Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Laugardaginn 27. apríl 2002, kl. 10:11:26 (8286)

2002-04-27 10:11:26# 127. lþ. 131.1 fundur 670. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (norsk-íslenski síldarstofninn) frv. 50/2002, Frsm. 1. minni hluta GAK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 127. lþ.

[10:11]

Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Við hefjum hér lokaumræðu, 3. umr. um frv. sjútvrh., um veiðar á norsk-íslensku síldinni og fyrirkomulag þeirra á næstu árum. Í frv. er lagt til að veiðirétti í norsk-íslensku síldinni skuli skipt upp miðað við veiðireynsluna frá 1994--2001.

Það verður að segjast eins og er að hér er verið að taka ákvörðun um enn eina kvótaskiptinguna á grundvelli þess fyrirkomulags sem ríkisstjórnin hefur unnið eftir, að sem flestar tegundir skuli rata inn í einhvers konar kvótakerfi og að sú úthlutun skuli festast í sessi. Um veiðar utan lögsögu höfum við samt sérlög, herra forseti, önnur en hin almennu lög um stjórn fiskveiða, sérlög um annars vegar svokallaða deilistofna, sem ganga inn og út úr lögsögu okkar, og hins vegar um stofna sem veiðast almennt utan lögsögunnar. Sem dæmi um þessa tvo stofna og framkvæmd þessara laga sem við ræðum hér, lög nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, má nefna tvær kvótaskiptingar. Önnur er fyrirkomulag okkar á veiðum á Flæmingjagrunni þar sem við Íslendingar einir þjóða erum með kvótaskiptingu á skip en aðrar þjóðir veiða eftir sóknardögum. Þarna er um að ræða stofn sem auðvitað er ekki deilistofn heldur skiptist eftir ákvæðum laganna á sínum tíma og þar var notuð svokölluð innskilaregla. Í slíkum stofnum má mest skila inn í lögsöguna 7% af þeim þorskígildum sem verið er að úthluta samkvæmt þessum lögum sem við erum að ræða. Hitt dæmið sem við höfum um framkvæmd skiptingar veiðistofns á grundvelli þessara laga sem við erum að ræða er kvótaskiptingin á Reykjaneshrygg þegar úthafskarfanum, 45 þús. tonnum sem kom í okkar hlut og samið var um fyrir mörgum árum að yrði hlutur Íslendinga úr þeim veiðum, var skipt upp milli þeirra skipa sem veiðireynslu höfðu.

[10:15]

Þar var í annan stað einnig viðurkenndur svokallaður frumkvöðlaréttur, þ.e. þeir sem hófu veiðarnar fyrstir og sýndu fram á að þarna mætti ná árangri við veiðar fengu viðurkenndan ákveðinn frumkvæðisrétt. Síðan var einnig viðurkennt að þorskígildum skyldi skila inn í lögsöguna undir hinni reglunni sem er í 4. mgr. 5. gr. þessara laga. Þar segir að binda megi úthlutun því skilyrði að skip afsali sér aflaheimildum úr fiskstofnum innan lögsögu Íslands er nemi reiknað í þorskígildum allt að 15% af þeim aflaheimildum sem ný úthlutun færi þeim. Í þessu tilviki, á Reykjaneshryggnum, var skilað inn 8% af þeim þorskígildisverðmætum sem verið var að úthluta á Reykjaneshrygg. Þetta varð til þess að innskilareglan varðandi rækjuna á Flæmingjagrunni skilaði inn í lögsöguna 275 tonnum, að mig minnir, sem var mest skilað í rækju. En innskilareglan á Reykjaneshrygg skilaði inn tæpum 2 þús. þorskígildistonnum til annarra skipa en þeirra sem veiðarnar höfðu stundað.

