Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Föstudaginn 26. apríl 2002, kl. 17:21:18 (8268)

2002-04-26 17:21:18# 127. lþ. 130.11 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, KolH
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 127. lþ.

[17:21]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Við ræðum hér afar flókið mál og um það eru mjög skiptar skoðanir, þ.e. hvort yfir höfuð eigi að veita þá heimild sem hér er fjallað um, þar sem fjmrh. yrði fengin heimild fyrir hönd ríkissjóðs ábyrgjast útgáfu skuldabréfa vegna fjármögnunar nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar ehf. Eins og margoft hefur komið fram í umræðunni er um að ræða 20 milljarða kr. ríkisábyrgð. Eins og þeir hv. þm. Pétur H. Blöndal og Ögmundur Jónasson voru að fjalla um áðan þá er ljóst að ríkissjóður sem slíkur mun tapa öllu ef illa fer, en ekki fá nokkra sárabót ef vel gengur, því þá fær fyrirtækið Íslensk erfðagreining og önnur fyrirtæki sem tengjast Íslenskri erfðagreiningu hagnaðinn.

En hvaða vit er nú í því að fjárfesta í lyfjaþróunarfyrirtækjum? Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur fjallað um það hér í ræðum sínum að áhættan sé gífurlega mikil og að allt upp í 90% líkur séu á því að þetta fé gæti tapast. Nú hafa fleiri einstaklingar stutt þá skoðun, að vísu ekki stærðfræðilegum rökum eða rökum sem byggja á útreikningi á hinum efnahagslega þætti heldur eru fræðimenn á sviði líftækniiðnaðar farnir að koma fram á sjónarsviðið og segja okkur dálítið meira um hvað málin snúast, segja okkur meira frá líftækninni sjálfri, vísindunum sem að baki liggja, vísindunum sem eiga að gefa þessum fyrirtækjum gróðamöguleikana.

Mig langar til þess að snúa máli mínu svolítið í þá átt, herra forseti, að fjalla um það sem skrifað hefur verið upp á síðkastið af þannig mönnum. Þá er ég með í huga menn eins og Alfreð Árnason erfðafræðing, sem skrifaði grein í Morgunblaðið fyrir skemmstu, og Steindór J. Erlingsson, líf- og vísindasagnfræðing, sem skrifaði grein sem birtist á vefnum strik.is í dag, eftir því sem ég best veit, þar sem hann fjallar um áhættuna af þessum atvinnurekstri og segir okkur dæmisögu um hvernig hafi gengið í þessum iðnaði hingað til. Sömuleiðis kem ég til með að styðja mál mitt með grein sem birtist þann 18. febrúar síðastliðinn í því virta tímariti Newsweek. Þar er fjallað um genablöðruna eða bóluna. Þær eru nú ýmsar bólurnar sem upp rísa í umræðunni. Newsweek fjallar þann 18. febrúar síðastliðinn um genabóluna. Hún er ný bóla í vísindum, bóla sem á að gera okkur svo rík. Hún er sambærileg við internetbóluna eða bóluna sem við höfum orðið vitni að að hafi blásið upp á fjarskiptamarkaði. Síðan er farið út í það í greininni í Newsweek að skýra þessa genabólu sem óx seint á tíunda áratugnum og var drifin áfram af ákafa og spenningi yfir kortlagningu genamengis mannsins sem eins og menn vita var lokið í júní árið 2000.

Auðvitað voru gífurlegar vonir bundnar við að kortlagningu genamengis mannsins yrði lokið. Fjárfestar beggja vegna Atlantsála höfðu á þeim tíma sett hundruð milljóna bandaríkjadollara í þessa nýju atvinnugrein sem heitir líftækni. Hugmyndin á bak við þessa atvinnugrein var sú að leyndardómur genanna yrði vísindamönnum ljós ef þeir byggðu upp gagnagrunna og létu tölvur greina þau gögn sem fyrir liggja á þessu sviði. Vísindamenn og fjárfestar voru lengi framan af gífurlega vongóðir um að leiða saman hesta sína á þennan hátt. Þannig mundi hið nýjasta í upplýsingatækninni og hið nýjasta í líffræðinni hjálpa þessum stóru lyfjafyrirtækjum, sem við þekkjum að eru á markaðnum, að þróa og markaðssetja ný lyf.

Herra forseti. Það er eðli loftbólunnar að springa. Hún þenst svo mikið út að hún springurr á endanum. Þeir hjá Newsweek spyrja hvort ekki sé eðlilegt að álykta að loftið geti farið úr þessari genabólu alveg eins og það virðist hafa farið úr internetbólunni og fjarskipamarkaðsbólunni.

Síðan er tíundað hvernig verð hlutabréfa í mörgum líftæknifyrirtækjum hefur hríðfallið á undanförnum árum og við Íslendingar höfum auðvitað fundið áþreifanlega fyrir því. Þess er getið í grein Newsweek að verð á hlut í LION Biosciences í Þýskalandi hafi fallið úr 40 dollurum í 13 dollara. Það er komið inn á íslenska fyrirtækið deCODE genetics. Getið er um að hlutabréf í því fyrirtæki hafi fallið um meira en þrjá fjórðu síðan það var sett á markað. En Íslendingar eru nú farnir að kunna þessar tölur utan að því þegar deCODE genetics var sett á markað var gengið um 18, en stendur nú í sögulegu lágmarki, eða 5 dollurum.

Newsweek getur líka um öflugt bandarískt fyrirtæki sem heitir Celera. Það er fyrirtækið sem vann að þessari kortlagningu genamengis mannsins. En þrátt fyrir sína gífurlegu uppgötvun og árangur þá hefur verð bréfa í Celera fallið upp á síðkastið. Hvað sýnir hríðfallandi hlutabréfaverð okkur? Jú, það sýnir okkur að líftæknigeirinn hefur valdið vonbrigðum. Það sýnir okkur ekkert annað en það. Hann hefur valdið vonbrigðum og það er ekki bjart fyrir stafni eins og hæstv. fjmrh. hélt fram í umræðum á Alþingi á eldhúsdegi þegar hann vildi meta það svo að bjart væri fyrir stafni í efnahagsmálunum. En ég verð að segja, herra forseti, að ef hæstv. fjmrh. ætlar að reiða sig á að fá einhvern stuðning af líftækniiðnaðinum í þeim efnum þá er svo sannarlega ekki bjart fyrir stafni hjá honum í dag.

