Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Föstudaginn 26. apríl 2002, kl. 11:45:25 (8259)

2002-04-26 11:45:25# 127. lþ. 130.11 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 127. lþ.

[11:45]

Gunnar Birgisson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil benda hv. þm. á að ég var að ræða um gjaldþrotalíkur á deCODE áður en til greiðslu þessa láns kæmi. Ég tel þær litlar hvort sem þær eru 2--5% eða ekki, ég ætla ekki að segja til um það.

Það er ljóst að í þessu felst áhætta, það eru alveg hreinar línur. Spurningin snýst um áhættu ríkisins en ég tel hana litla. Það sem vafðist mest fyrir mér er fordæmið varðandi ríkisábyrgðir og jafnræðið. Við erum hins vegar að tala um nýsköpun og það fylgir alltaf áhætta nýjum starfsgreinum. Ég bendi hv. þm. á að íhuga hvernig menn ætluðu að fara að því að stofna nýjungar og nýsköpun í atvinnulífi ef aldrei væri tekin áhætta, ef gjaldþrotalíkurnar væru litlar. Þá verður lítil framþróun.

Það er alveg ljóst að einhver fyrirtæki í nýsköpun geta farið á hausinn en ég tel að þetta fyrirtæki standi samt það styrkum fótum að ekki sé mikil hætta á því. Fyrirtækið getur selt framleiðslu sína eða rannsóknir á mismunandi stigum. Vilja menn hanga lengur á því til að gera verðmætið meira? Auðvitað vilja menn það. Hvers vegna ætlar fyrirtækið að stofna lyfjaþróunardeild hér? Hvers vegna hér en ekki einhvers staðar annars staðar? Er það bara út af ríkisábyrgð? Þeir eiga möguleika á að fara á aðrar lendur. (ÖJ: Þeir hafa heila ríkisstjórn í vasanum.) Ég vísa því náttúrlega alveg á bug að ríkisstjórnin sé að þessu. Ég held að menn séu að vinna af heilindum. Mér finnst þetta óþolandi skoðun sem fram kemur hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni, að þetta sé gert hér fyrir ríkið og þegar ráðist er gegn persónu forsrh. í þessu máli. Mér finnst það hörmulegur málflutningur. Hérna er verið að reyna að vinna landi og þjóð gagn og bæta lífskjör þeirra sem hér búa.

En það er eins og venjulega. Vinstri grænir skulu vera á móti þessu sem öllum öðrum góðum málum.