Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Föstudaginn 26. apríl 2002, kl. 11:30:05 (8252)

2002-04-26 11:30:05# 127. lþ. 130.11 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, Frsm. 2. minni hluta ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 127. lþ.

[11:30]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Það er margt sem ég vildi gagnrýna í málflutningi hv. þingmanns og mun gera það nánar í ræðu á eftir. En í fyrsta lagi vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann geri sér grein fyrir því að hin virtu fjárfestingarfyrirtæki sem hann vitnaði til, Lehman Brothers, Morgan Stanley og Robertson Stephens, eru öll viðskiptaaðilar deCODE og annast viðskipti fyrir þess hönd. Í öðru lagi spyr ég hvort hv. þingmanni finnist það ekki áhyggjuefni að efh.- og viðskn. sem er gert að fara yfir málið fær ekki að sjá viðskiptaáætlanir fyrirtækisins þrátt fyrir ítrekaða beiðni þar að lútandi. Í sambandi við hina vönduðu yfirferð í efh.- og viðskn. þingsins vil ég í öðru lagi taka fram að það er alveg rétt að þangað komu fulltrúar Seðlabanka, Ríkisendurskoðunar og annarra aðila en flestir þeirra sögðust ekki hafa forsendur til að meta máið. Það er kapítuli út af fyrir sig að t.d. fulltrúar Seðlabankans líti ekki á það sem skyldu sína að kafa ofan í þetta mál.

Í þriðja lagi vil ég nefna að grg. sem lesið var upp úr eða vitnað var til sem fylgir stjfrv. er að verulegu leyti samin af hálfu starfsmanna deCODE-fyrirtækisins þar sem talað er um þeirra eigið ágæti, og fékk ég það staðfest í efh.- og viðskn. þingsins af hálfu fulltrúa fjmrn.

Í fjórða lagi vil ég nefna að það er vitnað í að áætlanir fyrirtækisins um greiðslur hafi staðist. Við höfum ekki fengið sundurgreindar greiðslur til fyrirtækisins þar sem farið er í saumana á árangurstengdum borgunum. Ég vil nefna í því sambandi að fyrirtækið er ekki farið að borga neitt upp í þá samninga sem ríkið hefur gert við það um framkvæmdir hér innan lands. Allt þetta finnst mér vera áhyggjuefni og ég sakna þess í málflutningi hv. þm. sem er reyndur maður í viðskiptum og hefur sagt margt gott á því sviði. En hér fannst mér mikið skorta á.