Fyrir nokkrum árum leit út fyrir að hið langdregna ferli lyfjaþróunar þar sem vísindamenn prófa sig áfram smátt og smátt mundi víkja fyrir nýjum hraðari aðferðum, byggðum á þekkingu á genum og tölvulíkönum til prófana. Sum fyrirtæki byggðu upp risastóra gagnagrunna um gen sem þau seldu aðgang að og hugbúnaðarfyrirtæki hönnuðu tölvulíkön af því sem fram fer í frumum mannsins og jafnvel heilu líffærunum sem nota átti til prófana. Því er skemmst frá að segja að margir fjárfestar trúðu því að líftæknin mundi opna nýja leið í lyfjaþróun. En í sannleika sagt hefur þessi leið alls ekki verið opnuð.

Í greininni sem ég hef verið að styðjast við í frásögn minni, herra forseti, og birtist í Newsweek þann 18. febrúar, kemur fram að sérfræðingar Nomura bankans í London gerast svo djarfir að fullyrða að líftæknin hafi ekki hjálpað stóru lyfjafyrirtækjunum að þróa fleiri lyf og koma þeim á markað. Nomura bankinn í London er risastórt fjármálafyrirtæki sem hefur sérhæft sig á þessum markaði og hefur komið að því að gefa út yfirlit um stöðu mála hjá líftæknifyrirtækjum. Fulltrúi þessa fyrirtækis segir í greininni í Newsweek að líftækni hafi ekki hjálpað stóru lyfjafyrirtækjunum að þróa fleiri lyf og koma þeim á markað. Hvers vegna ættum við Íslendingar þá að trúa Kára Stefánssyni, herra forseti? Hvaða ástæðu höfum við til þess þegar varnaðarorðin koma úr öllum áttum og jafnvel frá svo öflugum fyrirtækjum sem þessum sem Newsweek greinir frá í sinni grein?

[17:30]

Ef ég held áfram að endursegja lauslega þau varnaðarorð sem Newsweek fjallar um í grein sinni um genabóluna kemur þar einnig fram að tölvur hafi flýtt mjög fyrir lyfjaþróun en þar segir líka að hugmyndir að nýjum lyfjum verði þó sjaldnast til við beina tölvuvinnslu. Þetta er mikilvægt að menn hafi í huga þegar þessi mál eru öll skoðuð. Síðan getur Newsweek um offitulyfið P-57 sem nú er í þróun, það sé gott dæmi um að þó að tölvurnar séu ágætar til að styðja sig við hafi þær í sjálfu sér ekki flýtt fyrir lyfjaþróuninni.

Varðandi offitulyfið P-57 segir Newsweek að hugmyndin hafi komið frá San búskmönnum í Suður-Afríku sem tuggðu sérstök laufblöð þegar hart var í ári til þess að minnka þorsta og matarlyst. Síðan er tekið annað dæmi, um hvítblæðilyfið glivec sem sett var á markað á síðasta ári, og þótt tölvur hafi verið notaðar við þróun þess hafi upprunalega hugmyndin komið fram hjá lækni sem tók eftir því að hvítblæðisjúklingar höfðu allir sama litningagalla. Stór hluti vandamála líftæknifyrirtækjanna sé sá að þau hafi ekki tekið nægilegt tillit til þess hve oft tilviljanir eða sérkennilegar aðstæður hafi orðið kveikja að hugmyndum að nýjum lyfjum.

Tilviljanir og sérkennilegar aðstæður, herra forseti. Ég nefndi áðan grein sem birtist í Morgunblaðinu fyrir skemmstu, skrifuð af Alfreð Árnasyni erfðafræðingi. Greinin mun vera einhvers staðar í blaðabunkanum mínum, svo ég finni dagsetninguna á henni. Það mun hafa verið laugardaginn 20. apríl sem sú grein birtist undir fyrirsögninni ,,deCODE heggur tvisvar í sama knérunn``. Alfreð Árnason vekur einmitt athygli á því sama og gert er í Newsweek-greininni, nefnilega því að umhverfisáhrifin séu gífurlega umfangsmikil og umtalsverð þegar rannsóknir af þessu tagi eru skoðaðar. Það skiptir verulegu máli í þessum rannsóknum hver umhverfisáhrifin eru og þess vegna nægir okkur ekki að líta til genanna sem við höfum getað kortlagt. Það nægir ekki að reyna að skoða í gegnum tölvur og tölvutæknina einhverjar niðurstöður því að umhverfisáhrifin eru augljóslega umtalsverð og um þetta virðast fræðimenn vera sammála. Þessi staðreynd gerir það að verkum að kortlagning genamengis mannsins er ekki sú lausn sem menn gerðu sér vonir um.

Samkvæmt upplýsingum þeim sem hægt er að afla sér í greinum sem sérfræðingar skrifa þessa dagana hafa mörg líftæknifyrirtæki tekið á þessum erfiðleikum sínum með því að færa sig nær hefðbundnum lyfjafyrirtækjum, annaðhvort með því að koma á fót eigin lyfjaþróunardeildum eða með því að mynda bandalag við stór lyfjafyrirtæki. Upphafleg viðskiptaáætlun deCODE var sú að selja aðgang að gagnagrunni á heilbrigðissviði, gagnagrunni sem hefði að geyma gen íslensku þjóðarinnar, og svo hefur fyrirtækið nýlega hafið þessa lyfjaþróunarvinnu í samvinnu við lyfjafyrirtækið La Roche. Þannig er deCODE dæmi um fyrirtæki sem gerir nákvæmlega þetta sem lýst er í Newsweek, tengdi sig risastórum lyfjafyrirtækjum og keypti upp MediChem Life Sciences sem er efnafræðifyrirtæki fyrst og fremst. Kári Stefánsson hefur fjallað um það í viðtölum sem við hann hafa verið tekin að nú ætli hann að leiða þessa ólíku þætti saman og í gegnum það að leiða efnafræðina og erfðafræðina saman með lyfjarisann Hoffmann-La Roche á bak við sig geti lottóvinningurinn verið í höfn. En, herra forseti, það er deginum ljósara að það yrði um lottóvinning að ræða, svo gífurleg er áhættan. Formúlan er sem sagt þessi, að tengja saman fyrirtæki sem vinna innan erfðafræðinnar, efnafræðinnar og lyfjaframleiðslu. Hvernig hefur hún gengið? Til hvers hafa bandalög af þessu tagi leitt eða til hvers munu þau leiða? Jú, þau munu eflaust leiða til þess að stóru lyfjafyrirtækin yfirtaka hinn nýja líftæknigeira og Newsweek spáir því að lyfjarisarnir muni sameina líftæknigeirann lyfjaþróunardeildunum sínum. Annar möguleiki væri síðan sá að lyfjatæknifyrirtækin breyttu sjálfum sér í bein lyfjafyrirtæki, framleiðslufyrirtæki, eða að risarnir í upplýsingatækninni eins og IBM eða Compaq og Oracle taki þessi lyfjafyrirtæki undir sinn væng og noti til samstarfs um að hanna hugbúnað fyrir lyfjaþróun.

