Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Föstudaginn 26. apríl 2002, kl. 11:47:43 (8260)

2002-04-26 11:47:43# 127. lþ. 130.11 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 127. lþ.

[11:47]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um frv. til laga um heimild til handa fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs til að ábyrgjast útgáfu skuldabréfa vegna fjármögnunar nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar.

Í 1. gr. segir:

,,Fjármálaráðherra, f.h. ríkissjóðs, er heimilt, í þeim tilgangi að stuðla að uppbyggingu hátækniiðnaðar á sviði lyfjaþróunar hér á landi, að veita einfalda ábyrgð vegna útgáfu móðurfélags Íslenskrar erfðagreiningar ehf., deCODE Genetics Inc., á skuldabréfum að fjárhæð allt að 200 milljónir USD til fjármögnunar nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar ehf. á sviði lyfjaþróunar. Fjármálaráðherra veitir ábyrgðina að uppfylltum þeim skilyrðum sem hann metur gild.``

Virðulegi forseti. Það sem við fjöllum um hér er í raun ekki fyrirtækið Íslensk erfðagreining, deCODE eða staða þess fyrirtækis, heldur er meginmálið pólitíkin í þessu máli. Hér er komið fyrir hið háa Alþingi frv. til laga um að veita slíka ábyrgð þvert ofan í stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi slík mál. Það er sorglegt að heyra málflutning hv. þm. stjórnarmeirihlutans þegar þeir reyna að mæla þessu frv. bót. Hv. þm. Gunnar Birgisson nefndi í ræðu sinni áðan að þetta yrði vítamínsprauta fyrir efnahagslífið í landinu. Auðvitað efast enginn um það. Málið snýst hins vegar ekkert um það. Það geta allir verið sammála því líka að tveggja milljarða innspýting í efnahagskerfi Akureyrar með ríkisábyrgð af því tagi sem hér er yrði hvati til gríðarlegrar uppbyggingar á því svæði en um það snýst ekki málið. Um það erum við öll sammála.

Ég geri líka ráð fyrir að við öll í þessum sal viljum sjá velgengni og uppbyggingu hjá Íslenskri erfðagreiningu. Allir sem hér hafa talað eru sammála um það og ég er sammála því. Þetta er fyrir margra hluta sakir spennandi fyrirtæki og auðvitað viljum við veg og viðgang þessa fyrirtækis mikinn.

Virðulegi forseti. Staðan í þessu máli er hins vegar þannig að þjóðin er mjög tvístígandi þegar komið er inn á borð frv. til laga um ábyrgðir til áframhaldandi uppbyggingar. Það verður náttúrlega að segjast eins og er, að fjölmargir Íslendingar eru skaðbrenndir af viðskiptum sínum við Íslenska erfðagreiningu. Þúsundir landsmanna gerðu sér vonir um að þeir væru að fjárfesta í góðu, öruggu og framsæknu fyrirtæki en standa nú frammi fyrir því að hafa tapað stórfé, alla vega eins og málin standa nú þar sem fyrirtækið er ekki metið nema á 5,5 dollara hlut eða þar um bil en fór upp í á sínum tíma allt að 60 dollara á hlut. Segja má að hver einasta fjölskylda í landinu hafi á einn eða annan hátt fengið smjörþefinn af því að fjárfesta með gríðarlegum væntingum sem urðu síðan að engu. Það mótar augljóslega hug margra til þessa frv. sem hér er uppi á borðum. Fólk setur samasemmerki milli þess sem það sjálft gerði á sína ábyrgð og margir töpuðu, eins og ég sagði áðan, stórfé og eru í sárum vegna viðskipta sinna við þetta fyrirtæki. Auðvitað má segja að viðkomandi sé í sjálfsvald sett í hvaða fyrirtækjum hann kaupir hlutabréf. En staðan er svona núna.

Nei, virðulegi forseti. Hér tölum við um ríkisábyrgðir almennt. Það sem er hjákátlegast í þessu máli er að það hefur verið stefna ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar að forðast ábyrgðir af þessu tagi og halda sig frá afskiptum, beinum eða óbeinum, af atvinnulífinu í landinu. Í því skyni, virðulegi forseti, voru t.d. sjóðir atvinnulífsins lagðir niður og settir inn í Fjárfestingabanka atvinnulífsins á sínum tíma sem síðan fór inn í Íslandsbanka í heilu lagi. Þannig var t.d. Iðnlánasjóður settur inn í þetta nýja bankakerfi og Fiskveiðasjóður.

Hver er afleiðingin af því? Jú, afleiðingin er sú að t.d. hvað varðar iðnaðaruppbyggingu úti um land er miklum erfiðleikum háð að fá fjármagn sem áður stóð til boða í gegnum Iðnlánasjóð, ég tala nú ekki um fjármagn til að fjárfesta í nýjum fiskiskipum. Það fór í gegnum Fiskveiðasjóð og menn áttu þá öruggan og greiðan aðgang að fjármagni. Þetta sjóðakerfi var talið gamaldags af núverandi meiri hluta á hinu háa Alþingi. Menn sögðu að það bæri að leggja það niður og hafa fjármálaþjónustu til handa fyrirtækjum í landinu í almennri umgjörð.

