaði með því móti sem hér er lagt til. Ljóst er að ekki er það mikið fé almennt til tækjakaupa í skólum að menn séu útbærir á peninga jafnvel þó í þessu skyni sé, en hvati hvaðan sem hann kæmi væri til góðs. Ég bind því vonir við það að hæstv. menntmrh. beiti sér í málinu og við fáum að sjá afrakstur þess á næsta þingvetri.