Samrunavinna lyfjaþróunarfyrirtækja, lífvísindafyrirtækja og tölvufyrirtækja er sem sagt formúlan sem verið er að nota í þessu tilfelli. Við vitum svo sem öll að tölvugaldurinn er magnaður og merkilegur en tölvukerfi eru kannski brokkgeng líka og vafasamt hvort nokkurn tíma verði hægt að nota þau beinlínis til að finna upp lyf. Hugmyndin sem Íslensk erfðagreining, deCODE og MediChem byggja á gerir í raun og veru ráð fyrir því og við þá aðferð setja sérfræðingar Newsweek spurningarmerki. Þeir spyrja hvort slíkt verði einhvern tíma mögulegt. Lokaniðurstaða greinarinnar um genabóluna sem ég hef notað sem uppistöðu í málflutning minn hingað til, herra forseti, varðandi þennan árangur, hvort þetta verði einhvern tíma mögulegt, er að um það sé allt á huldu. Herra forseti. Um það veit enginn. Hvers vegna er þetta allt svona flókið og hvers vegna er áhættan svona mikil?

Ef við höldum áfram að skima þetta tæknilega er vert að skoða sjónarmið líf- og vísindasagnfræðingsins Steindórs J. Erlingssonar sem á grein á strik.is í dag, grein sem fjallar um áhættu og Íslenska erfðagreiningu. Þar kemur einmitt dæmisaga vísindamannsins um það hvernig gengið hefur að greina orsakagen CF-sjúkdómsins. CF-sjúkdómurinn er sjúkdómur sem Steindór gerir grein fyrir í grein sinni. Það er rétt að lesa brot úr greininni þar sem Steindór vitnar í leiðara vísindatímaritsins Science sem birtist 13. okt. 1989. Í honum er verið að réttlæta fjármögnun stórfyrirtækja á raðgreiningu erfðamengis mannsins og þar koma fram upplýsingar sem varpa góðu ljósi á þessa óvissu.

Leiðarahöfundur Science bendir á að ekki sé til mikils ætlast að fara fram á 3 milljarða dollara fyrir raðgreiningarverkefni sem dreifast áttu yfir 15 ár og varpa mundu ljósi á ótal sjúkdóma. Svo kemur Steindór J. Erlingsson í grein sinni inn á þennan CF-sjúkdóm sem heitir á tæknimáli Cystic Fibrosis og ég vil fá að vitna, með leyfi forseta, beint í grein Steindórs en þar segir: ,,... í ljósi þess að ,,cystic fibrosis stofnunin hafi á fjórum undangengnum árum eytt 120 milljónum dala í einn sjúkdóm, svo ekki sé minnst á fjármagnið sem aðrar stofnanir og alríkisstjórnin hafa lagt til sama verkefnis.`` Í framhaldi af þessu bendir hann [þ.e. leiðarahöfundur Science frá 13. okt.] á að ,,sjúkdómar eins og geðhvarfasýki, Alzheimer, geðklofi og hjartasjúkdómar eru líklega fjölgena og miklu erfiðara að ráða fram úr en cystic fibrosis (CF).````

Svo kemur Steindór J. Erlingsson með sínum eigin orðum inn á það að hér séum við komin að kjarna málsins ,,því þessi sjúkdómur, sem er banvænn arfgengur sjúkdómur og veldur alvarlegum truflunum á starfsemi lungna og meltingarfæra, orsakast einungis af einu geni ólíkt þeim fjölgenasjúkdómum sem ÍE er að rannsaka. Genið sem veldur sjúkdómnum fannst árið 1989 og í frétt Science um málið frá 1. september sama ár er talið víst að þetta muni ,,leiða til betri greiningar og líklega til betri meðhöndlunar`` á sjúkdómnum. En þrátt fyrir að orsakagen CF hafi verið með fyrstu mannagenunum ,,sem voru staðsett, klónuð og raðgreind að fullu, og líklegt að nota mætti þessa vitneskju til genalækinga, hafa tæknilegir erfiðleikar staðið rúmlega áratuga rannsóknum fyrir þrifum. Á sama tíma hafa lyfjafræðilegar nálganir, sem beinast að lífefnafræðilegum orsökum sjúkdómsins, haldið áfram.`` Í stuttu máli má því segja að þrátt fyrir gríðarlegan fjáraustur hafi nánast ekkert gerst í að finna lækningu við sjúkdómnum þrátt fyrir að genið sem veldur honum hafi verið þekkt í 13 ár. Hvað þá að þróuð hafi verið lyf við þessum sjúkdómi á grundvelli erfðafræði hans.``

Herra forseti. Í þessari athyglisverðu grein Steindórs J. Erlingssonar, líf- og vísindasagnfræðings, kemur fram að þrátt fyrir mjög ítarlegar rannsóknir á CF-sjúkdómnum í þrettán undangengin ár hafi ekki verið þróuð lyf við honum á grundvelli erfðafræði hans.