Einn sjóður var þó látinn halda sér, þ.e. Stofnlánasjóður landbúnaðarins. Ég tel að það hafi verið heillaspor að sá sjóður fór ekki inn í Fjárfestingabanka atvinnulífsins. Ég tel alveg einsýnt að hefði það orðið raunin á sínum tíma væru ekki neinar fjárfestingar, að heitið gæti, í sveitum landsins. Það er algjörlega bundið Stofnalánasjóðnum að bændur geti vænst aðstoðar við fjárfestingaráform þeirra. Þeir hafa aðgang að fé þarna.

Virðulegi forseti. Við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði erum andvíg þessu máli vegna þess að hér er um einstaka, sértæka aðgerð að ræða. Við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði erum hins vegar ekki á móti ríkisábyrgðum. Við teljum að það eigi almennt að beita hinu opinbera til þess að stuðla að atvinnuuppbyggingu sem víðast á landinu. Þess vegna vorum við á móti því að selja ríkisbankana og á móti því að leggja niður sjóðina. Þeir voru lykill að því að hægt væri að byggja upp atvinnu um allt land.

Virðulegi forseti. Það kom fram í ræðu hv. þm. Gunnars Birgissonar áðan að hann taldi að menn gerðu sér ekki grein fyrir því, gætu ekki opnað augun fyrir því að hér væri um vítamínsprautu fyrir efnahagskerfið að ræða. Auðvitað dylst engum að slíkar fjárfestingar með ríkisábyrgð geta um stundarsakir verið vítamínsprauta fyrir efnahagslífið, málið snýst ekkert um það. Málið snýst um pólitíkina sem menn vilja stunda. Sértækar aðgerðir af þessu tagi hugnast mönnum ekki, a.m.k. ekki þeim sem gagnrýna þetta fyrirkomulag.

Hvers vegna er ekki hægt að beita aðgerðum af þessu tagi víðar? Auðvitað verður svona ríkisábyrgð fordæmi. Menn fá aðgang að svipuðum lánskjörum annars staðar í atvinnulífinu. Það er ekki bara í þessari grein, lyfjaiðnaðinum, sem menn munu horfa til þess að fá ríkisábyrgðir. Þetta hlýtur að kalla á kröfur annarra fyrirtækja um fá slíka baktryggingu varðandi starfsemi sína.

Ég vil nefna sérstaklega til sögunnar þá atvinnustarfsemi á Íslandi sem hefur farið hvað harðast út úr stefnu ríkisstjórnarinnar hvað varðar ríkisábyrgðir. Það er skipasmíðaiðnaðurinn sem hefur mátt keppa á erlendum mörkuðum við niðurgreiðslur af ýmsu tagi í löndum þar sem við höfum látið smíða fyrir okkur skip á undanförnum árum. Þau fyrirtæki sem eftir eru --- ég þekki nú best til norður á Akureyri með Slippstöðina þar --- hafa ekki verið samkeppnisfær þegar þau hafa boðið í nýsmíðaverkefni og þurft að keppa við skipasmíðastöðvar sem notið hafa alls konar styrkja í ýmsu formi þar sem þau eru smíðuð.

Hv. þm. Gunnar Birgisson benti á að þetta yrði vítamínsprauta. Auðvitað dylst engum að ef gerðar væru ráðstafanir til að efla t.d. skipasmíðaiðnaðinn, hann fengi ríkis\-ábyrgðir og gæti verið samkeppnisfær við skipasmíðastöðvar úti í hinum stóra heimi, mundi slíkur ráðahagur vera sem vítamínsprauta fyrir efnahagskerfið --- t.d. á Akureyri, ef Slippstöðinni þar væri gert mögulegt að keppa á markaði.

Virðulegi forseti. Í málflutningi meiri hlutans á þinginu festast menn í uppbyggingu á þessari einu starfsgrein, lyfjaiðnaðinum. Auðvitað gerum við okkur öll grein fyrir því að víða eru vaxtarsprotar í atvinnulífinu sem líða í raun fyrir að þurfa að byggja sig upp og eru rekin á mjög dýru fjármagni. Þessir aðilar munu allir velta fyrir sér stöðu sinni í nýju ljósi ef þetta frv. verður að lögum. Það er ekkert vafamál að ferðaþjónustan mun t.d. sækja á um að fá bakstuðning af þessu tagi. Þeir sem vinna að ferðaþjónustunni segja eitt aðalvandamálið vera dýrt fjármagn til uppbyggingar og rekstrar. Baktryggingar af því tagi sem fjallað er um í þessu frv. mundu verða vítamínsprauta fyrir ferðamannaþjónustuna um allt landið.