Þessi lög, nr. 151/1996, eru ekki útfærð svona af neinni sérstakri tilviljun. Það var rökrætt þegar verið var að semja lagafrv. hvort ekki væri eðlilegt að þar sem sumir útgerðarflokkar væru að bæta við sig nýjum verkefnum og í raun að fá úthlutanir upp á framtíðarveiðirétt á meðan aðrir hlutar flotans væru bundnir við veiðar innan lögsögu og ættu litla möguleika á að sækja á dýpri slóðir eða í nýja veiðimöguleika, þá væri þeim hluta flotans sem eftir sæti innan lögsögunnar með einhverjum hætti bættur að hluta til sá kyrrstæði réttur í raun og veru sem hann hefir búið við. Reyndar hefur veiðirétturinn innan lögsögunnar ekki verið sá sami, því eins og allir vita hafa menn verið að skera verulega niður heimildir innan lögsögunnar, sem dæmi veiðar á þorskstofninum og reyndar á fleiri fiskstofnum á undanförnum árum. Því þótti mjög eðlilegt þegar verið var að semja frv. að svo skyldi með þetta farið að heimildarákvæði væri í lögunum um að þeir sem væru að vinna sér inn nýja veiðireynslu skyldu skila ákveðnu kvótahlutfalli inn í lögsöguna.

Það komu mörg sjónarmið til greina þegar við vorum að ræða frv. sem var aðdragandi þessara laga nr. 151/1996. Meðal annars var bent á það í umræðunum að á sama tíma og ákveðnir hlutar flotans voru að vinna sér inn veiðirétt þá voru þeir að leigja frá sér aflaheimildir innan lögsögunnar, aflaheimildir sem þeir notuðu ekki á sama tíma og þeir voru að vinna sér inn veiðiréttinn. Sem dæmi má nefna eins og ég sagði áður Reykjaneshrygg, Flæmingjagrunn, veiðar uppi í Barentshafi svo eitthvað sé nefnt, og síðan auðvitað veiðiréttinn í norsk-íslensku síldinni.

Þar sem veiðar innan lögsögunnar hafa jafnan verið það takmarkaðar að þær hafa í raun ekki dugað til að mæta úthaldi þess flota sem hefur stundað veiðar innan lögsögunnar þá varð þetta sjónarmið ofan á, bæði með tilliti til þess að menn voru að fá úthlutað varanlega eða til langs tíma veiðirétti, og sölu- og leiguvöru eins og þetta er uppsett, og svo hins að sömu skip og voru að vinna sér inn þessa veiðireynslu höfðu á sama tíma notið ríkulegrar leigugreiðslu fyrir þær aflaheimildir sem þau höfðu innan lögsögunnar en ekki nýttu sjálf. Í raun og veru hafði flotinn innan lögsögunnar sem hafði takmarkaðan veiðirétt greitt þeim sem voru að vinna sér inn nýjan veiðirétt sérstaka uppbót með því að þeir leigðu af þeim heimildirnar sem þeir ekki þurftu á að halda meðan þeir voru að vinna sér inn veiðiréttinn.

Það var einfaldlega talið sanngirnissjónarmið að svona skyldi þessu beitt, enda var það niðurstaðan í þessum tveimur stofnum sem við höfum skipt eftir þessum lögum, úthafskarfanum á Reykjaneshrygg og rækjunni á Flæmingjagrunni, að í báðum tilfellum var nokkrum kvóta skilað inn í lögsöguna. Ekki hefur ástandið lagast síðan því við erum á síðustu tveimur árum búin að skera niður þorskaflann innan lögsögu um 60 þús. tonn og það horfir nú kannski ekki allt of bjart með þorskinn. Kannski er rétt að víkja að því nokkrum orðum.

Margir fiskimenn tala um að fiskurinn við landið sé mjög horaður og illa haldinn, á sumum svæðum alla vega, og það eru ýmsar vísbendingar sem okkur ber að taka mark á þótt ekki hafi í raun verið að þeim hugað enn þá. Ég vil nú í ræðu minni nefna nokkrar þeirra, herra forseti.

Í fyrsta lagi bar það við í vetur að dauður svartfugl fannst rekinn fyrir öllu Norðurlandi, frá Vestfjörðum og austur um til Austfjarða. Og ekki nóg með það því þegar farið var að skoða þennan fugl þá reyndist hann mjög horaður, með nánast ekkert fitulag og virtist hafa drepist úr hor. Ég verð að segja fyrir mína parta að ég var nokkuð uggandi þegar ég heyrði þessar fréttir, kannski ekki í fyrstunni meðan þær virtust vera bundnar við einhver svæði. En þegar fór að bera á þessu fyrir öllu Norðurlandi fór maður auðvitað að hugleiða hvað þarna gæti verið á ferðinni. Í mínum huga er þetta vísbending um að eins árs loðnan sé ekki til staðar eða hafi ekki verið til staðar fyrir Norðurlandi og fuglinn þar af leiðandi ekki náð til þess ætis sem hann að öllu jöfnu lifir á norðan við landið yfir vetrartímann.

