Málefni Þjóðminjasafnsins

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 13:50:05 (8220)

2002-04-24 13:50:05# 127. lþ. 128.5 fundur 697. mál: #A málefni Þjóðminjasafnsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 127. lþ.

[13:50]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Menn hafa farið nokkuð geyst hér og í raun er sjálfsagt að upplýsa að ekkert liggur fyrir um að kostnaðaráætlanir hafi farið úr böndum í þessu máli. Það er bara alveg sjálfsagt að upplýsa menn um það ef því er að skipta í skýrslu. (SJS: Gott, takk.)

Ég vil sérstaklega taka fram um grunnsýninguna að verið er að þróa þá hugmynd. Endanleg útfærsla á henni liggur ekki fyrir. Það er verið að vinna eðlilega að þessu máli. Ég vil minna menn á að sýningartækni og það sem stendur söfnum til boða í tæknimálum nú er sífellt að breytast. Sá sem hér stendur hefur lagt á það áherslu í sérstakri skýrslu sem hann hefur birt að bestu fáanlegri sýningartækni eigi að beita til að kynna menningararfinn. Eru menn svo mikið að flýta sér að þeir vilji frekar opna sem allra fyrst án þess að hafa skoðað þessa möguleika? Ég er alveg sannfærður um að hv. fyrirspyrjandi, Kolbrún Halldórsdóttir, er mér sammála um að þessa hluti á að skoða vel og vandlega. Það skiptir minna máli hvaða dagsetning er sett á hvenær við opnum safnið heldur en hitt að það verði gert af metnaði (Gripið fram í: ... búið að skoða það.) og það verði gert vel.

Hér komu fram áðan upplýsingar um að áætlanir um geymslu í Kópavogi hefðu brugðist. Eigum við að minna á það? Ætlunin var að leigja húsnæði eða geymslur fyrir muni safnsins í Holtagörðum eins og ég hygg að hv. þm. sem kom fram með þessa fullyrðingu viti. En leigu á geymslum safnsins í Holtagörðum var sagt óvænt upp og ekki fannst annað hentugt leiguhúsnæði. Við þær aðstæður lá ljóst fyrir að æskilegt væri að finna húsnæði sem nýst gæti sem geymsluhúsnæði og það til framtíðar. Þetta var sem sagt vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna. Þessu lá ekki áætlun til grundvallar. Menn gerðu það sem best var við þessar aðstæður og leystu málið. En það var dýrara en menn hefðu kosið ef þeir hefðu haldið þessu leiguhúsnæði. Ég bið menn því að fara vandlega yfir þetta mál. Það er sjálfsagt að upplýsa menn um það eins vel og hægt er. En ég vil jafnframt leggja áherslu á að okkur er það öllum mikilvægt að þarna verði vel að málum staðið og þegar sýningin verður opnuð þá verði hún okkur til sóma.