Til sögunnar hafa verið nefndar tiltölulega nýjar greinar, t.d. fiskeldi þar sem við erum í fararbroddi á heimsvísu. Ég nefni þar til sögunnar t.d. lúðueldi Eyjafjarðar sem framleiðir nú um 70% af öllum lúðuseiðum sem framleidd eru í heiminum. Slík starfsemi mundi án efa hafa gríðarlega möguleika á að eflast í landinu ef um almennan bakstuðning væri að ræða, líkt og þann sem við fjöllum hér um til handa Íslenskrar erfðagreiningar í gegnum deCODE. Slík starfsemi á gríðarlega framtíðarmöguleika. Hvað fiskeldið varðar erum við að tala um Íslendinga sem hafa aflað sér menntunar á því sviði og búa yfir gríðarlegri tækniþekkingu, toppvísindamenn á sínu sviði á heimsvísu. Auðvitað eigum við að hlúa að slíku.

[12:00]

Í fiskeldinu stöndum við líklega fremst í lúðueldinu og auðvitað er sorglegt að menn skuli ekki treysta sér til að koma upp áframeldi hér á landi en flytji þess í stað seiðin til útlanda til áframeldis, m.a. vegna þess að í öðrum löndum eru veittar bakábyrgðir af því tagi sem hér er verið að tala um og stofnstyrkir til áframeldis á fiskinum. Okkar fólk stendur alls ekki jafnfætis öðrum hvað þetta varðar og það verður til þess að jafnvel tugir og jafnvel hundruð starfa verða til í þessum geira í öðrum löndum en ekki hér.

Auðvitað munu menn annars staðar í lyfjaiðnaðinum í landinu líta til þessa fordæmis. Það gefur augaleið. Við erum með stór, mikil og öflug fyrirtæki í þessum geira, t.d. Delta í Hafnarfirði sem ég heimsótti nýlega og var hrifinn af framþróuninni í því fyrirtæki. Auðvitað munu þau vænta þess að fá slíkan stuðning, þ.e. lánskjör á svipuðum kjörum.

Virðulegi forseti. Annars staðar í landinu eru vaxtarsprotar, t.d. í snyrtivöruiðnaði sem er milljarða dæmi um allan heim. Þar eigum við Íslendingar möguleika og höfum haslað okkur völl í smáum stíl. Menn horfa fram á bjarta tíma í þeim efnum.

Þessi mál, virðulegi forseti, verður að skoða í heildarsamhengi við málið sem hér er til umræðu. Það er ekki hægt að koma hingað inn með frv. til laga um heimild til handa fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs að ábyrgjast útgáfu skuldabréfa vegna fjármögnunar nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar. Þetta er sértækt verkefni og við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði erum andvíg því að málin séu unnin með þessum hætti. Hins vegar gerum við okkur grein fyrir því og viljum að almennt sé sett upp formúla fyrir því hvernig hið opinbera komi að stuðningi við uppbyggingu, vöxt og viðgang nýsprotaiðnaðar í landinu. Í málflutningi okkar hér á hinu háa Alþingi höfum við margoft lagt áherslu á að við teljum að með því að leggja niður Iðnlánasjóð, Fiskveiðasjóð og með sölu ríkisbankanna höfum við snarminnkað möguleikana á því að byggja upp atvinnustarfsemi, sérstaklega í hinum dreifðu byggðum landsins.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson skilar frá sér minnihlutaáliti í hv. efh.- og viðskn. Hann bendir þar á að lögum um ríkisábyrgðir sé vikið til hliðar í raun og veru, með leyfi forseta:

,,Í athugasemdum um lög um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997, var lögð áhersla á að með lagasetningu þeirri væri stefnt að því að draga úr ríkisábyrgðum, einkum þar sem aðild ríkisins skekkti samkeppnisstöðu einkaaðila. Einnig var talin brýn þörf á að reglur um veitingu ríkisábyrgða væru skýrar.``

Þetta, virðulegi forseti, er umhugsunarefni vegna þess að hér er eitt fyrirtæki tekið út fyrir sviga, fyrirtæki sem á í raun í samkeppni við önnur fyrirtæki í landinu, bæði smá og stór, og mun eiga í samkeppni við önnur fyrirtæki í landinu finni það möguleika á að framleiða lyf og fara út í lyfjaframleiðslu. Hér er um mjög sérstætt mál að ræða sem kallar á, eins og ég gat um fyrr í ræðu minni, virðulegi forseti, að menn máti sig við þetta fyrirkomulag alls staðar úti í samfélaginu.

Hér er um gríðarlega ríkisábyrgð að ræða. Þar er talað um 20 milljarða og það má í raun ekkert út af bregða til þess að þjóðin verði ekki fyrir gríðarlegum skakkaföllum.