Hvað það svo merkir fyrir okkur í framtíðinni er auðvitað ekki gott að segja um. En þetta gæti verið vísbending þess að eins árs loðnan sé ekki til í því magni sem menn e.t.v. vonast eftir. Vonandi reynist þetta óþarfa áhyggjur mínar. En af einhverjum orsökum drepst svartfuglinn á svo stóru svæði. Svartfugli hefur fjölgað mikið á undanförnum árum eftir að menn hættu almennt að nytja björgin eins og hér á árum áður og kannski er þeim fuglastofni því ekki mikil hætta búin af því þó að nokkrar milljónir drepist. En þetta er örugglega vísbending um að ástandið í hafinu er eitthvað öðruvísi en við eigum að venjast.

Herra forseti. Í annan stað vil ég vekja athygli á því sem líka getur verið vísbending um að eitthvað sé að gerast í hafinu. Það er að síðasta ári fannst mjög mikið af þorskseiðum hér við land. En í togararalli Hafrannsóknarstofnunar fannst nánast ekkert af eins árs fiski. Þetta vekur mikinn ugg í brjósti um hvað hér geti verið á ferðinni. Það er auðvitað einnig þannig að smæsti þorskurinn leggur sér til munns smærri fæðu en stórloðnuna. Ef hann hefði aðstæður til að komast í smáloðnu þá mundi hann lifa góðu lífi á henni. Hvorug þessara vísbendinga er því góðs viti að mínu viti og ber að huga vel að þeim. Ég tók hins vegar eftir því að þrátt fyrir þessar vísbendingar um svartfuglinn og eins núna frá togararallinu þá hefur ekki verið gerð sérstök gangskör á vegum Hafrannsóknastofnunar að því að senda skip norður fyrir land til þess að kanna hvort þar sé til staðar mikið af eins árs loðnu eða ekki.

Mér finnst þetta hættulegar vísbendingar, herra forseti. Þetta var nú innskot í þessa umræðu en á þó hér fullt erindi vegna þess að við sitjum uppi með það að hinn almenni floti innan lögsögunnar hefur of litlar veiðiheimildir. Ekki síst í því ljósi væri eðlilegt að velta því upp hvers vegna nú eigi að kvótasetja síldina eftir þeim reglum sem hér er lagt upp með án þess að skila einum einasta titti inn í lögsöguna til þess flota sem þar hefur haft síminnkandi verkefni undir hinu göfuga og heimsfræga kvótakerfi okkar sem hefur verið kynnt um víða veröld sem einhver ,,mesta snilld`` sem menn hafa fundið upp við fiskveiðistjórn. Þessi mikla snilld hefur ekkert byggt upp, því miður.

Fiskstofnarnir okkar, hinir almennu botnfiskstofnar, eru slakir og engin uppbygging hefur átt sér stað á aðalstofninum okkar, þorkstofninum. Af því hafa menn verulegar áhyggjur. Eins árs seiðin vantar eins og ég sagði áðan. Alla vega komu þau ekki fram í mælingu togararallsins og samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum togararallsins vantar stóra fiskinn einnig. Þannig er nú það, herra forseti.

Í ljósi þessa og þeirra tveggja fordæma sem úthlutað hefur verið eftir á grundvelli þessara laga verð ég að segja alveg eins og er að ég átta mig ekki á þeirri framsetningu hæstv. sjútvrh. að koma með málin inn í þessum búningi og láta þess hvergi getið að hann hyggist nýta sér ákvæði laganna um innskilarétt. Þetta er eitt atriðið sem ég vildi ræða, herra forseti, í þessu sambandi.

