Afgreiðsla mála fyrir þinghlé

Föstudaginn 26. apríl 2002, kl. 10:14:18 (8247)

2002-04-26 10:14:18# 127. lþ. 130.91 fundur 550#B afgreiðsla mála fyrir þinghlé# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 127. lþ.

[10:14]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kem aðallega upp til að gera athugasemdir við orð hv. þm. Péturs H. Blöndals sem mér finnast fullkomlega óviðeigandi. Svo var að skilja á hv. þm. að starfi þingmanna lyki þegar Alþingi lyki fundum á vorin og menn væru í fríi, væntanlega þá til 1. október að hausti. Þá hefur hv. þm. Pétur Blöndal hugsað þetta starf allt öðruvísi en ég a.m.k. því að ég veit ekki annað en nógu sé að sinna sem þessu starfi tengist þó að fundahöld standi ekki á Alþingi. Þá fara menn í kjördæmi sín og sinna sambandi við kjósendur sína fyrir utan það að Alþingi starfar og er með umboð allt árið eins og hv. þm. veit væntanlega. Þingnefndir funda, fara í ferðalög o.s.frv. Þeir þingmenn sem sinna alþjóðlegum samskiptum eru uppteknir allt árið af og til vegna þeirra og þar fram eftir götunum þannig að það er alveg fráleitt að láta slík ummæli standa hér ómótmælt vegna þess að það gefur villandi mynd af störfum þingmanna að halda þessu fram. Þetta er hins vegar klisja sem er víða notuð til að gera lítið úr þessu starfi. En það er hart undir því að sitja að þingmenn sjálfir lemji á sjálfum sér með ummælum af þessu tagi.

Síðan er það augljóslega þannig, herra forseti, að það er eðlileg og réttmæt krafa og beinlínis fyrir hönd skynseminnar að menn ræði málin og skipuleggi störfin hér. Það snýst ekki endilega um það að semja efnislega um innihald mála heldur að skipuleggja fundahaldið og átta sig á því hvað er hægt að ná samkomulagi um o.s.frv. Samkvæmt starfsáætlun þingsins átti því að vera lokið og hún er auðvitað ekki sett út í bláinn. Menn vilja reyna að standa við hana geri ég ráð fyrir og auk þess eru sérstakar og gildar ástæður fyrir því að þingið átti að ljúka störfum núna óvenjusnemma til þess að sveitarstjórnarkosningarnar og sú barátta fái sviðið. Ég geri ráð fyrir því að margir þingmenn eða stjórnmálamenn vilji gjarnan vera þátttakendur í henni að einhverju leyti, fylgjast með og fara um þannig að öll rök hníga að því að reynt verði að ljúka þinginu sem næst starfsáætlunardeginum. Ég skildi ummæli virðulegs forseta í fjölmiðlum þannig í morgun að hugur hans stæði til þess að reyna að ná samkomulagi um það og það er vel.