Afgreiðsla mála fyrir þinghlé

Föstudaginn 26. apríl 2002, kl. 10:18:14 (8249)

2002-04-26 10:18:14# 127. lþ. 130.91 fundur 550#B afgreiðsla mála fyrir þinghlé# (aths. um störf þingsins), PHB
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 127. lþ.

[10:18]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Þegar ég kom inn á þing 1995 var það alsiða að stjórnarandstaðan tók ákveðin mál í gíslingu, fyrir áramót og fyrir lok þings á vorin. Þetta var gert til þess að ná fram ákveðinni tímaáætlun og stjórnarfrumvörp voru samin af, þ.e. þau voru dregin til baka að kröfu stjórnarandstöðunnar. Þetta er fráleit regla og fráleit vinnubrögð. Þetta er það sem menn hafa hætt við að nota og ég legg til að í staðinn fyrir að leyfa stjórnarandstöðunni að koma með slík mál í gíslingu, þá verði þinginu frestað og þingmenn, sem að sjálfsögðu vinna allt árið ... (Gripið fram í.) Ég sagði það aldrei. Ég starfa allt árið og ég undirbý frumvörp á sumrin og er mjög mikið á móti því að kalla að þingið sé að fara í frí. Þingið er ekkert að fara í frí, það er þinghlé. Og t.d. núna á næstunni munu þingmenn aðstoða félaga sína í sveitarstjórnarmálum, geri ég ráð fyrir, þingmenn úti um land og þingmenn á höfuðborgarsvæðinu. Það verður því mikil vinna á næstu vikum. En eftir það finnst mér bara eðlilegt að þingið komi saman aftur, vinni hér á þingfundum eins og annars staðar utan þings. Ég hef aldrei nokkurn tíma sagt að þingið sé starfslaust eða þingmenn séu í fríi. Þingmenn eru einmitt í vinnuhléi, hléi frá þingfundum og eru þá að starfa að öðrum málum, að semja frumvörp og annað slíkt. Það er því fráleit túlkun og dálítið undarlegt að túlka orð mín svona. (Gripið fram í.)