Annað atriðið sem ég vil víkja að í þessu sambandi er á hvaða þorskígildisstuðli síldin er metin. Það er sláandi þegar við veltum þessu fyrir okkur og þróuninni sem verið hefur á undanförnum árum og er örugglega í farvatninu, að norsk-íslenska síldin skuli metin á þorskígildinu 0,04. Miðað við þann flota sem við eigum orðið í stærri og öflugri skipum sem mörg hver eru búin til þess að flaka síldina um borð, frysta flökin eða fiðrildin eins og þau eru oft kölluð og lagera þau upp sem markaðsvöru til frekari vinnslu þá er verið að tala um mikinn verðmætisauka í síldinni. Þess vegna skil ég ekki hvers vegna þessi stuðull er enn þá byggður á tölunni 0,04. Ef við berum saman einhverjar tvær tegundir þá er kolmunninn t.d. metinn á 0,03. Hvort skyldu nú vera meiri möguleikar á að skapa verðmæti úr kolmunnanum til manneldis, alla vegana eins og þær veiðar hafa þróast, eða síldinni? Ég hygg að eins og málum er nú háttað séu helmingi meiri líkur til þess að gera mikil verðmæti úr síldinni þó að vonandi takist okkur á næstu árum að vinna einnig manneldisvöru úr kolmunna.

Herra forseti. Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á því að eitt fullvinnsluskip á síldveiðum getur hæglega afkastað í gegnum fullvinnslu sína úti á sjó 6--8 þús. tonnum á ári af síld. Því þarf svo sem ekki orðið mjög mörg fullvinnsluskip sem flaka og frysta síldina til þess að veiða þessi 132 þús. tonn sem okkur er ætlað að veiða núna af norsk-íslensku síldinni.

Herra forseti. Einnig er rétt að geta þess að við veiddum ekki nema hluta af síldinni á síðasta ári. Það er auðvitað mikið áhyggjuefni upp á framtíðina því það er alveg ljóst að gegnum alla okkar samninga um skiptingu á veiðistofnum hefur veiðireynslan ráðið því hvernig okkur hefur verið úthlutað. Veiðireynslan réði því hvaða úthlutanir við fengum á Reykjaneshrygg. Veiðireynslan réð því hvað við fengum í norsk-íslensku síldinni þegar við vorum að semja um það við Norðmenn, Færeyinga og Rússa á sínum tíma. Og það var auðvitað veiðireynslan sem réði því líka á Flæmingjagrunni hvað við fengum þar. Og veiðireynslan mun ráða því hvaða hlutdeild við fáum í kolmunnanum þegar upp verður staðið, þ.e. ef honum verður skipt sem allar líkur benda til í framtíðinni.

[10:30]

Það er því auðvitað mikið mál fyrir okkur að stunda kröftugar veiðar á norsk-íslensku síldinni og nýta þann rétt sem okkur er ætlaður. Ég hygg að hin nýju og öflugu skip sem við erum komin með í þessar veiðar muni reynast okkur best við veiðar á þessari síld. Það er líka sá floti sem mun gera úr henni mest verðmætin úti á miðunum. Við vitum að síldin er oft átufull yfir sumartímann og það tekst ekki að flytja hana að landi til þess að vinna hana í manneldisvöru þótt koma megi með hana mjög ferska til að vinna úr henni hágæðamjöl.

Þetta vildi ég láta koma hér fram, herra forseti. Ég tel að þessi stuðull á norsk-íslensku síldinni, 0,04, sé kolrangur miðað við þau verðmæti sem menn geta gert úr henni í dag. Og ef það er rétt hjá mér að hann sé kolrangur geta þessi skip gert úr þessu mest verðmæti, og hafa e.t.v. möguleika eftir þá kvótaskiptingu sem hér fer fram á að ná til sín veiðiréttinum, fá veiðiréttinn á góðum kjörum vægast sagt, réttara sagt mjög góðum kjörum, a.m.k. ef þessi stuðull er notaður. Það sem hefur auðvitað skeð núna er að verið er úthluta fáum útgerðarmönnum þessum veiðirétti, tiltölulega mjög fáum, byggðum á þeirri veiðireynslu frá 1994--2001.

Eitt atriði er rétt að láta koma hér fram til viðbótar því sem áður hefur verið sagt, herra forseti, því í lögunum nr. 151/1996 er einnig þriðja leiðin til að fá fram innskilarétt í lögsöguna varðandi það þegar verið er að úthluta þessu til ákveðinna skipa. Það byggir á ákvæði í enn einni reglunni í lögunum um möguleika á útfærslu til innskila sem byggist á nokkurs konar uppboði þeirra sem njóta vilja úthlutunar. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Þá getur hann [þ.e. ráðherra] ráðstafað veiðiheimildum til skipa þeirra útgerða sem að undangenginni auglýsingu hafa lýst sig með skuldbindandi hætti reiðubúnar til þess að afsala af viðkomandi skipi mestum aflaheimildum, reiknað til þorskígilda, í tegundum sem heildarafli er takmarkaður af.``

Hér er verið að bjóða upp á það í lagatextanum að ráðherra auglýsi eftir því hvaða skip sækjast eftir þessum verðmætum, að fá að veiða þau og nýta. Í ljósi þess sem ég hef sagt um þorskígildisstuðlana væri kannski ekki úr vegi að reyna þessa þriðju aðferð laganna og sjá til hvað útgerðarmennirnir sjálfir meta þennan veiðirétt á. Meta þeir hann á 0,04 eða 0,08 eða hvað meta þeir hann á? Meta þeir hann hálft á móti þorski?