Hvaða sjúkdóma er svo Íslensk erfðagreining að rannsaka? Jú, það kemur fram í grein Steindórs að þeir sjúkdómar sem Íslensk erfðagreining rannsakar eru meðal annars taldir orsakast af flóknu innbyrðis samspili óskilgreinds fjölda gena, eins og hann kemst að orði í grein sinni. Ef ég fæ að vitna áfram, með leyfi forseta, beint í greinina:

,,Sjúkdómarnir sem ÍE rannsakar eru annars vegar taldir orsakast af flóknu innbyrðis samspili óskilgreinds fjölda gena og hins vegar af flókinni víxlverkun þeirra við umhverfið. CF orsakast aftur á móti af einu geni sem er óháð ytra umhverfi einstaklingsins sem þjáist af sjúkdómnum. ÍE hefur enn ekki tilkynnt um fund á einu einasta af meintum orsakagenum sjúkdómanna sem fyrirtækið rannsakar á meðan CF-genið hefur verið þekkt í 13 ár. ÍE hyggst byggja lyfjaþróunar- og framleiðslufyrirtæki til að vinna lyf eða greiningartæki sem vinna á úr rannsóknarniðurstöðum sem enn eru ekki komnar (og koma kannski aldrei), meðan 13 ára sleitulausar tilraunir, með tilheyrandi fjáraustri, til þess að finna lækningu og lyf, byggð á erfðafræðilegum rannsóknum, við CF hafa enn ekki borið árangur. Í ljósi þessa tel ég fráleitt að íslenska þjóðin leggi svo mikið undir með ríkisábyrgð til að fjármagna ÍE-drauminn um lyfjaþróun því ég tel yfirgnæfandi líkur á að hann snúist upp í martröð.``

Svo mælir líf- og vísindasagnfræðingurinn Steindór J. Erlingsson í grein um áhættu og Íslenska erfðagreiningu.

Herra forseti. Innra með mér, fákunnandi um lífvísindi og erfðafræði, bærast nákvæmlega sömu tilfinningar. Ég er skíthrædd um að draumur Íslenskrar erfðagreiningar um árangur á þessu sviði eigi eftir að snúast upp í martröð. Og martröðin verður sýnu óhugnanlegri, herra forseti, ef við, háttvirtir alþingismenn á Alþingi Íslendinga, heimilum hæstv. fjmrh. að gangast í ábyrgð fyrir 20 milljarða kr. láni sem á að fjármagna ævintýrið, mögulegan lottóvinning.

Herra forseti. Lái hver sem vill okkur þingmönnum sem höfum efasemdir. Þegar við lesum greinar eftir fræðimenn á borð við þessa, Steindór J. Erlingsson og Alfreð Árnason, ber allt að sama brunni. Hér er vísindalega áhættan svo gífurleg að það er ekkert vit í því að setja fjármuni þjóðarinnar í þá spennitreyju sem hér er verið að fjalla um.

Herra forseti. Má ég þá koma aftur að tillögunni sem ég hreyfði í umræðunni fyrir nokkrum dögum þegar ég flutti fyrri ræðu mína í 2. umr. um málið. Ég legg það til í alvöru að við alþingismenn beitum okkur frekar fyrir því við ríkisstjórnina að hún leggi 20 þús. millj. inn á bankareikning, láti þær ávaxta sig, sennilega um eina 2 milljarða á ári, og eigi þar með fé til að setja í vísinda- og tæknirannsóknir sem hafa verið fjársveltar undanfarin ár. Hver er sú ríkisstjórn sem stærir sig af öflugri stefnu í vísinda- og tæknirannsóknum en ætlar svo að hlaupa út undan sér með 20 þús. millj. króna ríkisábyrgð fyrir fyrirtæki sem guð einn veit hvort hefur einhverjar hugmyndir sem geta orðið að veruleika?

[17:45]

Herra forseti. Það eykur manni ekki tiltrú á þessi áform öllsömul að fólk í viðskiptageiranum skuli vera jafnskeptískt og raun ber vitni. Því til marks má nefna grein sem birtist í Viðskiptablaðinu vikuna 17.--23. apríl síðastliðinn. Þar er lagt út af fundi sem Verslunarráð Íslands hélt. Eftir því sem ég man mun sá fundur hafa verið haldinn í miðvikudagshádegi 17. apríl. Þó þori ég ekki alveg að fara með dagsetninguna. En á þeim fundi, þar sem Verslunarráðið fjallaði um málið, kom fram að Bogi Pálsson, formaður Verslunarráðsins, sagði þessa hugmynd vera stílbrot á stefnu ríkisstjórnarinnar og meðal fundarmanna mun hafa komið fram almenn óánægja um málið. Viðskiptablaðið segir frá þessum fundi og getur um það að hæstv. fjmrh. Geir Haarde, hafi fengið það hlutverk á þessum fundi að verja þessa ákvörðun og hann mun hafa lagt áherslu á það í ræðu sinni að menn þyrftu stundum að gera fleira en gott þykir.

Herra forseti. Ég kref hæstv. fjmrh. skýringa á því hvers vegna hann leyfir sér að halda því fram að hann sé í þessu máli að gera fleira en honum þykir gott. Það sem Viðskiptablaðið hefur eftir hæstv. fjmrh. frá fundi Verslunarráðsins stangast á við það sem við höfum heyrt í ræðum hæstv. fjmrh. hér í þessum sal. Ég held að hæstv. fjmrh. verði að tala af meiri sannfæringarkrafti en hann hefur gert nú til þess að sannfæra Alþingi Íslendinga og þjóðina um að hér sé góð hugmynd á ferðinni. Eða gerir hæstv. fjmrh. sér ekki grein fyrir því að skoðanakannanir sýna að 75% þjóðarinnar eru þessu gífurlega mótfallin og að mótstaðan við hugmyndina virðist vera langmest á Reykjavíkursvæðinu, þar sem u.þ.b. 83% virðast vera mótfallin því að Alþingi heimili hæstv. fjmrh. að gangast í þessa ábyrgð?

Herra forseti. Viðskiptablaðið greinir þannig frá ræðu hæstv. fjmrh. að hann mun samkvæmt fréttinni hafa sagt að það hefði verið ábyrgðarleysi að vísa málinu frá sér til þess eins að halda fast í sannfæringu sína, en að menn þurfi stundum að gera fleira en gott þykir. Herra forseti. Hv. alþingismenn eiga inni hjá hæstv. fjmrh. skýringar á þessum orðum.

