Málefni Þjóðminjasafnsins

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 13:40:50 (8215)

2002-04-24 13:40:50# 127. lþ. 128.5 fundur 697. mál: #A málefni Þjóðminjasafnsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KolH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 127. lþ.

[13:40]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég beini svohljóðandi fyrirspurn til hæstv. menntmrh. um málefni Þjóðminjasafnsins:

Hvað líður vinnu við endurbætur á Þjóðminjasafninu við Suðurgötu og hvenær er gert ráð fyrir að safnið verði opnað að nýju?

Kunnara er en frá þurfi að segja, herra forseti, að UNESCO, eða menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, hefur lagt til eða ákveðið öllu heldur að árið í ár, 2002, sé helgað varðveislu menningarverðmæta. Og það er auðvitað þyngra en tárum taki að á ári sem slíku skuli Íslendingar þurfa að horfast í augu við það að Þjóðminjasafnið skuli vera lokað fimmta sumarið í röð.

Sumarið 1998 var sýningum safnsins lokað og gerð var verk- og tímaáætlun um endurbætur þess, sem hefur nú verið til endurskoðunar oftar en einu sinni og eftir því sem fregnir herma mun vera gert ráð fyrir að safnið opni eða verkið klárist í febrúarlok 2003.

Nú er eðlilegt að við fáum hæstv. menntmrh. til þess að fjalla frekar um þetta við okkur hér, ekki síst í ljósi þess að á málþingi sem nýverið var haldið á vegum Samtaka ferðaþjónustunnar og samgrn. í Þjóðmenningarhúsinu, voru mjög áberandi og háværar þær raddir sem hvöttu til þess að allt yrði gert sem hægt væri til þess að Þjóðminjasafnið gæti farið að opna. Talið er að á því tímabili sem safnið er búið að vera lokað og gert er ráð fyrir að það verði lokað, séu um 1,5 milljónir ferðamanna að fara um hér í Reykjavík. Það er skelfilegt til þess að vita að þetta safn okkar sem hefur að geyma minjar um menningu okkar frá miðöldum skuli vera lokað og ekkert annað í rauninni hægt að bjóða þessum ferðamönnum upp á sem hingað heimsækja okkur.

Auðvitað er freistandi líka, herra forseti, að leggja út af þeirri frétt sem skýrir frá því í dag í Dagblaðinu að áætlaður kostnaður við þær endurbætur hafi svo hækkað frá upphaflegri áætlun úr 670 millj. kr. í 890 millj. kr., eða um tæpar 200 milljónir. Þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál, sérstaklega þegar litið er til þess, herra forseti, að þetta er ekki fyrsta framkvæmdin af þessu tagi á vegum hins opinbera sem fer svona gífurlega úr böndunum hvað varðar framkvæmdakostnað, ég efast nú um að menn séu búnir að gleyma umræðunni sem við fórum hér í gegnum um endurbætur á Þjóðmenningarhúsinu og framúrkeyrslunni þar. Ég verð að segja, herra forseti, að sú lexía sem menn þóttust hafa lært á þeim mistökum virðist ekki ætla að skila sér og það ber að líta afar alvarlegum augum og vissulega lítur þetta sýnu verr út fyrir ríkisvaldið, þegar til þess er litið að hér fara sömu aðilar með málið fyrir hönd þess og keyrðu fram úr kostnaðaráætlunum við endurbætur Þjóðmenningarhússins.

Herra forseti. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað líður vinnunni við endurbætur Þjóðminjasafnsins og hvenær er gert ráð fyrir að það opni að nýju?