Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Föstudaginn 26. apríl 2002, kl. 11:41:13 (8257)

2002-04-26 11:41:13# 127. lþ. 130.11 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 127. lþ.

[11:41]

Gunnar Birgisson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil upplýsa hv. þm. Pétur Blöndal um að ég hef kynnt mér þetta mál bara alveg þokkalega og veit um þessar staðreyndir sem hann var að tala um, að brennslutíminn sem eftir er af reiðufé fyrirtækisins sem eru bundið baktryggingum er 4--5 ár.

Varðandi neikvæða samkeppni finnst mér hv. þm. tala bara aftan úr fornöld. Ég vil benda honum á að af þessum 600 starfsmönnum Íslenskrar erfðagreiningar á Íslandi í dag eru yfir 100 erlendir. Auðvitað munu einhverjir erlendir starfsmenn koma í þetta. Og ef ekki má setja hérna nýja atvinnustarfsemi í gang, eins og í þessu tilfelli lyfjaþróun --- mér þykir mjög sérkennilegt ef menn eru á móti því út af því og vísa því --- ja, ég átta mig ekki á hvað hv. þm. meinar.

Hvaða líkur eru á gjaldþroti? Mitt mat, eftir að hafa farið í gegnum það, er að þær séu mjög litlar. Það getur vel verið að hv. þm. sem er lærðari í þessu og kannski sjálfskipaður sérfræðingur þingsins í áhættugreiningum og líkum á gjaldþroti geti frætt þingheim meira um það.

En síðan verðum við að horfa á framtíðartekjur þessa fyrirtækis. Hverjar eru þær? Hvenær eru menn tilbúnir til að selja rannsóknar- og þróunarvinnu sína og hvenær eru menn tilbúnir til að keyra það áfram? Menn geta selt og fengið sér rekstrarfé og ég er alveg sammála hv. þingmanni um að þetta er áhættubransi. Þetta er samt vaxandi bransi, t.d. í Bandaríkjunum, og Evrópubandalagið styður mjög við þetta í formi ríkisábyrgða og ríkisstyrkja til að gera Evrópufyrirtækin samkeppnishæf við þau bandarísku.

Ég er ekki mikill ríkisábyrgðasinni (Gripið fram í: Nú?) en í einstökum tilfellum finnst mér það verjandi eins og í þessu tilfelli og í þessari grein.