Það hefur komið fram í ræðum margra háttvirtra þingmanna að í raun hafi ekki farið fram neitt mat á áhrifum ríkisábyrgðarinnar á samkeppnina. Menn eiga gjörsamlega eftir að leggja það niður fyrir sér sem kemur náttúrlega til vegna flýtimeðferðarinnar sem þetta mál hefur fengið. Málið hefur ekki fengið eðlilega umfjöllun, hvorki hér á hinu háa Alþingi né í hv. efh.- og viðskn.

Síðan eru menn að gera sér í hugarlund hver framtíðarsýn fyrirtækisins sé. Þar kemur náttúrlega fram í öllum textum að það er ekkert á vísan að róa með það. Menn eru að taka gríðarlega áhættu í von um að ná að framleiða eftirsóttan varning. En það getur allt eins farið svo að allar þessar ábyrgðir falli á almenning, á ríkið, og við verðum að borga upp þessa 20 milljarða sem við erum að gangast í ábyrgðir fyrir.

Virðulegi forseti. Þegar gengið er fram með þessum hætti og svo stór ríkisábyrgð er gefin lenda menn náttúrlega óhjákvæmilega í því að endurskoða stöðu sína rækilega ef illa fer með fyrirtækið. Það verður ákaflega snúið fyrir hverja þá ríkisstjórn sem verður við völd, ef illa fer að ganga ekki lengra. Hver halda menn að staðan verði hér á höfuðborgarsvæði, hvernig halda menn að þeir muni taka á því, ef þess sjást merki, kannski innan fimm, sex ára, að það gangi ekki nógu vel? Engum dylst að það verður gríðarleg pressa á að ganga lengra, annaðhvort til að veita meiri ábyrgðir eða setja meira fé inn í fyrirtækið.

Þegar allt er komið í óefni verður að taka tillit til margra þátta. Það verður mjög erfitt þegar um hundruð fjölskyldna er að ræða, gríðarlegar fjárfestingar, að standa frammi fyrir því að tapa fénu auk þess sem lífsviðurværi fjölda fólks yrði í uppnámi. Ríkisstjórnin sem þá yrði við völd væri í mjög erfiðri stöðu, að þurfa að meta hvort ganga eigi lengra svo sem eins og 5, 10, 20 milljörðum lengra eða láta fyrirtækið hreinlega hætta rekstri og fara á hausinn. Þetta er sú framtíð sem menn verða að leggja niður fyrir sér og leggja mat á. Ég held að í allri þessari vinnu hafi það ekki verið gert.

Það hefur komið fram að fjárhagsstaða fyrirtækisins er erfið. Eins og menn vita hafa hlutabréfin fallið gríðarlega á undanförnum mánuðum og missirum. Það leiðir til þess að auðvitað eru áhyggjur manna enn meiri en ella.

Síðan er það spurning um ráðgjöf. Hv. þm. Ögmundur Jónasson getur um það í nál. sínu að í umfjöllun nefndarinnar hafi ítrekað verið vísað í alþjóðleg fjármálafyrirtæki sem treysta mætti til að reiða fram ábyggilegar upplýsingar. Sérstaklega er vísað í þrjú fyrirtæki, þ.e. Morgan Stanley, Lehman Brothers og Robertson Stephens. Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á tvennu, segir hv. þm. Ögmundur Jónasson. Í fyrsta lagi eru öll þessi fyrirtæki þjónustufyrirtæki deCODE, Morgan Stanley og Lehman Brothers aðstoðuðu deCODE við að koma hlutabréfum sínum á markað og fyrirtækið Robertson Stephens fékk það verkefni að ganga frá kaupsamningum deCODE á MediChem Life Sciences. Allir þessir aðilar eru því mjög tengdir móðurfyrirtæki Íslenskrar erfðagreiningar, deCODE.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson heldur áfram:

,,Þegar bent var á þessi tengsl var af hálfu ráðuneytisins lögð áhersla á að þetta væru áreiðanleg fyrirtæki. Í því sambandi er rétt að vísa til þeirrar umræðu sem nú fer fram, ekki síst í Bandaríkjunum, um hve varasamt það gæti verið að treysta í blindni á ráðleggingar fjármálafyrirtækja, ekki síst ef þau eru í viðskiptasambandi við þá aðila sem þau gefa umsögn um. Má benda á umfjöllun í leiðara bandaríska stórblaðsins New York Times frá 11. apríl síðastliðnum --- Afvegaleiðing á Wall Street eða Disinformation on Wall Street. Upphafsorð leiðarans eru þessi: ,,Það hefur reynst sérfræðingum á Wall Street sífellt erfiðara að telja mönnum trú um að það væri einvörðungu vegna vanþekkingar að fyrirtækin sem þeir höfðu talað upp í hátt gengi urðu skyndilega verðlaus.````

Það eru mörg dæmi um að gengi fyrirtækja hafi verið töluð upp. Sum hafa verið í háu gengi alveg fram á þann dag sem þau féllu eða fóru um koll. Ábyrgð þessara manna er mikil og eins og ég sagði fyrr í ræðu minni er náttúrlega mjög mikilvægt að við fáum hlutlausar upplýsingar en ekki upplýsingar frá þeim sem búnir eru að hnýta sig að einhverju leyti á klafa hjá þeim fyrirtækjum sem verið er að fjalla um.

