Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 20:12:52 (8223)

2002-04-24 20:12:52# 127. lþ. 129.1 fundur 542#B Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 127. lþ.

[20:12]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Það er venja við eldhúsdagsumræður hér á Alþingi að hverfa frá hversdagslegu stjórnmálakarpi og horfa yfir þingstörf og þjóðmál liðins vetrar í heild. Ríkisstjórnarflokkarnir geta verið stoltir af árangri sínum á þessu löggjafarþingi. Hagkerfið stendur traustari fótum en flestir höfðu þorað að vona. Hrakspár formanna stjórnarandstöðuflokkanna um brotlendingu íslenska hagkerfisins munu ekki rætast. Þvert á móti bendir allt til efnahagslegrar snertilendingar þannig að eftir stutt tímabil samdráttar taki við kröftugur hagvöxtur strax á næsta ári og kaupmáttur almennings aukist enn. Það er því fyllsta ástæða fyrir okkur öll að líta bjartsýn fram á veg.

Fyrir skömmu var birt álit sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á íslensku efnahagslífi. Þar er m.a. fjallað um hinn mikla hagvöxt á Íslandi á undanförnum árum en síðan segir, með leyfi forseta:

,,Þessa frammistöðu má að miklu leyti þakka stefnu stjórnvalda í eflingu markaðsbúskapar, hagræðingu í opinberum rekstri, einkavæðingu og öðrum umbótum sem hafa stuðlað að auknu frumkvæði einstaklinga, fjárfestingu og hagvexti. Góður árangur í að vinna bug á verðbólgu á fyrri hluta síðasta áratugar og hagstjórn sem miðaði að stöðugleika og festu lögðu grunn að hagvaxtarskeiðinu. Mikilvæg í því sambandi var sú framsýni stjórnvalda og staðfesta við að ná tökum á fjármálum hins opinbera og snúa fjárlagahalla fyrri ára í afgang, lækkun á nettóskuldum ríkisins og greiðslur til þess að mæta framtíðarskuldbindingum opinbera lífeyriskerfisins.``

Þetta voru ekki mín orð, herra forseti, eða ríkisstjórnarinnar heldur orð óháðra erlendra sérfræðinga. Og matsfyrirtækið Moody's sem hefur sömuleiðis nýlega kynnt niðurstöður sínar staðfestir að hið góða lánshæfismat Íslands skuli standa óhaggað. Þær ástæður eru m.a. tilgreindar fyrir þeirri niðurstöðu að skipulagsumbætur á síðustu árum hafi leitt til aukins fjölbreytileika efnahagslífsins, mikils hagvaxtar, jafnvægis á fjármálamarkaði og lækkunar á skuldum ríkisins.

[20:15]

Í augum þessara aðila er hinn mikli uppgangur hér á landi engin tilviljun, enda er hann það að sjálfsögðu ekki. Stefnan skiptir máli. Árangurinn er bein afleiðing af skynsamlegri stefnu ríkisstjórnarinnar.

Sjálfsagt kemur þetta þingmönnum stjórnarandstöðunnar nokkuð á óvart. Þeir hafa við ótal tækifæri haldið því blákalt fram að efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar væri svo vond og svo ónýt að ekkert gæti bjargað íslenska hagkerfinu frá djúpri lægð, jafnvel kreppu. Ekkert er fjær sanni, og ber öllum saman um að áframhaldandi góðviðri sé í vændum í íslensku efnahagslífi.

Á liðnu hausti voru afgreiddar hér á Alþingi mikilvægar skattkerfisbreytingar sem mælst hafa afar vel fyrir, bæði innan lands og utan. Þær eru liður í að bæta samkeppnisskilyrði í atvinnurekstri og tryggja íslenskum fyrirtækjum sem hagfelldast starfsumhverfi. Tekjuskattur á íslensk fyrirtæki er nú 18% en var um 50% þegar fyrsta ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tók við völdum. Það er ánægjulegt að sjá hve jákvæð áhrif þessi ákvörðun hefur þegar haft, og afleiðingar þessara breytinga eru alls staðar sýnilegar.

Skattalækkanir á fyrirtæki eru liður í áformum ríkisstjórnarinnar til að tryggja að á Íslandi sé sem best aðstaða til atvinnurekstrar og nýsköpunar. Það er grundvallarforsenda þess velferðar- og velmegunarsamfélags sem við viljum búa í. Það er til marks um árangurinn að því er spáð að í ár muni kaupmáttur launa aukast áttunda árið í röð. Slíkur árangur er mjög sjaldgæfur hvert svo sem litið er. Það sem þó meira er, honum er jafnar skipt hérlendis en annars staðar þekkist. Það sýndi rannsókn Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands á liðnum vetri um tekjuskiptingu á Íslandi. Sannleikurinn er sá að bæði eru lífskjör hér á landi góð og þeim er jafnar skipt en víðast hvar annars staðar. En auðvitað getum við samt gert enn betur og það á að vera, og það er, markmið okkar að bæta hag þjóðarinnar allrar.

