Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 20:02:21 (8222)

2002-04-24 20:02:21# 127. lþ. 129.1 fundur 542#B Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, BH
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 127. lþ.

[20:02]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Við lifum á spennandi tímum þar sem möguleikarnir til að fara um heiminn til náms eða starfa verða sífellt meiri og tækifærin eru óteljandi. Hlutverk stjórnmálamanna hefur breyst og felst helst í því að setja almennar og skýrar leikreglur með almannahagsmuni í fyrirrúmi, með öðrum orðum að skapa þau skilyrði og lífskjör á Íslandi að landið sé aðlaðandi staður til búsetu fyrir fólk og fyrirtæki. En aukið flæði fólks og fjármagns milli landa vekur líka upp spurningar um stöðu þjóðríkisins og lýðræðisins. Alþjóðavæðingin er sögð ógna lýðræðinu. Forseti Íslands viðraði slíkar hugmyndir á þemaráðstefnu Norðurlandaráðs nýverið og eitt af því sem hann nefndi til sögunnar sem mundi ýta undir þessa þróun er möguleg aðild Íslands að Evrópusambandinu. Er það virkilega svo að þróunin á stjórnmálavettvangi sé eitthvað sem við þurfum að óttast? Er þverrandi vald stjórnmálamanna til marks um lýðræðishalla? Mundi Evrópusambandsaðild ýta undir slíka þróun? Er raunveruleg hætta á því að við köstum þjóðmenningu okkar, fullveldi og sjálfstæði á glæ ef við tökum virkan þátt í slíku samstarfi?

Nei, góðir landsmenn, ég er algjörlega ósammála slíkum málflutningi. Við eigum ekki að óttast þá þróun sem á sér stað, við eigum þvert á móti að fagna henni og aðlaga lýðræði okkar að henni í stað þess að ríghalda í fyrirkomulag fortíðarinnar.

Ég get tekið undir með Carl Bildt, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, er hann lýsti því þannig að í framtíðinni muni lýðræðið virka á mismunandi stigum. Við mundum hafa staðbundið lýðræði á mismunandi stöðum, í mismunandi löndum, þjóðlýðræði, evrópskt lýðræði, og einn fagran dag mundum við kannski byggja upp alþjóðlegt lýðræði. Við eigum ekki að byggja lýðræði framtíðarinnar á þörfum fortíðarinnar heldur þörfum framtíðarkynslóðanna.

Forseti Íslands nefndi í ræðu sinni á áðurnefndri ráðstefnu þá Evrópu sem birtist honum á uppvaxtarárum hans þar sem aðeins örfá ríki gátu talist lýðræðisríki, önnur voru ýmist ofurseld nasistum, fasistum eða kommúnískum stjórnarháttum. Það er margt til í þessari lýsingu á Evrópu um miðja síðustu öld en við skulum líka vera minnug þess að það var einmitt þessi mynd sem varð til þess að hugmyndin um Evrópusambandið varð til. Það var bitur reynsla Evrópubúa af stöðugum illdeilum milli nágrannaríkja, deilum sem í tímans rás höfðu leitt af sér ofurháa múra utan um ríkin sem byggðu álfuna. Að loknum hörmungum heimsstyrjaldanna á síðustu öld óx hugsjóninni um sterka samvinnu Evrópuríkjanna í nafni friðar ásmegin. Hún snerist reyndar í aðra röndina um viðskipti og markaði en undirliggjandi var einlæg ósk um frið til handa þeim sem álfuna byggja.

Við getum ekki leyft okkur að útiloka möguleikana sem kunna að felast í aðild að Evrópusambandinu fyrir fram og ganga út frá því að við munum aldrei ná viðunandi samningum í sjávarútvegi, að við munum missa fullveldi okkar, að við munum ekki hafa hagstjórnina lengur í okkar höndum. Okkur ber að skoða með opnum huga hvað fælist í upptöku t.d. sameiginlegs gjaldmiðils en samkvæmt útreikningum Þjóðhagsstofnunar er áætlað að við upptöku evru mundi raunvaxtastig lækka um 1,5--2% sem mundi á ársgrundvelli valda lækkun vaxtagreiðslna um 15 milljarða. Við hljótum að velta því fyrir okkur hvort íslensk fyrirtæki þoli til lengdar þá skertu samkeppnishæfni sem kann að fylgja því að standa utan evrunnar.

Góðir áheyrendur. Það er lykilatriði hverjar sem hugsjónir okkar stjórnmálamannanna kunna að vera að landsmenn allir fylgist með og taki þátt í umræðunni um framtíðarmöguleika Íslands í Evrópusamfélaginu. Samfylkingin hefur lagt mikla vinnu í undirbúning og kynningu á kostum og göllum Evrópusambandsaðildar og hyggst að lokum leggja spurninguna um aðild fyrir flokksmenn í póstkosningu í haust. Við viljum virkja okkar fólk til þátttöku í umræðunni, minnug þess að að lokum mun það verða hin íslenska þjóð sem tekur ákvörðunina ef til þess kemur að um aðild verði sótt.

Ég heimsótti nýverið frændur okkar Norðmenn og ræddi þar m.a. við Jens Stoltenberg, fyrrverandi forsætisráðherra Norðmanna, um Evrópumálin en norskir stjórnmálamenn eru brenndir af þeirri reynslu sinni að hafa tvisvar borið samning um Evrópusambandsaðild undir þjóðina sem jafnoft hefur hafnað honum. Látum það ekki verða örlög okkar að einangra umræðuna svo við stjórnmálamennina að þjóðin fylgi okkur ekki. Án þátttöku almennings í umræðunni verður ekki sátt um niðurstöðuna hver sem hún verður á endanum. Þá er sama hvort við teljum að fara eigi hratt eða hægt í nálgun okkar við Evrópu. Hlustum á fólkið sem býr í landinu og virkjum það með okkur í umræðunni.