Virðulegi forseti. Ég og flokkssystkini mín erum þeirrar skoðunar að þetta mál eigi að leggja til hliðar. Við munum ekki greiða því atkvæði. En við munum í framhaldi af því gera tillögur um hvernig við getum séð ríkið koma sterkar að atvinnuuppbyggingu og þá sérstaklega í hinum dreifðu byggðum. Ég fór nokkrum orðum um hvernig við fórum með stofnlánasjóðina, bæði Iðnlánasjóð og Fiskveiðasjóð, sem núna eru runnir inn í Fjárfestingabanka atvinnulífsins. Ég tel einboðið að við munum setja upp einhverja formúlu fyrir afturhvarfi til alhliða aðgerða til að styrkja atvinnulífið og skapa möguleika til að byggja upp atvinnu út um landið. Við teljum það mjög mikilvægt.

Ég held að nú hljóti að vera lag vegna þess að stjórnarliðar sem hér hafa talað sjá ekkert athugavert við frumvarpið, þessa 20 milljarða baktryggingu. Það er í sjálfu sér gleðilegt ef orðið hafa sinnaskipti hvað varðar pólitíkina sem keyrð hefur verið síðustu tíu árin, hafi orðið sinnaskipti hjá stjórnarliðum þannig að þeir geti á ný hugsað sér að ríkið komi að uppbyggingu atvinnu sem víðast um landið með beinum eða óbeinum hætti. Þá verður gaman að skoða dæmið í nýju ljósi. Við getum þá sett upp formúlu fyrir alhliða aðgerðum til styrktar atvinnulífinu, til rekstrar og uppbyggingar út um landið.

Það gera sér allir grein fyrir því að aðalvandamálið núna varðandi atvinnuuppbyggingu og rekstur á landsbyggðinni er að bankakerfið það hefur ekki trú á fjárfestingum úti á landi. Margar góðar viðskiptahugmyndir eru hreinlega settar í salt eða mönnum sagt að þeir geti fengið lánað út á þær í bankakerfinu flytji þeir sig inn undir borgarmörk höfuðborgarinnar. Þannig er staðan.

Auðvitað versnaði þessi staða til muna eftir að fjárfestingarsjóðir fyrir iðnað og sjávarútveg í landinu eru gufaðir upp og lúta almennum reglum bankakerfisins með því að vera komnir inn í Íslandsbanka. Þetta eru hlutir sem við verðum að skoða mjög alvarlega. Ég nefndi hér til sögunnar svið eða fyrirtæki þar sem einboðið er að við getum átt mjög glæsta framtíðarmöguleika hvað uppbyggingu varðar ef við skoðum þessa hluti í nýju ljósi.

[12:15]

Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði erum til í þá vegferð að skoða uppbyggingu atvinnulífs með stuðningi ríkisins beint eða óbeint um allt land. Sú stefna sem hefur verið keyrð í landinu hvað varðar þessi bakstuðningsmál öll er ekki boðleg. Það er ekkert vafamál að ef ríkið hefði á síðustu tíu árum haft þá stefnu að styðja við bakið á t.d. skipasmíðaiðnaðinum þá hefðum við verið hér með þrjú, fjögur, fimm glæsileg fyrirtæki í þeim geira. Við vitum öll að við höfum látið smíða fjölda skipa, stórra og smárra, og jafnvel á vegum ríkisins, hafrannsóknaskip, sem öll hafa verið smíðuð í útlöndum. Ef þessi iðnaður okkar hefði setið við sama borð og annars staðar í heiminum eins og t.d. næst okkur í Noregi --- en við höfum farið út um víðan völl og látið smíða fyrir okkur skip í Chile og jafnvel Kína. Allt er þetta meira og minna ríkisstyrkt beint og óbeint og enginn möguleiki fyrir okkar iðnað að standast samkeppni, þó svo að þeir hafi strekkt sig ansi langt í tilboðum. Þegar upp var staðið voru íslensku tilboðin í mörgum tilfella kannski síst lakari þegar menn voru komnir heim með skipin og þurftu að láta gera á þeim alls konar lagfæringar til þess að þau stæðust kröfur fyrir íslenska sjósókn.

