Stjórnarfrumvörp og framhald þinghalds

Laugardaginn 27. apríl 2002, kl. 10:05:55 (8283)

2002-04-27 10:05:55# 127. lþ. 131.91 fundur 551#B stjórnarfrumvörp og framhald þinghalds# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 127. lþ.

[10:05]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vakti athygli á því að fyrir mánuði voru allar líkur á að áætlanir þingsins mundu standast. Þá gerist það að hæstv. ráðherrar koma inn í þingið með hvert stórmálið á fætur öðru, sum hver mjög illa undirbúin, önnur mjög umdeild. Það skal engan undra að menn vilji ræða ítarlega frumvörp á borð við frumvarp hæstv. fjmrh. um ríkisábyrgð upp á 20 milljarða króna. Það væri óeðlilegt ef þingið léti það fram hjá sér fara að óathuguðu máli og gerði ekki annað en að stimpla frv. ríkisstjórnarinnar. Það væri óábyrgt. Og það ætti hv. þingflokksformaður Framsfl. að vita.

Það er þetta sem ég gagnrýni, að ríkisstjórnin kemur á síðustu dögum og vikum þingsins fram með hvert stórmálið á fætur öðru. Hv. þm. má líka vita að ég hef verið talsmaður þess að samið verði um þinghaldið. Það er mikilvægt að við getum byggt á markvissum áætlunum og að þær áætlanir standist en þá verða allir að sjálfsögðu að sýna fulla ábyrgð. Gagnrýni mín beinist fyrst og fremst að ríkisstjórninni í þessu efni. Það er hún sem hefur hagað sér á óábyrgan hátt.

Ég tel mjög mikilvægt, ef við ætlum að láta áætlanir standast og hafa hér skipulag á hlutunum, að við setjumst yfir málin og ræðum hvaða mál á að afgreiða og hver á að láta bíða til haustsins. Það er alveg ljóst að það verður að sjálfsögðu að forgangsraða á einhvern hátt ef við eigum að koma hér skikki á hlutina.