Hæstv. forsrh. hefur mótmælt því að hér sé um stílbrot eða stefnubreytingu að ræða hjá ríkisstjórninni. Hann hefur reyndar ekki gert það í þingræðum vegna þess að hann hefur nú ekki látið svo lítið sem að vera hérna við þessar umræður þannig að við höfum ekki haft tækifæri til þess að eiga nægilega mikil orðaskipti við hæstv. forsrh. í þessum efnum. Ég sakna þess reyndar, herra forseti, að hv. stjórnarþingmenn skuli ekki leggja meira á sig við umræðuna hér, þó að ég geti fagnað því nú að ég sé hv. formann efh.- og viðskn. ganga í salinn og treysti því að hann taki á öflugan hátt þátt í þessum umræðum en láti sér ekki nægja þá ræðu sem hann hélt hér sem framsöguræðu fyrir nefndarálitinu og stærði sig af að væri ein sú lengsta sem hann hefði haldið í þinginu. Ég treysti því að menn séu hér til þess að ræða málin og velta upp þeim rökum sem vísindamenn hafa komið með fram á sjónarmiðið nú á síðustu dögum og sömuleiðis fjármálaspekúlantar og ég tala nú ekki um hluti sem hafðir hafa verið eftir forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar. (Gripið fram í: Það kemst enginn að fyrir ykkur.) (Gripið fram í: Styttu málið og láttu á það reyna.) (Gripið fram í.)

Herra forseti. Grein sú í Viðskiptablaðinu sem ég hef verið að vitna hér í er afar athyglisverð fyrir margra hluta sakir. Þar halda menn á penna sem hafa haft trú á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar hingað til, en þá trú er sannarlega ekki að finna í þeirri grein sem hér birtist undir fyrirsögninni Sértækar aðgerðir fyrir sérstakt fyrirtæki. Blaðið segir frá því hvernig lögð hafi verið áhersla á það af hálfu ríkisstjórnarinnar að þetta mál sé einstakt í sinni röð og hafi ekki fordæmisgildi. En, herra forseti. Ég held því fram að hæstv. fjmrh. hafi ekki sannfært okkur hv. þm. um að málið sé ekki fordæmisgefandi. Hann hefur haft á orði að hann sé svo sem tilbúinn til að skoða fleiri mál, hvert það mál sem upp komi og gæti verið þannig í laginu að það mætti flokka undir svipaðan hatt. Herra forseti. Þau orð hæstv. fjmrh. hafa ekki verið trúverðug að mínu mati. Engin fyrirheit hafa verið gefin út af hálfu ríkisstjórnarinnar um að slíkt verði upp á teningnum og það hafa heldur engin fyrirheit verið gefin af hálfu ríkisstjórnarinnar um að menn séu að móta hér einhverja stefnu. Það er ekki sýnilegt í þessu máli frekar en í öðrum málum, stórum atvinnumálum sem við höfum fjallað um í þingsölum í vetur. Stefnuleysið eitt hefur verið ríkjandi. Það ríkir enn. Það ríkir í stóriðjumálunum. Það ríkir í þessum málum líka. Það eina sem virðist vera stefna hjá hæstv. ríkisstjórn er að verkefnin séu af slíkri stærðargráðu að þau séu ofvaxin íslensku samfélagi. Þessu máli hef ég líkt við eldflaug sem lent hefur á morgunverðarborðinu mínu. Svo ofvaxið er þetta mál eitt og sér.

Herra forseti. Er nauðsynlegt fyrir íslensk stjórnvöld að grípa til þeirra sértæku ráðstafana sem hér er verið að leggja til? Ég vil segja að þessi spurning sé fullkomlega gild, að eðlilegt sé að við spyrjum þessara spurninga. Rökin eru að koma fram á sjónarsviðið núna. Eftir því sem fleiri greinar eru skrifaðar því fleiri rök koma hér upp á yfirborðið. Herra forseti. Ég verð að segja að þau rök eru öll andsnúin hugmyndinni.

Verslunarráðið hefur verið hér til umfjöllunar. Eins og ég greindi frá hefur Viðskiptablaðið gert ítarlega grein fyrir fundi Verslunarráðsins um málið. Í þeirri grein er fjallað um að Verslunarráðið hafi fengið Kára Stefánsson á fund sinn og hann hafi sagt þar að haft hafi verið samband við hann frá Írlandi og honum boðin aðstoð ef hann vildi setja fyrirtæki sitt upp þar. Fjmrh. hefur sömuleiðis látið svo um mælt hér úr þessum ræðustóli og víðar að hætta sé á að lyfjaþróunarfyrirtækið sem hér um ræðir verði sett upp í Bandaríkjunum, þar séu í boði ýmsar stuðningsaðgerðir þannig að ef við bítum ekki á agnið núna þá fari fyrirtækið bara til Bandaríkjanna og Kári Stefánsson hefur svo sem ýjað að þessu sjálfur í viðtölum sem við hann hafa verið tekin í fjölmiðlum.

Þetta hefur svo sem ekkert verið útskýrt nánar og Viðskiptablaðið segir að það veki forvitni að Kári telji málið sjálfur þannig vaxið að Ísland sé besta landið fyrir deCODE til að byggja upp slíka aðstöðu. Hann segir fyrir því ýmis rekstrarleg rök. Jafnframt segir hann að erfiðara geti verið að fjármagna uppbyggingu starfseminnar hér. Þau orð Kára Stefánssonar um að ýmis rekstrarleg rök séu fyrir því að hafa fyrirtækið hérna frekar en í Bandaríkjunum virðast hafa orðið ríkisstjórninni einhvers konar hvatning til að taka þetta mál til skoðunar. Nú er svo komið sem menn vita að hér liggur fyrir fullbúið frv. Þó svo að gagnrýnt hafi verið hversu þunnildislegt það er þá liggur hér engu að síður fyrir frv. sem byggir á fullyrðingum Kára Stefánssonar um að best sé að hafa þessa starfsemi á Íslandi, jafnvel þó svo að líka hafi komið fram að Kári Stefánsson segist vera í minni hluta í stjórn fyrirtækisins.

