Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Föstudaginn 26. apríl 2002, kl. 18:19:37 (8271)

2002-04-26 18:19:37# 127. lþ. 130.11 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 127. lþ.

[18:19]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það kom mjög skýrt fram í máli hv. þm. að það framtak sem felst í Íslenskri erfðagreiningu hefur skilað miklum árangri í Vatnsmýrinni við að byggja upp þekkingarþorpið þar og miklu meiri árangri en vænta má af hálfu ríkisins þegar haft er í huga að þar hefur Náttúrufræðihúsið sem þingmaðurinn nefndi verið svo lengi í byggingu.

Ég tel rétt að árétta að menn byggja ekki upp þekkingarþorp í Vatnsmýrinni eins og kosningastefna Reykjavíkurlistans er nema með tilstuðlan aðila sem hafa þann kraft og dugnað að geta byggt upp nýja starfsemi og fengið til þess bæði fé og mannafla eins og reyndin hefur verið með Íslenska erfðagreiningu. Við getum ekki byggt upp þekkingarþorp einvörðungu á grundvelli ríkisreksturs, eins og mér virðist að sé sjónarmið hv. þm., þ.e. að hið mikla fé sem mun þurfa til að koma þessu á eigi einungis að fara í gegnum ríkið.

Mér finnst að það felist líka í því mismunun ef menn ætla að láta atvinnuuppbyggingu í nýjum atvinnugreinum hvíla eingöngu á pólitískum ákvörðunum í gegnum fjárlög og ríkisrekstur. (Gripið fram í: Hvað er nú ...) Ég held að það sé allt of þröng nálgun hjá hv. þm. að miða við að eini aðilinn sem megi og eigi að byggja upp atvinnugrein og þekkingarþorp í Vatnsmýrinni eigi að gera það í gegnum ríkissjóð. (SJS: Ertu á móti ríkisafskiptum?)

Herra forseti. Ég tel mjög athyglisvert að þingmenn Vinstri gænna leggjast í raun gegn einu aðalatriðinu í kosningastefnuskrá Reykjavíkurlistans. Það er mjög athyglisvert, sem ég held að kjósendur í Reykjavík verði að átta sig á, að það eru þingmenn Framsfl. sem leggja sig fram um að skapa aðstæður sem geta efnt eitt aðalkosningaatriðið í stefnuskrá Reykjavíkurlistans.