Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Föstudaginn 26. apríl 2002, kl. 11:32:23 (8253)

2002-04-26 11:32:23# 127. lþ. 130.11 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 127. lþ.

[11:32]

Gunnar Birgisson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel rétt að fara yfir þessar spurningar frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Þessi fyrirtæki, Lehman Brothers, J.P. Morgan og Robertson Stephens, eru öll virt fyrirtæki á Wall Street. Þau vinna ekki bara fyrir Íslenska erfðagreiningu heldur mörg önnur fyrirtæki, þetta eru hlutlaus fyrirtæki í sínum greiningum. Gerir hv. þm. sér grein fyrir því að ef þessir menn eru fundnir sekir um hlutdrægni eru þeir dæmdir og flautaðir út af, geta lagt sig niður? Ég vísa slíkum fullyrðingum algjörlega heim til föðurhúsanna og finnst hv. þingmaður taka mjög stórt upp í sig.

Í öðru lagi varðandi viðskiptaáætlun fyrirtækisins, og af því að hv. þm. reyndi að gera lítið úr starfsmönnum fjmrn. --- það eru aðallega starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar sem hafa svarað spurningunum --- er hér í svari fjmrn. til hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur kostnaðaráætlun vegna uppbyggingar á lyfjaþróunardeild Íslenskrar erfðagreiningar.

Auðvitað er þetta fólk sem vinnur sín verk af bestu samviskusemi. Ég tek mark á slíku. Við erum ekki hér, þingmennirnir, að detta af himnunum sem allsherjarsnillingar í slíkum málum, við verðum náttúrlega að hlusta á það fólk sem hefur til þess bæra menntun og þekkingu og leggja síðan okkar mat á málið, bara af þeim upplýsingum sem við höfum.

Loks talaði hv. þm. um árangurstengdar borganir. Ég þekki það ekki en það er náttúrlega slæmt ef slíkt er í gangi. Ég tel að þetta verkefni verði til mikillar hagsældar fyrir íslenskt efnahagslíf og íslensku þjóðina.