Um leið og við Íslendingar förum að taka virkari þátt í fjölþjóðlegu samstarfi, ef við ætlum að gera okkur gildandi í samfélagi þjóðanna, er mikilvægt að færa ákvarðanatöku og heimavelli nær fólkinu. Ella er hætta á að fólkið gleymist í alþjóðavæðingunni. Þetta er þó ekki gert með því að taka upp hreppapólitík fortíðarinnar heldur með því að efla nærþjónustu og samráð.

Samfylkingin gengur víðast til sveitarstjórnarkosninga í vor undir kjörorðinu ,,Íbúalýðræði -- fjölskylduvænt samfélag``. Kjarninn í þeim boðskap felst í kröfunni um aukið samráð við íbúa á sem flestum sviðum og því að fjölskyldan og þarfir hennar sé sett í öndvegi við mótun stefnu í sveitarfélögunum.

Nú þegar hafa verið gerðar skemmtilegar tilraunir með íbúaþing í mörgum sveitarfélögum og fleiri eru fyrirhuguð á næstunni. Reykjavíkurborg hefur í mótun sinnar stefnu undanfarin tvö kjörtímabil lagt áherslu á íbúalýðræði og þar hefur tekist vel til. Mér er nærtækt að nefna hverfið mitt, samræmda þjónustu í Miðgarði í Grafarvogi, og virka þátttöku íbúa hverfisins í mótun stefnunnar og fyrirhugaðri stofnun hverfaráða víðar í borginni. Þá má auka íbúalýðræðið með því að nota í auknum mæli beint og milliliðalaust lýðræði en kosningin um Reykjavíkurflugvöll er gott dæmi um slíka viðleitni. Í slíkum aðferðum, beinu og milliliðalausu lýðræði, auknu samráði við íbúa sveitarfélaga og landsins alls og auknu vægi sveitarstjórnarstigsins felast miklir möguleikar.

Landsmenn allir þurfa líka að hyggja vel að þeirri öru búsetuþróun sem hefur átt sér stað hér á landi á umliðnum áratugum með tilheyrandi afleiðingum. Áherslur í byggðamálum þarf að vinna í eins mikilli sátt og kostur er, t.d. með því að kalla til samvinnu heima í héraði til að fjalla um stöðu og möguleika viðkomandi svæðis. Ég nefni hér sem dæmi nýlegt frumkvæði Vestfirðinga sem létu ekki bjóða sér byggðaáætlun sem var heimatilbúin í ráðuneytinu heldur smíðuðu sína eigin.

Byggðamál eru í raun öll þau mál sem áhrif geta haft á búsetuskilyrði fólks. Samfylkingin vill að fólki um land allt sé gert kleift að nýta og njóta sérstöðu sinnar heimabyggðar, bæði í atvinnu- og menningarmálum. Við leggjum líka höfuðáherslu á jöfnuð hvað varðar þjónustu hins opinbera og að fólki séu sköpuð jöfn tækifæri til þátttöku, m.a. með jöfnun lífskjara varðandi kostnað við menntun og húshitun.

Byggðamál snúast nefnilega ekki bara um landsbyggðina heldur um það hvernig við viljum byggja Ísland. Í þeim anda þarf að vinna ef við viljum ná árangri í því að viðhalda fjölbreytileik byggðar og menningar á Íslandi.

Góðir áheyrendur. Það er fátt sem Íslendingum er kærara en sjálfstæðið. Hið nýfengna sjálfstæði okkar er dýrmætt, bæði hið stjórnmálalega sem fólst í fullveldinu og stofnun lýðveldisins, en einnig hið efnahagslega. Þetta tvennt er líklega ásamt sjálfum menningararfinum það dýrmætasta sem þessi þjóð á og okkur ber að varðveita það. En við skulum líka hafa augun opin fyrir því hvernig það verði best gert í ljósi nýrra tíma.

Ég hef áður nefnt mikilvægi þess að ganga óhrædd til móts við alþjóðlegt samstarf á sem flestum sviðum því auðvitað snýst fullveldið um það að hafa áhrif. En alþjóðlegt samstarf getur líka snúist um það að viðhalda efnahagslegum stöðugleika. Við höfum séð ákveðin hættumerki í íslensku efnahagslífi og það er mikilvægt að við þeim sé brugðist.

Alþýðusamband Íslands hefur ásamt Samtökum atvinnurekenda unnið gríðarlega mikilvægt starf á síðustu missirum til að standa vörð um stöðugleikann, og það er lykilforsenda góðra lífskjara í landinu að áfram sé haldið á þeirri braut. Verkalýðshreyfingin og atvinnurekendasamtökin hafa áður lyft grettistaki í því markmiði að snúa við óheillaþróun í efnahagslífinu og nú hefur aftur fallið í þeirra skaut að eiga frumkvæði að því að bregðast við þeim hættum sem nú steðja að efnahagslífinu. Það tók ríkisstjórnina reyndar marga mánuði að horfast í augu við þann veruleika sem stefndi í og fallast á að setjast að aðgerðaborði með verkalýðshreyfingu og atvinnurekendum. Það veltur því mikið á árvekni aðila vinnumarkaðarins á meðan þessi ríkisstjórn situr.

Að lokum, góðir landsmenn, vil ég vekja athygli á því að veturinn er á enda runninn og ég tek undir með skáldinu sem sagði: Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga. --- Gleðilegt sumar.