Málefni Þjóðminjasafnsins

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 13:46:32 (8218)

2002-04-24 13:46:32# 127. lþ. 128.5 fundur 697. mál: #A málefni Þjóðminjasafnsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 127. lþ.

[13:46]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég tek undir með þeim ræðumanni sem talaði hér á undan mér að þessi staða í málum Þjóðminjasafnsins er algjörlega ótrúleg. Árið 1998 var okkur gefið það fyrirheit að þetta mundi taka ár. Svo var því nú enn frestað um ár vegna þess að það hefði kostað svo mikið að byggja upp geymslurnar í Kópavogi. Síðan hefur þessu verið frestað frá ári til árs á sama tíma og á hverju ári hafa menn staðið blóðugir upp fyrir axlir að skera niður Endurbótasjóð menningarbygginga svo ekki væri nú hægt að koma þessu verki almennilega áfram.

Ég verð að segja um stöðuna í þessu máli núna, þ.e. að húsið skuli standa fokhelt eftir að búið er að eyða 900 milljónum og engin áætlun til um hvað kosti að koma upp sýningu í húsnæðinu eftir að viðgerð lýkur, að sú staða er alveg ótrúleg og til mikils vansa á sama tíma og eytt hefur verið stórfé í að koma upp þessu dúkkusafni hérna uppi á Hverfisgötu, Þjóðmenningarhúsinu.