Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 21:28:41 (8233)

2002-04-24 21:28:41# 127. lþ. 129.1 fundur 542#B Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, SI
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 127. lþ.

[21:28]

Sigríður Ingvarsdóttir:

Herra forseti. Góðir landsmenn. Við Íslendingar verðum að nýta auðlindir okkar til lands og sjávar innan skynsamlegra marka til að auka hagsæld þjóðarinnar á komandi árum. Á þessu þingi náðum við afar mikilvægum áfanga í virkjunarsögu Íslands þar sem samþykkt var að veita Landsvirkjun heimild til þess að virkja vatnsföllin Jökulsá á Brú og Jökulsá í Fljótsdal. Með ákvörðun Alþingis höfum við stigið gríðarstórt spor fram á veginn til aukinnar nýtingar orkulinda þjóðarinnar. Nú er nauðsynlegt að ganga til samninga við trausta aðila sem tilbúnir eru til að fjárfesta í iðnaðaruppbyggingu á Austurlandi og það er ánægjulegt að einmitt í dag voru fulltrúar frá Alcoa á Austurlandi að skoða aðstæður og meta möguleika á uppbyggingu áliðju þar.

Kröflusvæðið gefur einnig mikla möguleika til uppbyggingar iðjuvers og þá ekki síður og jafnvel enn fremur Þeistareykjasvæðið sem er miðja vegu milli Húsavíkur og Mývatns. Rússneskt stórfyrirtæki hefur lýst yfir áhuga á að byggja súrálsverksmiðju og jafnvel einnig álverksmiðju þar og þegar hefur fyrirtækið varið 50 millj. kr. í rannsóknir á svæðinu. Líkur eru á að það muni á næstunni verja enn frekari fjármunum til rannsókna- og undirbúningsvinnu.

Verði af þessum framkvæmdum mun súrálsverksmiðja skapa vinnu fyrir 1.200--1.400 manns en álverið vinnu fyrir 700 manns. Þarna gætu því skapast um 2.000 störf og varla þarf að fara um það mörgum orðum hversu mikilvægt það yrði svæðinu. Umrætt fyrirtæki hefur þegar fest kaup á báxítverksmiðju í Vestur-Afríku en ætlunin er að flytja þaðan hráefni fyrir verksmiðjuna á Þeistareykjum, ef af henni verður.

[21:30]

Herra forseti. Sjávarútvegsmálin hafa verið fyrirferðarmikil á þessu þingi enda hafa mörg stórmál varðandi stjórn fiskveiða verið hér á dagskrá. Það var beðið með þó nokkurri eftirvæntingu eftir frv. um heildarendurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða, og mikil og góð vinna liggur að baki þeim tillögum sem þar eru settar fram. Og víst er að þar er reynt að koma til móts við sem flest skynsamleg sjónarmið og rök. Til að koma til móts við kröfur um að útgerðin borgaði meira fyrir afnotin af auðlindinni er ætlunin að leggja á afkomu- og magntengt veiðigjald. Þó að ég sé í rauninni ekki fylgjandi auknum álögum á útgerðina tel ég veiðigjald þó skynsamlegri kost en fyrningarleið stjórnarandstöðunnar sem að mínu mati mundi setja atvinnugreinina og byggðarlögin í uppnám. Og ég fullyrði að aldrei yrði sátt um þá leið, fyrir nú utan það að fyrningarleiðin mundi auka óvissu í atvinnugreininni og þar með draga úr möguleikum til að greiða hærri laun og hærri skatta til samfélagsins.

Sem betur fer var afkoma hjá flestum sjávarútvegsfyrirtækjum góð á síðasta ári en það þarf ekki að horfa mörg ár aftur í tímann til að sjá hið gagnstæða enda er sjávarútvegurinn í eðli sínu mjög sveiflukennd grein. Hvað svo sem annað má segja um veiðigjaldið er ljóst að það tekur mið af afkomunni, og útgerðarfyrirtækin fá góðan aðlögunarfrest áður en það leggst á með fullum þunga. Koma verður í veg fyrir að skattprósentan hækki á komandi árum því sjávarútvegurinn er slíkur drifkraftur í landinu að ef hann er þurrmjólkaður með ofsköttun er ljóst að bresta mun harkalega í öllu okkar hagkerfi.

Sjávarútvegurinn þarf á stöðugleika að halda. Ef löggjafinn getur skapað honum þann stöðugleika mun það án efa hafa góð áhrif á þjóðarbúið í heild. Skuldir sjávarútvegsins uxu mjög hratt þegar verr áraði en fyrirtækin hafa nú notað það svigrúm sem batnandi afkoma gefur til að greiða niður skuldir sínar og búa þannig í haginn fyrir framtíðina.

Það er dálítið skondið að hugsa til þess að á sama tíma og sumir stjórnarandstöðuþingmenn hafa verið að kalla á hærri skatta á sjávarútvegsfyrirtækin tala þeir jafnframt um nauðsyn skattfríðinda fyrir landsbyggðina. Gera þeir sér ekki grein fyrir að 92% kvótans eru staðsett á landsbyggðinni? Auknar álögur á sjávarútveginn munu að sjálfsögðu lenda að langmestu leyti á landsbyggðinni.

Unnið hefur verið að nýjum hafnalögum og eru þau í meðförum hv. samgn. Það er ljóst að með breyttu rekstrarformi hafnanna og minnkandi ríkisstyrkjum er útgerðinni ætlað að bera kostnað af rekstri hafna landsins. Það er eðlilegt að útgerðin standi straum af þeim kostnaði sem af henni hlýst en þó finnst mér eðlilegt að menn skoði þennan kostnað í ljósi veiðigjaldsins því verið er að seilast í vasa sömu fyrirtækja eftir þessum fjármunum.

Íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum er ætlað að borga bæði auðlindaskatt og aflagjald en þá er nauðsynlegt að minna á að þau keppa við erlend fyrirtæki um sölu á afurðum, erlend fyrirtæki sem mörg hver eru ríkisstyrkt og er ekki ætlað að borga slík gjöld.

Sú krafa var hávær úti í þjóðfélaginu að útgerðinni bæri að borga hærra gjald til þjóðarinnar fyrir afnotin af auðlindum hafsins. Við sjálfstæðismenn höfum alltaf varað við slíkum skattlagningarkröfum. Við höfum hins vegar talið skyldu okkar að beita okkur fyrir meiri almennri sátt um rekstrarumgjörð okkar mikilvægustu atvinnugreinar. Í því skyni höfum við þess vegna talið rétt að koma til móts við þessar kröfur. Það var gert og niðurstaðan varð afkomutengt veiðigjald.

Góðir áheyrendur. Við höfum sem betur fer ástæðu til að líta framtíðina björtum augum. Hér hef ég rætt um auðlindir til lands og sjávar en mikilvægasta auðlind okkar er fólgin í því fólki sem byggir þetta land. --- Góðar stundir og gleðilegt sumar.