En þarna keyrði hæstv. ríkisstjórn á þeirri stefnu að hið opinbera ætti ekki að koma nálægt neinu, með hrikalegum afleiðingum og raunar ófyrirséðum afleiðingum, vegna þess að þessi iðnaður stendur mjög illa vegna þess að hann hefur ekki fengið nein nýsmíðaverkefni. Guð forði okkur frá því að standa frammi fyrir því að hér verði kannski lítil sem engin þjónusta á þessu sviði fyrir flotann okkar. En það er vel líklegt, einmitt vegna þess að svona fyrirtæki þurfa helst að vera í alhliða uppbyggingu, öðrum þræði nýsmíði líka, en ekki bara viðgerðum. Þetta er grein sem gæti laðað til sín og haft í vinnu hundruð manna, vel menntaðra og tiltölulegra vel launaðra manna. En við létum þetta allt fara lönd og leið, samkeppnin, einkavæðingin. Hið opinbera má ekki koma nálægt neinu. Það var söngurinn í tíu ár.

Það er í raun alveg eins með fiskeldið. Öllum mönnum ljóst að vaxtastigið í landinu, bæði til nýrrar uppbyggingar og rekstrar, gerir fyrirtækjunum hér um bil ókleift að byggja upp og jafnvel að reka sig. Það er helst að menn hafi, t.d. í áframeldi í lúðunni, getað farið út í nokkurt eldi á grunni þess að hafa haft möguleika á að kaupa stöðvar sem voru komnar á hausinn og þar af leiðandi á skaplegu verði. En mér er sagt að ný uppbygging af því tagi sem til þarf sé svo dýr hér í landinu vegna vaxtastigs og vegna fjármagnskostnaðar að það sé hér um bil ómögulegt.

En svo komum við aftur að því alveg eins og í sambandi við skipasmíðaiðnaðinn að í löndunum í kringum okkur er alls konar fyrirgreiðsla sem við höfum þurrkað út af borðinu hjá okkur á síðustu tíu árum í skjóli þess að allt eigi að vera svo frjálst og að markaðslögmálin eigi að gilda. Þau gilda ekki neins staðar í þessu dæmi öllu, hvorki í skipasmíðaiðnaðinum sem við nefndum áðan né í fiskeldinu. Þau gera það ekki. Með stofnstyrkjum frá Evrópusambandinu er verið að búa til stórar fiskeldisstöðvar í Wales í Stóra-Bretlandi. Allir vita hvernig Norðmenn fara í þessi mál. Ef við ætlum að vera svo heilög að gefa enga svona möguleika vítt og breitt í atvinnulífinu eftir leikreglum sem eru vel hugsaðar og þar sem gætt er jafnræðis þá finnst okkur sjálfsagt að fara þannig í málin.

Hvað þetta frv. um 20 milljarða ríkisábyrgð til handa deCODE varðar þá er það formúla sem gengur engan veginn upp eins og ég gat um áðan. Hún gerir það ekki því ekki er gætt neins jafnræðis. Eins og fram hefur komið í ræðum margra hv. þm. verður bullandi samkeppni um vinnuaflið til dæmis. Önnur fyrirtæki á sama markaði, á sama sviði, munu eiga erfiðara með að halda sínu fólki. Það hefur einnig komið fram að svona fyrirtæki mun líka veita grunnþjónustuaðilum okkar í heilbrigðiskerfinu gríðarlega samkeppni. Þarna munu skapast spennandi störf fyrir það fólk.

Nú eru allir sammála um að vel menntað fólk eigi að vera á góðum launum o.s.frv. En við erum hér bara að tala um þær leikreglur og þann grunn sem þetta breytir. Það er nú ekkert smotterí. Við Íslendingar höfum horft til þess með stolti --- ég gat t.d. um heimsókn mína í lyfjafyrirtækið Delta --- að hér eru gríðarlegir vaxtarsprotar sem eru að vaxa og dafna í beinni samkeppni við þá ríkisábyrgð sem hér er verið að veita.

Virðulegi forseti. Af þessum sökum erum við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði andvíg þessari sérstöku meðferð á þessu sérstaka fyrirtæki. Ég vil undirstrika það enn og aftur að við erum ekki andvíg aðkomu ríkisins að atvinnuuppbyggingu. Við höfum þráfaldlega lagt fram tillögur um að fara í slíkar aðgerðir. Við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði erum t.d. með þáltill. þar sem við settum fram þær hugmyndir okkar að setja verulegt opinbert fé inn í atvinnuþróunarfélögin vítt og breitt um landið. Vegna stöðunnar á Austfjörðum, vegna óvissu um atvinnuuppbyggingu þar sem fyrirhuguð var eins og menn vita, byggingu Kárahnjúkavirkjunar og síðan álbræðslu þá vildum við með þáltill. setja 400 millj. kr. inn í Atvinnuþróunarfélag Austurlands þannig að hægt væri að hlúa að þeim sprotum sem þar eru að skjótast upp. Hlegið var að þessum tillögum, sagt að þetta væri yfirboð. En svo tala menn hér um 20 milljarða innspýtingu í atvinnulífið á höfuðborgarsvæðinu og það er bara gott mál. Þetta eru einkennileg rök sem færð eru fram, virðulegi forseti, af hálfu þingmanna stjórnarmeirihlutans, einkennileg rök. Það má gera þetta á einu sviði en ekki á öðru. Það má gera þetta með sértækum aðgerðum eins og hér er gert. En það má ekki gera þetta með almennum aðgerðum eins og víðast hvar annars staðar í heiminum er lagt upp með.