Kannski væri ekki úr vegi að fram færi könnun á því eftir þessari heimild laganna hvaða útgerðir vildu leggja af mörkum mest innskil inn í lögsöguna því ekki veitir þeim flota sem stundar veiðar innan lögsögunnar af miðað við þær takmarkanir sem þar eru í gildi og þá vöntun sem þar er á veiðiheimildum. Því til staðfestingar er rétt að vekja athygli á því, herra forseti, að þorskígildiskílóið er núna leigt á 170--175 kr. sem er náttúrlega komið nánast út úr öllu korti. Það eru fáar útgerðir og aðeins staðsettar hér á vertíðarsvæðinu sem geta stundað veiðar undir slíkum ofurleigurétti.

Þarna er í raun og veru í lögunum um veiðar utan lögsögu þriðja heimildin um það hvernig með þetta má fara. En allar hugmyndirnar byggjast á því að einhverju skuli skilað inn. Það verður auðvitað að segjast eins og er að þessi útfærsla í lögunum er svona meginlína, að þegar úthlutað er heimildum utan lögsögu skuli einhverju skilað inn í hana. Undir þessari útfærslu þar sem um deilistofn er að ræða ætti a.m.k. að fara eftir reglunni um að skila allt að 15% því það er reglan sem var notuð um útfærsluna á Reykjaneshrygg og þar erum við að veiða úr stofni sem er bæði innan og utan lögsögu með sama hætti og síldin getur auðvitað hagað sér.

Síðan er þessi mikla spurning sem við getum ekki svarað en hljótum að spyrja okkur: Hvenær mun síldin taka upp fyrri hegðun sína? Hvenær mun síldin ganga inn í lögsöguna svo um munar og jafnvel allt til Húnaflóamiða? Og þá kemur auðvitað þessi spurning: Er það sjálfgefið þegar slíkt hegðunarmunstur kemur upp að þá sé það fyrir fram einhver floti stórskipa sem eigi að nýta þennan veiðirétt, jafnvel þó að síldin gangi inn til fjarða og inn á sund? Það er auðvitað spurning sem við getum ekki svarað og vitum ekki hvenær verður af enda hafa Norðmenn það mikið í hendi sér hversu mikið viðhald og mikill vöxtur verður í þessum stofni. Ef þeir taka upp fyrri hegðun sem þeir ástunduðu lengi vel, að veiða smásíldina inni í norsku fjörðunum geta þeir auðvitað stjórnað því talsvert hversu stór þessi stofn verður. Sem betur fer hafa þeir á undanförnum árum ekki stundað veiðar á smásíld inni í fjörðunum sem neinu nemur og vonandi taka Norðmenn ekki aftur upp þær kröfur. En það eru ákveðin varúðarmerki gagnvart okkur. Norðmenn hafa látið í það skína og látið það koma fram í viðtölum við Íslendinga að þeir mundu sækja á það að veiðiréttur Íslendinga væri minnkaður frá því sem nú er. Það er auðvitað alvarlegt mál ef svo fer.

Herra forseti. Ég held að ekki sé ástæða til að lengja þessa umræðu mikið. Ég fór mjög gaumgæfilega yfir þetta við 2. umr. málsins, nánast allar hliðar þess og velti þeim fyrir mér frá ýmsum sjónarhornum. Ég tel það a.m.k. lágmarkskröfu að hæstv. sjútvrh. skili, miðað við það að þetta mál verði keyrt svona í gegn eins og það er hér upp lagt og ég hef lýst mig andvígan því að þetta væri gert með þessum hætti, einhverjum veiðiheimildum inn í lögsöguna. Það væri auðvitað að brjóta svolítið í blað að hverfa frá þeim heimildum laganna sem eru til staðar og framkvæmdar hafa verið í þeim tveimur tilvikum sem við höfum úthlutað kvótarétti utan lögsögunnar. Það væri að brjóta svolítið í blað að gera það ekki nú þegar verið er að úthluta veiðiheimildum í norsk-íslensku síldinni.

