Stjórnarfrumvörp og framhald þinghalds

Laugardaginn 27. apríl 2002, kl. 10:03:25 (8281)

2002-04-27 10:03:25# 127. lþ. 131.91 fundur 551#B stjórnarfrumvörp og framhald þinghalds# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 127. lþ.

[10:03]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Við erum kannski að endurtaka umræðuna sem við tókum í upphafi þingfundar í gærmorgun. Í sjálfu sér er eðlilegt að spurt sé hvert stefni og hvenær við hyggjumst ljúka þinghaldinu. Það er orðið ljóst að við munum ekki klára fyrr en í næstu viku og í sjálfu sér kannski ekkert skelfilegt við það. Mér finnst allt í lagi að þinghaldið dragist eitthvað fram yfir það sem fyrirhugað var. Ég tek þó undir að mikilvægt sé að menn setji sér nýjar áætlanir.

Ég vil leggja á það áherslu, í ljósi þess að við höfum setið lengi við síðustu daga og jafnvel kannski farið að telja það í vikum, að við hættum á skikkanlegum tíma í dag. Það er a.m.k. ljóst að á mánudaginn verður áfram haldið. Það eru u.þ.b. 60 mál á dagskránni sem þarf að klára, og það er ljóst að næsta vika sem telur bara fjóra virka daga nægir varla til að klára þau mál sem fyrir liggja. Það er því ljóst að við þurfum að setjast niður og setja okkur nýjar áætlanir.