Varðandi þann heilagleika að ríkið megi ekki koma að uppbyggingu atvinnulífsins og styðja við bakið á rekstri þá held ég að við séum eina þjóðin í heiminum sem er svo heilög að hafa keyrt harða stefnu hvað þetta varðar sl. tíu ár. Alkunna er að Evrópusambandið er með stofnstyrki á öllum mögulegum sviðum. Það er alkunna að Norðmenn hafa styrkt atvinnufyrirtæki sín gríðarlega, ekki síst fyrirtæki á landsbyggðinni og rekstur þar með alls konar formúlum. Og það sem meira er, í landi frjálsræðisins hvað kapítalið varðar, í Ameríku, eru mjög víða veittir alls konar styrkir. Það eru jafnvel bæir sem keppa um að laða til sín atvinnufyrirtæki með alls konar fyrirgreiðslu, niðurfellingu gjalda, stofnstyrkjum og ýmsu af því tagi. En á Íslandi mátti ekki koma nálægt þessu, alla vega þar til nú. Og þá hella menn sér í það að aðstoða eitt fyrirtæki. Það er hábölvuð aðferð, virðulegi forseti, að ekki sé meira sagt.

Formúlan sem við viljum vinna eftir er að beita almennum aðgerðum varðandi aðkomu ríkisins að atvinnulífinu. Ég gat um að við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði hefðum lagt til með þáltill. að styrkja atvinnulífið, sprotafyrirtækin, í gegnum framlög úr ríkissjóði. Því yrði síðan miðlað af atvinnuþróunarfélögunum í landshlutunum sem alls staðar eru til og mjög virk. Þar er ýmislegt á prjónunum ef menn vilja styðja við það.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon setti líka fram þáltill. um endurreisn íslensks skipaiðnaðar. Ég hef vikið töluvert að skipaiðnaðinum og það er ekkert vafamál að slík endurreisn væri mjög í samræmi við það sem við gætum hugsað okkur á grunni nýrrar hugsunar um aðkomu ríkisins og stuðning við atvinnulíf. Ég held að við munum í tillöguflutningi okkar, í framhaldi af því sem hér er sett fram, leggja fram mjög vel ígrundaðar tillögur þar sem sett verður upp formúla fyrir því að ríkið muni koma að atvinnuuppbyggingu, sérstaklega úti á landsbyggðinni, með almennum aðgerðum, ríkisábyrgðum og jafnvel framlögum til uppbyggingar.

Virðulegi forseti. Í þessum dúr sem höfum við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði fjallað um þetta mál. Það má enginn misskilja það að auðvitað erum við stolt af öllum nýjum fyrirtækjum sem gera það gott og Íslensk erfðagreining er auðvitað mjög spennandi fyrirtæki fyrir margra hluta sakir. Um það snýst ekki málið. Málið snýst um hvernig hið opinbera, ríkið, eigi að koma að atvinnuuppbyggingu almennt séð. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði erum á móti því að taka einn aðila út fyrir sviga á þennan hátt og þar með þverbrjóta alla pólitík sem hæstv. ríkisstjórn hefur keyrt eftir síðastliðin tíu ár. Maður hefði ímyndað sér að ef hæstv. ríkisstjórn vildi fara inn á aðrar brautir, skipta um kúrs pólitískt, þá hefði hún í tengslum við þetta mál komið með vel formaðar og ígrundaðar tillögur um það hvernig hún sæi fyrir sér aðkomu að atvinnulífinu almennt séð í landinu þannig að jafnræðis væri gætt. Nei, það er ekki gert. Það er ekki gert vegna þess að hæstv. ríkisstjórn ætlar bara að gera þetta, bara í þetta eina skipti og bara gagnvart þessu fyrirtæki. Það hefur margoft komið fram í ræðum hér að þetta á ekki að vera fordæmi sem er kannski það versta í sambandi við þetta mál allt saman.

