Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Föstudaginn 26. apríl 2002, kl. 17:18:36 (8267)

2002-04-26 17:18:36# 127. lþ. 130.11 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, Frsm. 2. minni hluta ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 127. lþ.

[17:18]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef nú ekki verið sérstaklega gefinn fyrir það að ríkissjóður sé að braska. En ef við förum út á þá braut að tala um að taka þátt í hagnaði þá finnst mér svolítið undarlegt að hv. þm. Pétur H. Blöndal skuli vilja selja frá okkur öll þau fyrirtæki og stofnanir sem skapa ríkissjóði hagnað, (Gripið fram í.) t.d. Landssímann og önnur fyrirtæki. Nú eru þeir með Steinullarverksmiðjuna fyrir norðan. Það á að fara að selja hana. Hún skilar bærilegum hagnaði (PHB: ... ríkisstjórnin?) til eigenda sinna. Hún gerir það.

Ég held að tillaga hv. þm. Péturs H. Blöndals um að ríkisvæða fyrirtæki sé jafnvel varasamari en hin, vegna þess að þetta byggir á því að vefa saman hagsmuni fyrirtækisins og samfélagsins. (Gripið fram í.) Ég horfi ekki eingöngu á peningalega þætti málsins. Ef við, ríkið, tökum þátt í þessari uppbyggingu þá erum við að takast á herðar siðferðislega ábyrgð (PHB: Hvort sem er.) gagnvart því fólki --- það er rétt --- gagnvart því fólki sem þarna starfar.

Okkur finnst öllum að sjálfsögðu eftirsóknarvert að byggja upp starfsemi á þessu sviði. En ágreiningurinn snýst um það hvernig við berum okkur að í því efni. Við eigum ekki að gera það á óábyrgan hátt eða á fölskum forsendum. Þá stöndum við frammi fyrir vanda þegar skuldabréfið er útrunnið. Sá vandi verður miklu alvarlegri en sá vandi sem við stöndum núna frammi fyrir (Gripið fram í.) og er fyrst og fremst pólitískur, því að hæstv. forsrh. og ríkisstjórnin eru að stilla Alþingi og þjóðinni upp við vegg í þessu máli. Sú krafa sem ég hef verið að setja fram (Forseti hringir.) er að menn skoði þetta mál af kostgæfni og yfirvegun. Það hafa ríkisstjórnin, því miður, og stjórnarmeirihlutinn neitað að gera.