Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 21:51:50 (8236)

2002-04-24 21:51:50# 127. lþ. 129.1 fundur 542#B Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, SvH
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 127. lþ.

[21:51]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég gat þess í lok ræðu minnar áðan að ég mundi víkja fleiri orðum að hinu fráleita ábyrgðarmáli sem hér hefur borið á góma. Ef það nær fram að ganga er það nýjasta dæmið um taumlausan yfirgang ríkisstjórnar gagnvart Alþingi af því sem það liggur alveg ljóst fyrir að hinn almenni þingmaður í liði stjórnarsinna gengur ekki hlæjandi til þess leiks, undir það jarðarmen, enda höfum við dæmin af sjálfum formanni efh.- og viðskn. sem lýsti því yfir að hann sjálfur væri andstæður málinu en hann yrði að fylgja því á Alþingi af því að það væri stjórnarmál. Þannig fylgja menn sannfæringu sinni nú orðið.

Um hvað fjallar þessi gríðarlega ábyrgð? Gagnvart hverjum er hún? Við höfum engar upplýsingar um það sérstaklega í því frv. sem hér er borið fram. Ekkert áhættumat hefur farið fram. Það eitt vitum við að þegar þetta fyrirtæki nam fyrst land á Íslandi voru seldir hlutir í því á genginu rúmlega 60. Hvert hefur gengið í þessu fyrirtæki verið að undanförnu? 5,5, en í kvöld var ný frétt um að gengið í því fyrirtæki hefði lækkað um 16% í dag, frá því í morgun og fram á kvöld. Fyrirtækið er þess vegna augljóslega á hríðfallanda fæti. En hér á að ganga í 20 þús. millj. kr. ábyrgð fyrir það, og allar reglur þverbrotnar. Hér voru ítarleg lög sett 1997 um ríkisábyrgðir til þess að girða fyrir þau lausatök sem áður höfðu gilt um slíkar ábyrgðir. Þær eru allar þverbrotnar, engin þeirra reglna á að gilda nema sú þýðingarminnsta, 5. gr. þeirra laga, sem fjallar um að úttektir skuli gerðar jafnaðarlega. Þetta fyrirtæki mundi borga ríkisábyrgðargjald sem gæti numið, samkvæmt lögunum, frá 50 millj. upp í 800 millj. kr. Það er talið að þessi greiði, þessi persónulegi vinargreiði, muni hjálpa fyrirtækinu um betri kjör, vaxtakjör, sem muni nema um 500--600 millj. kr. En vafalaust mun það heldur ekki duga því til framhaldslífs. Þann veg er komið fyrir því.

Menn tala svo um að þeir sem mæla gegn þessari vitfirringu séu haldnir andúð og andspyrnu gegn nýiðnaði, þekkingariðnaði, hálaunastörfum, þar sem fjöldi manns getur fengið atvinnu. Hver er sá sem ekki kýs að stuðla að slíku? Og hver er sá sem ekki hefur áhuga á starfsemi eins og Íslensk erfðagreining hefur með höndum vegna hinnar sérstæðu aðstöðu í þjóðfélaginu? En þessi aðferð verður bara til þess að fjármunirnir tapast. Þessar 20 þús. millj. kr.

Það getur vel verið að þeir sem til þessa stofna hugsi sem svo: Fallið kemur eftir minn dag. En ég hygg að svo verði ekki. Það líða ekki margir mánuðir þangað til við stöndum frammi fyrir þessu.

Hvað um markaðsbúskapinn sem Sjálfstfl. boðar? Hvar standa sakir í þeim málum? Hvar og hvenær sem þeim sýnist þræða þeir fram hjá þessu. Og hvaðan í ósköpunum er þetta mál runnið? Það skyldi þó ekki vera að þetta væri persónulegur vinargreiði forsrh. við forsvarsmenn innan þessa fyrirtækis? Það skyldi þó ekki vera. Og hver er aðferðin? Því er kastað hér inn á síðustu starfsdögum þingsins. Formaður þingflokks Framsfl. var að kvarta undan því í hádegisútvarpi að áhættumat hefði ekki fylgt. Átti hann von á því? Dettur einhverjum í hug að hætt hafi verið á það að fá áhættumat sérfróðra manna? Ónei, að sjálfsögðu ekki, því þá hefði málið verið steindautt um leið.

Ég á lengri þingsögu að baki en flestir sem hér sitja en aldrei datt mér í hug að ég ætti eftir að standa frammi fyrir öðru eins. Nú ætla ég að vitna í forsrh. og halda hér uppi tilvitnuninni svo menn haldi ekki að ég sé að búa það til sem ég les upp. Slíkur skáldskapur er það að mér væri svo sem trúandi til þess því maðurinn hefur þótt geta gripið til skáldlegra lýsinga. Forsrh. um ríkisábyrgð til handa deCODE:

,,Áhættan minnkar jafnt og þétt`` er fyrirsögnin. ,,Ríkið sleppur bærilega þótt allt fari á versta veg.`` --- Sem sagt, þótt öll ábyrgðin falli á okkur sleppur það bærilega. Og svo kemur hér rökstuðningurinn til handa þingmönnunum sem eru að samþykkja þetta. Hann er svona, með leyfi forseta:

,,Eftir að við höfðum`` --- hann og Halldór Ásgrímsson því hann segir hér að þeir hafi átt ágæta samvinnu með þetta. Hér er ekki verið að tala um eitthvert Evrópusamband þar sem Halldór, að sögn Davíðs, er haldinn yfirgripsmikilli vanþekkingu á því máli --- ,,einnig séð það mat sérfræðinga að þetta mundi falla innan EES-samningsins og standast hann, sem við héldum kannski í byrjun að væri ekki, þá fannst okkur að það væri varasamt af okkur að missa þetta tækifæri sem gæti orðið stórkostlegt. Og jafnvel þótt það færi ekki svo vel að verða stórkostlegt gæti það orðið ágætt. Og jafnvel þó svo að það færi verr en það væri það samt innan viðráðanlegra marka.``

Þar hafið þið það, þið sem ætlið að ganga undir þetta jarðarmen.

Ég hef lokið máli mínu og á flest ósagt af því sem ég hefði viljað fram bera í þessu sambandi en ráð almennings við þessu framferði stjórnvalda er aðeins eitt: Það er að beita atkvæðisréttinum og refsa þeim rækilega, það er eina hirtingin sem að gagni kemur og eina hirtingin sem höfðingjarnir skilja.

Ég þakka áheyrnina og óska öllum landsmönnum góðs og gleðilegs sumars.