Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Föstudaginn 26. apríl 2002, kl. 18:50:35 (8274)

2002-04-26 18:50:35# 127. lþ. 130.11 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 127. lþ.

[18:50]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég biðst forláts á því að hafa verið svona seinn til að biðja um orðið til andsvars. En það kom mér bara svo á óvart að hv. þm. talaði stutt og lauk ræðu sinni skyndilega. Ég var bara algjörlega óviðbúinn. En ég vona að forseti virði mér það til vorkunnar, enda veitti hann mér orðið.

Ég vil segja um það sem kom fram hjá hv. þm. í fyrsta lagi hvað varðar deCODE og Íslenska erfðagreiningu, að ég vek athygli á því að í frv. er ekki verið að veita ábyrgðina, heldur veita fjmrh. heimild til að veita ábyrgðina að uppfylltum skilyrðum sem hann metur gild. Auðvitað verður gengið frá því að sambandið þarna á milli verði með þeim hætti að ríkið gæti hagsmuna sinna. Það er eðlilegt að það sé deCODE sem gefi út skuldabréfin því það er jú fyrirtæki skráð á alþjóðlegum markaði og því líklegra að það geti selt skuldabréf heldur en innlent eða íslenskt fyrirtæki. Ég tel því óþarfa að gera það tortryggilegt.

Í öðru lagi bendi ég á að Íslensk erfðagreining er mjög vel fjármagnað fyrirtæki. Það kemur fram í gögnum frv. að eigið fé fyrirtækisins er tæpar 18 þús. millj. kr. og í þeim upplýsingum sem efh.- og viðskn. fékk kom mjög skýrt fram að fyrirtækið er mjög vel fjármagnað til næstu ára í sínum plönum. Því eru engar líkur á að það steyti á skeri miðað við þær áætlanir sem það hefur gert og ekki er annað að sjá en það gangi vel eftir. Það er þá frekar til að styrkja málið að fyrirtæki sem á að fá ábyrgðina leggi allar sínar eignir undir. Það dregur frekar úr áhættunni sem vissulegar er fyrir hendi í þessu máli. Ég hef aldrei dregið dul á það í máli mínu að ég tel þetta auðvitað áhættumál. En það breytir því ekki að ég fylgi því.