Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Föstudaginn 26. apríl 2002, kl. 17:14:10 (8265)

2002-04-26 17:14:10# 127. lþ. 130.11 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, Frsm. 2. minni hluta ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 127. lþ.

[17:14]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Ég misskildi ekki neitt. Hv. þm. leggur til rýmri heimild til fjmrh. en hans eigin frv. gerir. Samkvæmt brtt. hv. þm. Péturs H. Blöndals er fjmrh. heimilt að veita einfalda ábyrgð á skuldabréfum eða kaupa slík skuldabréf, útgefin af móðurfélagi Íslenskrar erfðagreiningar ehf., deCODE genetics, að fjárhæð allt að 200 milljónir bandaríkjadollara. Sem sagt: Það er valkvætt fyrir hæstv. fjmrh. að veita þessa ábyrgð ... (Gripið fram í: Hann verður að rökstyðja það.) Þarf að rökstyðja það? Ég er að lesa hér brtt. sem er lögð fram á Alþingi af hv. þm. Pétri H. Blöndal, sem kveður á um að heimila fjmrh. að veita einfalda ábyrgð á skuldabréfum að fjárhæð allt að 200 milljónir dollara eða kaupa hlutabréf fyrir þessa upphæð. Þetta stendur hér í tillögunni. Þetta er tillaga um ríkisvæðingu og í henni er gengið lengra í heimildum til hæstv. fjmrh. en í sjálfu stjfrv.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal er því farinn að ganga í tvær áttir. Annars vegar segist hann á móti frv. en hins vegar kemur hann fram með brtt. sem er rýmri heimild til hæstv. fjmrh. en sjálft frv. frá ríkisstjórninni. Ég fæ ekki annað skilið. Þetta segir í breytingartillögunni og ég las hana upp áðan. Þetta er tillaga um ríkisvæðingu sem gengur lengra en sjálft stjfrv. gerir.

Ég virði það sem fram hefur komið hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal í umræðu um þetta mál en nú er ég hættur að skilja. Ég er hættur að skilja eftir að þessi brtt. um ríkisvæðingu kom fram frá hv. þm. Pétri H. Blöndal.