Herra forseti. Ég verð að segja að það skýtur ansi skökku við og er ansi ankannalegt að Kári Stefánsson skuli í raun vera einn til frásagnar um alla þessa hluti, þ.e. hvers vegna rétt sé að setja fyrirtækið upp hér en ekki einhvers staðar annars staðar. Rökin sem beitt hefur verið á alþingismenn eða okkur stjórnmálamenn hafa verið þau að verið sé að skapa skilyrði fyrir fólk í iðngreininni, þ.e. líftækninni, lífvísindunum. En því hefur svo sem engu verið svarað í þessum umræðum hvers vegna menn sjái þá ekki ástæðu til þess að efla þau fyrirtæki sem nú þegar eru á þessum á markaði. Hafa þar verið nefnd fyrirtæki á borð við Delta, Lyfjaþróun hf., Pharmaco og fleiri fyrirtæki sem komið hafa hér upp á borðið.

Með því að efla deCODE eða Íslenska erfðagreiningu á þann hátt sem hér er lagt til er alveg ljóst að jaðaráhrifin geta orðið gífurleg og þau geta komið sér mjög illa fyrir þau fyrirtæki sem hafa verið að reyna að byggja sig upp hér fyrir eigin vélarafli, ef svo má að orði komast.

Því er haldið fram í Viðskiptablaðinu að Kári Stefánsson með hugmyndum sínum og kannski hæstv. fjmrh. með hinni 20 milljarða kr. ríkisábyrgð séu að blása nýju lífi í viðskiptahugmyndina á bak við deCODE. Í Viðskiptablaðinu segir, ef ég má vitna beint í greinina, með leyfi forseta:

,,Færa má sterk rök fyrir því að það sé nauðsynlegt fyrir fyrirtækið að fara út í lyfjaþróun ef það ætlar að halda áfram að vera gerandi í heimi líftækninnar þar sem efasemdarmönnum hefur vaxið ásmegin undanfarið og fjárfestar halda að sér höndum. Nýtt áhættufé fæst ekki nema með afarkostum og gengi bréfa fyrirtækjanna ýtir ekki undir hlutafjárútboð. Eigið fé deCODE er um 17,5 milljarðar kr. og markaðsvirði nálægt 27--28 milljarðar kr. Talið er að félagið geti rekið sig í tvö til þrjú ár án þess að fá nýtt fé inn miðað við núverandi tekjur.``

Herra forseti. Hvaða staðreyndir málsins liggja hér fyrir í grein Viðskiptablaðsins? Að fyrirtækið deCODE geti ekki rekið sig nema í tvö til þrjú ár í viðbót nema að inn í fyrirtækið komi umtalsvert nýtt fjármagn. Af hverju sækir fyrirtækið ekki þetta nýja fjármagn út á markaðinn, herra forseti? Getur það verið vegna þess sem ég hef verið að rekja í máli mínu, að líftæknifyrirtæki eigi ekki upp á pallborðið hjá fjárfestum í dag, vegna þess að fjárfestar hafa verið að missa trúna á þær aðferðir sem beitt er? Getur verið að það sé vegna þess að aðferðir Kára Stefánssonar og Íslenskrar erfðagreiningar, í þeim rannsóknum sem þar hafa farið fram, séu orðnar gamaldags, séu þess eðlis að fjárfestar trúi ekki lengur á þær? Mér sýnist, herra forseti, Viðskiptablaðið vera að renna styrkum stoðum undir þá röksemd. Íslensk erfðagreining og deCODE genetics Inc. heyra kannski sögunni til eftir tvö til þrjú ár nema að til komi umtalsvert nýtt fjármagn. Er íslenska ríkisstjórnin að bjarga Íslenskri erfðagreiningu frá gjaldþroti með þessari aðgerð? Snýst málið um það? Snýst það ekki um að skapa ný störf? Viðskiptablaðið tekur þannig á málum í þessari grein að það er ekkert óeðlilegt þó að spurningar af slíku tagi vakni.

Ef maður skoðar þær niðurstöður sem Viðskiptablaðið hreyfir í grein sinni þá eru þær svipaðar og vekja upp hjá manni sambærilegan ótta og sérfræðingar Newsweek gera í grein þeirri sem ég vísaði í áðan, herra forseti, og fjallaði um genablöðruna, sem er kannski við það að springa í andlitið á okkur.

Herra forseti. Ég tel vera full rök fyrir því að íslenska ríkisstjórnin setjist yfir mál líftækniiðnaðarins almennt og reyni að gera sér raunverulega grein fyrir því hvaða möguleikar séu í honum fólgnir. Hvaða raunhæfa möguleika eigum við Íslendingar á því að taka virkan þátt í þeirri þróun sem á sér stað í þeim geira? Er ekki alveg sjálfsagt að við setjumst yfir það af fullri meðvitund og reynum að skoða málið þannig ofan í kjölinn að við getum markað skynsamlega atvinnustefnu í þessari grein, í þessum geira, eins og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs höfum kallað eftir að verði mörkuð hvað varðar orkugeirann? Það er eðlilegt að kallað sé eftir skynsamlegri stefnumörkun á þessu sviði, almennri stefnumörkun en ekki sértækum aðgerðum sem beinast bara að einu fyrirtæki en hafa ekkert með heildarmyndina að gera, ekki neitt.

[18:00]

Ríkisstjórnin íslenska ætlar hvorki að gefa almenningi, fjölmiðlum né þingmönnum svigrúm eða tækifæri til að ræða þessi mál á þann hátt að hægt sé að marka um þau almenna, gjöfula og uppbyggilega stefnu. Það er alveg ljóst. Hér eru menn eins og rófuskertir refir að reyna að koma þessu máli í gegn hvað sem það kostar. Fæstir þingmenn stjórnarflokkanna láta svo lítið að vera viðstaddir umræðuna, og þeir örfáu sem hafa tjáð sig eru svo sem ekki að styrkja trú okkar á þessar hugmyndir. Það er kannski rétt að geta þess að það má gagnrýna þingmenn úr stjórnarflokkunum fyrir að tjá sig um málið í netpistlum fremur en að standa hér og taka beinan þátt í umræðunni.