Virðulegi forseti. Ekki verður bæði sleppt og haldið í þessu sambandi. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði munum reyna að nýta okkur þá hugarfarsbreytingu sem hefur orðið hjá þingmönnum stjórnarmeirihlutans til þess að laða fram ákvörðunartöku um almennan stuðning við atvinnulífið sem við höfum saknað svo mjög, sérstaklega á landsbyggðinni. Það er ekkert vafamál og það dylst engum að ríkisábyrgð af þessu tagi, með innspýtingu fjármagns í efnahagskerfið upp á 20--35 milljarða, hefur auðvitað gríðarleg áhrif. Enginn deilir um það. Eins mundi enginn deila um hversu gríðarleg áhrif hlutfallslega það hefði á fjármálakerfi Akureyrarkaupstaðar og Eyjafjarðar ef Fiskeldi Eyjafjarðar t.d. yrði allt í einu veitt ríkisábyrgð upp á 2 milljarða. Þetta sjá allir. Allir gera sér grein fyrir þessu. (Gripið fram í: Eða ferðaþjónusta í Skagafirði) Ef til kæmi endurfjármögnun eða ríkisábyrgð yrði veitt til allra ferðaþjónustuaðila til sveita sem eru að kikna undan vaxtabyrði vegna þess að þeir hafa verið að byggja upp ný hús og þess háttar sem nýtast svo kannski ekki nema þrjá, fjóra mánuði á ári og eru þess vegna mjög þung í rekstri, þá hefði það auðvitað alveg gríðarleg áhrif, þ.e. ef einhver endurfjármögnunarsjóður gæti komið þessum aðilum niður á skaplega fyrirgreiðslu. Það gefur augaleið.

[12:30]

Það gefur jafnframt augaleið að almennt séð með svona bakstuðning, eftir þeim formúlum sem við höfum talað fyrir hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, þá mundi það að öllum líkindum skapa miklu fleiri störf en hér er verið að tala um. En það er þannig hjá hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutanum að þar á bæ eiga menn mjög erfitt með að sjá fyrir sér þróun samfélags. Hér eru menn fastir í því fari að eitt stykki verkefni þurfi að vera til umfjöllunar, þar sem hægt er að reikna og bókfæra hvernig heildardæmið gengur upp. Þar eru Kárahnjúkavirkjun og álverið dæmin og síðan þetta. Þetta finnst mönnum svo gráupplagt að kasta sér yfir af því þeir telja sig hafa yfirsýn yfir það. En hlutverk okkar hér er að hafa almennar aðgerðir og reglur til þess að þróa uppbyggingu atvinnulífsins alls staðar í landinu. Það er meginmál.

Virðulegi forseti. Fyrir allra hluta sakir hefði verið best fyrir landið allt ef þessi hugarfarsbreyting hefði átt sér stað á almennum nótum eins og ég hef verið að tala fyrir en ekki með því að kasta sér yfir eitt mál af því tagi sem hér er lagt upp með.

Virðulegi forseti. Ég hef reifað hugsanir mínar í sambandi við þetta mál. Ég hef ekki talið mig þurfa að fara ofan í rekstur eða stöðu fyrirtækisins deCODE og Íslenskrar erfðagreiningar, enda tel ég mig ekki hafa neinar forsendur til þess í sjálfu sér. Ég tel að ég þurfi þess heldur ekki sem þingmaður. Ég held að málið snúist um pólitíkina í því hvernig aðkoma hins opinbera, hvernig aðkoma ríkisins eigi að vera varðandi uppbyggingu atvinnulífsins. Hér er um algjört stílbrot að ræða hjá hæstv. ríkisstjórn sem hefur keyrt þveröfuga stefnu hvað þetta varðar undanfarin tíu ár, sem hefur keyrt þá stefnu að leggja niður opinbera sjóði, leggja niður opinbera fyrirgreiðslu við atvinnulífið með hræðilegum afleiðingum víða. Og verst er að afleiðingarnar af því eru nánast framkvæmdastopp hvað uppbyggingu varðar um hinar dreifðu byggðir. Það er afleiðingin af þessari stefnu. Þess vegna erum við að tala hér um algjört stílbrot. Við erum að tala um fyrirgreiðslu við eitt fyrirtæki sem er tekið út fyrir sviga og upp á það getum við hreinlega ekki skrifað. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði munum greiða atkvæði gegn þessu frv. Það liggur á borðinu.

En í framhaldi af umræðunni um þetta mál munum við taka stjórnarmeirihlutann upp í því að fara inn í nýtt form bakábyrgða og ríkisframlaga til uppbyggingar atvinnulífinu úti um allt land. Ég tel að í umræðunni sé komin fram þvílík hugarfarsbreyting hjá mörgum hv. þm. Sjálfstæðisflokksins að þeir muni nú eftir umræðuna um þetta mál geta hugsað sér að fara í slíka vinnu. Þeir hafa séð möguleikana í því hvað það getur verið gríðarlega ábatasamt fyrir samfélagið að standa vörð á almennum nótum um uppbyggingu atvinnulífsins. Það hefur staðið hér upp úr hverjum stjórnarþingmanni á fætur öðrum sem hefur fjallað um þetta mál. Hv. þm. hljóta þá að meina það --- maður verður að ganga út frá því --- í framhaldi af því að vera til í að skoða fjárfestingar með bakstuðningi ríkisins eftir formúlum sem þar um verða settar til framtíðar litið.

Virðulegi forseti. Ég læt þá þessari fyrri ræðu minni lokið en tek kannski aftur til máls um frv. síðar í dag.