Lágir skattar auka hvatningu fólks og fyrirtækja til að ná árangri. Ríkisstjórnin hefur ekki sagt sitt síðasta orð í þeim efnum og ætlar að halda áfram á braut skattalækkana, bæði gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum. Slíkar breytingar hafa ekki aðeins efnahagslega þýðingu, þær eru líka mikilvægur liður í því að auka fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga og svigrúm þeirra til að ráðstafa sjálfir eigin aflafé. Ein átakalínan í stjórnmálum snýst einmitt um þetta atriði. Við sjálfstæðismenn viljum auka fjárhagslegt sjálfstæði borgaranna á meðan vinstri flokkarnir stefna í þveröfuga átt.

Herra forseti. Nýlega kynnti ríkisstjórnin áform um veitingu ríkisábyrgðar vegna uppbyggingar lyfjaþróunar á vegum Íslenskrar erfðagreiningar. Þessari aðgerð er ætlað að stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi og hlúa að þróun hátækniiðnaðar á Íslandi. Þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar hefur verið gagnrýnd af ýmsum og að vissu leyti er slík gagnrýni merki um aukinn þroska íslensks efnahagslífs því ekki er langt síðan að ríkisábyrgðir í atvinnurekstri voru svo að segja daglegt brauð. En í þessu máli er um stórfellt tækifæri til nýsköpunar í þekkingariðnaði að ræða. Ábyrg stjórnvöld geta ekki lokað augunum fyrir því að stórverkefni á borð við 35 milljarða kr. uppbyggingu á sviði lyfjaþróunar mun ekki reka á fjörur Íslendinga nema með vissum atbeina hins opinbera.

Ríkið ábyrgist skuldbindingar Landsvirkjunar í tengslum við stórvirkjanir, og ekki er óeðlilegt að slíkt komi til álita þegar að því kemur að virkja mannauðinn á Íslandi til frekari stórafreka. Það er þó nauðsynlegt að hafa hugfast að þessi stuðningur ríkisins mun í einu og öllu verða í samræmi við reglur sem gilda um slíka aðstoð á Evrópska efnahagssvæðinu. Í því regluverki er beinlínis gert ráð fyrir því að stuðningur af þessu tagi geti komið til þegar um rannsóknar- og þróunarverkefni eins og hér um ræðir er að tefla. Og það er sérkennilegt að hér á Alþingi skuli ríkisstjórnin gagnrýnd harðlega fyrir að vilja nýta þessar reglur eins og aðrar Evrópuþjóðir gera og það í stórum stíl. Í þessu máli er ekki verið að kasta peningum almennings á glæ heldur búa nýrri atvinnugrein svigrúm til að skapa hér hundruð nýrra hálaunastarfa. Það væri mikill ábyrgðarhlutur að kasta slíku tækifæri frá sér.

Herra forseti. Á síðustu vikum hefur umræða um Evrópusambandið verið nokkuð áberandi hér á landi, og ekki fór á milli mála hvert hugur síðasta ræðumanns stefnir í þeim efnum. Stuðningsmenn þess að Ísland gangi í Evrópusambandið láta sem svo að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið sé ekki lengur fullnægjandi. Ég er ósammála þessu. Ég tel að fríverslunarhagsmunir okkar séu vel tryggðir með þeim samningi. Stuðningsmönnum aðildarviðræðna láist gjarnan að nefna kostnaðinn sem falla mundi á Íslendinga ef við værum aðilar að Evrópusambandinu en líklegt má telja að hann gæti orðið á annan tug milljarða króna árlega. Ef menn eru síðan tilbúnir að senda slíkan reikning til landsmanna þarf líka að spyrja í hvað þeir peningar mundu fara. Og svarið við spurningunni er að stór hluti af öllum útgjöldum Evrópusambandsins fer í niðurgreiðslur á óarðbærum landbúnaði í Evrópu. Fátt veit ég vitlausara en tillögur um að veita milljörðum króna af skattfé Íslendinga í þá botnlausu hít sem hin sameinaða landbúnaðarstefna Evrópusambandsins er sem þar að auki virðist algjörlega stjórnlaus.

Góðir tilheyrendur. Staða efnahagsmála á Íslandi er sterk. Það er bjart fyrir stafni. Gengi krónunnar hefur styrkst mjög að undanförnu. Allt bendir til þess að rauða strikið í maí muni halda og þannig verði komið í veg fyrir víxlverkun launa- og verðhækkana. Sá árangur næst með samstilltu átaki ríkisins, Alþýðusambandsins, Samtaka atvinnulífsins og fleiri aðila á vinnumarkaðnum.

Í dag er síðasti vetrardagur og innan nokkurra daga lýkur Alþingi störfum. Það er nokkru fyrr en venjulega vegna komandi sveitarstjórnarkosninga. Sveitarstjórnarmálin verða sífellt mikilvægari fyrir allan almenning og því er brýnt að kjósendur kynni sér málefnin til hlítar. Í Reykjavík er sérstaklega mikilvægt að ábyrg stjórn Sjálfstæðisflokksins taki við af R-lista vinstri manna og snúi við óheillaþróun síðustu ára í borginni. Sjálfstæðismenn í sveitarstjórnum um land allt hafa og sýnt að þeim er best treystandi til að sinna þeim úrlausnarefnum sem sveitarfélögin fást við. Ég vænti þess að þeir fái hvarvetna góðan stuðning. Um leið óska ég landsmönnum öllum gleðilegs sumars. Góðar stundir.