Hinn 11. apríl setti t.d. hv. þm. Ásta Möller pistil á netið þar sem hún fjallar um þessa ríkisábyrgð, og þar er á henni mikið hik, herra forseti. Ég hefði satt að segja óskað eftir því að hv. þm. væri stödd hér og tæki beinan þátt í umræðunni í þingsölum en léti sér ekki nægja að skrifa pistil um málið á vefinn sinn. En mig langar, herra forseti, úr því að hún er ekki hér við umræðuna að fá að vitna í pistil hennar þar sem hún talar sem talsmaður einkaframtaksins og minni ríkisumsvifa. Á henni er mikið hik þegar ábyrgð til einkafyrirtækja er annars vegar. Hv. þm. segir í pistli sínum, með leyfi forseta:

,,Slíkt á eingöngu að veita í sérstökum tilvikum og teljast til algjörra undantekninga.``

Og hvað sér hv. þm. í því einstaka máli sem hérna er til umræðu, þ.e. þeim möguleika að stofnsetja lyfjaþróunarfyrirtæki á Íslandi? Hún segir, með leyfi forseta:

,,Hér gefst tækifæri að íslenskt fyrirtæki, með nýtingu íslensks hugvits, hasli sér völl á lyfjaþróunarsviði á alheimsmarkaði sem veltir peningaupphæðum sem eru utan hugarflugs hvers manns. Með þessu skapast ný stóriðja sem veitir menntuðu fólki hálaunastörf og nýtt fjármagn kemur til landsins. Ávinningurinn er mikill og áhætta ríkissjóðs hefur verið lágmörkuð sem kostur er.``

Herra forseti. Ég tel eðlilegt að hv. þm. Ásta Möller svari okkur því á hvern hátt henni sýnist áhætta ríkissjóðs hafa verið lágmörkuð sem kostur er. Annað hefur komið fram í vel rökstuddu máli þeirra stjórnarandstöðuþingmanna sem hér hafa um fjallað og gáfu út minnihlutaálit efh.- og viðskn. Þá er ég að tala um hv. þingmenn Ögmund Jónasson og Jóhönnu Sigurðardóttur. Það er aldeilis eitt og annað í málflutningi þeirra þar sem okkur hefur verið bent á að áhættan hafi alls ekki verið lágmörkuð, ekki hafi verið gerðar tilraunir til að lágmarka áhættu ríkissjóðs heldur þvert á móti, hún yrði gífurleg ef af þessu yrði. Ég tel full efni til þess að hv. þm. Ásta Möller og aðrir þingmenn stjórnarliðsins taki þátt í umræðunni og svari fyrir sjónarmið sín í þessum efnum. Að öðrum kosti verður að segjast eins og er að hv. þm. Sjálfstfl. virðast bara treysta hæstv. forsrh. Davíð Oddssyni í blindni. Ég leyfi mér að halda því fram, herra forseti, að þar leiði haltur blindan. Ég held því fram að sú blinda sem hv. þm. Sjálfstfl. virðast slegnir í þessu máli sé í hæsta máta óskiljanleg. Það er ekkert óeðlilegt við það að við, stjórnarandstöðuþingmennirnir, krefjum þá svara, gerum kröfu á þá um að þeir komi í ræðustól og rökstyðji það hvers vegna þeir hyggist fara með Davíð Oddssyni og ríkisstjórninni í þessa krossferð.

Herra forseti. Hv. þm. Gunnar Birgisson er einn þeirra stjórnarþingmanna sem hafa tekið þátt í umræðunni. Hann hélt því fram í ræðu í morgun að hann teldi málið verða til mikillar hagsældar fyrir þjóðina. Minnti sú fullyrðing, herra forseti, óþægilega mikið á fullyrðingar hæstv. iðnrh., og reyndar fleiri þingmanna sem aðhyllast stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar, þegar við fjölluðum hér um virkjun við Kárahnjúka og mögulega byggingu álvers á Reyðarfirði. Þá stóð bunan upp úr hverjum stjórnarþingmanninum á fætur öðrum um að verkefnið væri gífurlega arðbært. Muna hv. þm. orðalagið? ,,Hér er um gífurleg arðbært verkefni að ræða`` og gott ef hæstv. iðnrh. sagði ekki ,,bullandi arðbært``. Við skulum ekki gleyma hvernig talað var þá. Og núna talaði hv. þm. Gunnar Birgisson í nákvæmlega sama tón. Hann taldi að málið yrði til ,,mikillar hagsældar fyrir þjóðina``. Hverju svarar hv. þm. þá þeim rökum sem ég hef verið að tína til og hafa verið að koma fram á sjónarsviðið þessa daga sem málið hefur verið til umfjöllunar, röksemdafærslum þeirra sem vel þekkja til á fjármálamarkaði og röksemdafærslum þeirra sem mjög vel þekkja til á líftæknimarkaði og vita um hvað lyfjaþróun snýst? Og hvers vegna, herra forseti, hefur ekki komið hér inn í umfjöllunina um hvers konar fyrirtæki er verið að tala og hvers við eigum að vænta í þeim efnum?

Þegar málið var til 1. umr. á Alþingi, hæstv. forseti, var dregið fram á sjónarsviðið að hér væri um dýratilraunir að ræða, þetta væri kannski fyrst og fremst risastór dýratilraunastofa sem setja ætti upp. Þá vakti hv. þm. Pétur H. Blöndal upp spurninguna um það hvort hér ætti að fara að flytja inn apa, skera þá upp og krukka í heilann á þeim. Ég sakna þess, herra forseti, að þessi umræða skyldi ekki hafa farið lengra. Kári Stefánsson hefur sagt okkur það fullum fetum líka í viðtölum sem við hann hafa verið höfð að hér sé um dýratilraunir að ræða. Erum við að tala um að sá iðnaður sem hér um ræðir krefjist gífurlegs innflutnings á tilraunadýrum? Og hvaða dýrum? Öpum, hundum, köttum, rottum, músum? Hvers vegna tölum við ekki um það hér hvers konar fyrirtæki við erum að fjalla um, hvers konar atvinnugrein lyfjaþróunin er? Mér finnst alveg sjálfsagt að þeir þættir séu líka teknir inn í umræðuna, herra forseti. Þegar um það er að ræða að veita 20 þús. millj. kr. ábyrgð úr sameiginlegum sjóði okkar, skattborgara, þjóðarinnar allrar, er alveg eðlilegt að varpað sé ljósi á allar hliðar þessa máls. Það nægir okkur ekki að heyra fullyrðingar eins og af vörum hv. þm. Gunnars Birgissonar sem telur að málið verði til mikillar hagsældar fyrir þjóðina, án frekari rökstuðnings.

Í sjálfu sér er líka afar athyglisvert, herra forseti, sem hv. þm. Sverrir Hermannsson vakti athygli á í umræðunni þar sem hann dró fram í dagsljósið nál. meiri hluta efh.- og viðskn. sem gerir lítið annað en að tína til nöfnin á öllum þeim aðilum sem komu fyrir nefndina en í nál. er ekki eitt einasta orð um það hvað allir þeir aðilar höfðu um málið að segja. Hvað höfðu aðilarnir um málið að segja? Þeir voru bullandi neikvæðir. Þeir vildu bara helst ekki sjá þetta. Eftir því sem fram hefur komið í máli minni hluta efh.- og viðskn. eru öll viðvörunarljós blikkandi, mjög öflug, kröftug varnaðarorð frá gestum efh.- og viðskn., sem meiri hluti efh.- og viðskn. gerir nákvæmlega ekki neitt með.

Ekki eru gerðar tilraunir til að svara þeim málflutningi sem kemur fram í tímaritsgrein í Vísbendingu þann 12. apríl 2002 þar sem fjallað er um drauminn um deCODE, drauminn sem hefur verið mjög umdeildur hingað til, drauminn sem átti að byggja á aðgengi að sjúkraskrám, drauminn sem byggði á einkaleyfi á gagnagrunni og nú ríkisábyrgð á skuldabréfum. Í þeirri grein er varpað fram mjög áleitnum spurningum sem er alveg eðlilegt að sé gert í þessu sambandi. Þar hafa menn áhyggjur af því að markaðsvirði fyrirtækisins sé minna núna en einn tíundi hluti af því sem það var þegar væntingarnar til þess voru hvað mestar. Höfundar greinarinnar í Vísbendingu spyrja hvort ekki sé þá bara eðlilegt að menn sem keyptu hlutabréf í fyrirtækinu á sínum tíma, fyrir u.þ.b. þremur árum, á gengi jafnvel allt upp undir 60, spyrji núna: Hvar er draumurinn? Er draumurinn minn að snúast upp í martröð? Fjöldinn allur af fólki fjárfesti í fyrirtækinu og hefur erfiðar tilfinningar til þess í dag af því að það virðist vera að flæða undan hugsjóninni. Allt og sumt sem ríkisstjórnin virðist ætla að gefa þessu fólki og okkur hinum til að trúa á er bara lottóvinningur. Fæturnir eru ekki meira á jörðinni en svo.

Í greininni í Vísbendingu er fjallað um allar væntingarnar sem fólk hafði til þessa ævintýris. Í framhaldi af því að rætt er um hrapallegt gengi deCODE á hlutabréfamörkuðum er talað um að samt séu væntingarnar enn miklar. Vitnað er í fréttatilkynningu um ríkisábyrgðina og í henni mun segja, með leyfi forseta: ,, ... hér er um að ræða verulegt sóknarfæri fyrir Ísland sem haft getur í för með sér jákvæða keðjuverkun sem skilað getur þjóðarbúinu miklum tekjum og möguleikum þegar fram í sækir.``

Áfram segir svo í grein Vísbendingar, með leyfi forseta:

,,Íslensk erfðagreining er trompið í sköpun þekkingariðnaðar á Íslandi, eins konar mótvægi við þá stefnu sem ríkisstjórnin hefur hingað til lagt mest upp úr, að hér sé fyrst og fremst hráefnisvinnsla.

Yfirlýsingar í sambandi við deCODE á Íslandi minna mikið á hugmyndir af öðrum efnahagsævintýrum á Íslandi, ekki hvað síst fiskeldið.``

Síðan er farið í gegnum það hvernig sá draumur allur fór og í lok greinarinnar, herra forseti, er komið að stjórnmálamönnunum sem að mati höfundar hafa í tímans rás verið allt of viljugir til að ráðast í stórtæk ævintýri, eins og segir í greininni, og svo heldur áfram, með leyfi forseta: ,,... sem áttu að breyta efnahag þjóðarinnar í einu vetfangi. Þeir virðast ekki skirrast við að láta ríkið bera ábyrgð á þeirri ,,framtíðarsýn`` sem þeir hafa og tekst jafnan að víkja sér undan ábyrgð þegar sú sýn reynist röng. Vissulega getur það verið auðveldara fyrir sum fyrirtæki að vaxa og dafna í skjóli ríkisins en það skjól hindrar eðlilega lífsbaráttu, það dregur úr samkeppni á markaði og gerir öðrum fyrirtækjum erfitt uppdráttar. Slíkt ,,skálkaskjól`` skapar fyrirtækjum líka oft falskt öryggi sem getur reynst þeim dýrkeypt í fyllingu tímans.``

Þessar vangaveltur eru sannarlega eðlilegar og við eigum orðið inni hjá hæstv. ríkisstjórn og stjórnarþingmönnum að þeir svari þessum röksemdafærslum.

Í niðurlagi máls míns, herra forseti, er rétt að geta þess að á strik.is er núna að finna pistil þar sem Egill Helgason, sá sem stýrir Silfri Egils, fjallar um þetta mál. Margir eru til kallaðir að fjalla um það enda vekur það upp mjög sterk viðbrögð um allt í samfélaginu. Þar fjallar Egill Helgason um álit meiri hluta efh.- og viðskn. sem ég gerði að umtalsefni fyrir örfáum mínútum. Egill Helgason gagnrýnir meiri hluta efh.- og viðskn. og um leið þá þingmenn stjórnarflokkanna sem ætla að treysta á þetta mál í blindni. Hann segir í pistli sínum, með leyfi forseta:

,,Annars má draga efnisatriði álitsins saman í fá orð: Við vitum sama og ekki neitt, höfum eiginlega ekkert um þetta að segja en samþykkjum í blindni.``

Herra forseti. Ég hvet hv. þingmenn stjórnarflokkanna til að hugsa málið betur, hugsa það ofan í kjölinn út frá þeim rökum sem hafa verið færð fram núna í fjölmiðlunum, á netmiðlunum og úti um allt í samfélaginu. Öll varúðarljós blikka og menn krefjast svara við ótal spurningum. Þeim hefur enn ekki verið svarað. Við eigum í þessum sal að sjá til þess að almenningur fái svör við sínum áleitnu spurningum. Við eigum að sjá til þess að fólk sé vel upplýst. En það gerum við ekki nema við samþykkjum að vera vel upplýst sjálf.