Síðan er eitt atriði enn, herra forseti, sem ég vil víkja að og það er að við erum hér að miða við veiðireynslu frá 1994--2001. Í desember 1998 gekk dómur í Hæstarétti um að eigi væri heimilt, og stangaðist á við stjórnarskrá, að meina mönnum að fá veiðileyfi til að stunda veiðar í íslenskri lögsögu. Þessi dómur Hæstaréttar segir okkur auðvitað að á þeirri veiðiréttarreynslu sem mynduð var fyrir dóminn geti varla verið mynduð ný úthlutun, eða hvað?

Mér finnst þess vegna mikil spurning, herra forseti, hvort nú sé hægt að úthluta út á veiðireynslu frá því fyrir 1998. Það er þó genginn hæstaréttardómur sem byggir á stjórnarskrárákvæðum um að sá veiðiréttur hafi verið ólöglega fenginn ef hægt er að orða það þannig. Hann er ólöglega fenginn að því leyti að öðrum var meinað að mynda sér veiðirétt, öðrum var meinað að fá veiðileyfi, m.a. til að stunda veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum. Þar af leiðandi er veiðireynslan frá 1994--1998 eingöngu bundin við þau skip sem þá höfðu veiðileyfi sem Hæstiréttur dæmdi svo að væri ólöglegt, að meina mönnum að fá veiðileyfi á skip ef þeir ættu skip sem að öðru leyti uppfylltu haffærisskírteini og aðrar kröfur.

Meira að segja segir í þeim dómi, ef ég man rétt, að eftir að skip hefur fengið veiðileyfi eigi það auðvitað rétt til þess að veiða úr þeim stofnum sem ekki eru kvótaskiptir sem þá voru fleiri en nú eru því þessi ríkisstjórn hefur haldið áfram þeirri stefnumótun að tína hverja tegundina á fætur annarri inn í kvótakerfið, keilu, löngu, skötusel, sólkola og þannig koll af kolli, og í raun og veru gert hið almenna veiðikerfi botnfiskveiðanna sífellt erfiðara með fjölgun fisktegunda. Ég hef sagt það, herra forseti, og get sagt það í einni setningu að því vitlausara og verra verður okkar aflastýringarkerfi, hin almenna stjórn botnfiskveiðanna, eftir því sem við fjölgum fisktegundum í því kerfi. Það er alveg dagljóst, herra forseti. Að reyna að stýra botnfiskveiðum með fjölda tegunda sem eru oftast nær meðafli er dauðadæmt. Burðartegundirnar eru tiltölulega fáar í hverri veiðigrein, t.d. þorskur og ufsi og ýsa hjá neta- og línubátum, og karfi, grálúða, þorskur og e.t.v. ufsi hjá togurunum að meginstofni til, eitthvað af ýsu. Ákveðnar burðartegundir bera hér uppi fiskveiðarnar en við höfum reynt að flækja þetta meira og minna og gera þetta erfiðara í framkvæmd með því að fjölga sífellt aukategundunum í kvótakerfinu. Það hefur auðvitað leitt til meiri vandræðagangs í útfærslu, aukins brottkasts og erfiðari framkvæmdar. Og menn eru sektaðir jafnvel fyrir 6 kíló af karfa.

Þetta vildi ég láta koma fram í máli mínu, herra forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að ég dreg mjög í efa að við getum notað veiðireynsluna með tilliti til dóms Hæstaréttar frá því í desember 1998 varðandi veiðireynsluna fyrir þann tíma en hér er að helmingi byggt á þeirri úthlutunarreglu að miða við þau ár.

Ég held að ég hafi þetta ekki lengra, herra forseti. Ég held að öll sjónarmið sem mér finnst ástæða til að rekja í þessu máli séu komin fram og ítreka að lokum eingöngu þá ábendingu mína til hæstv. sjútvrh. að hann hverfi ekki frá þeirri reglu að þegar úthlutað er nýjum kvótasettum tegundum skuli þeim flota, sem innan lögsögunnar er og búið hefur við það að sitja að þeim takmarkaða veiðirétti, í engu skilað. Þannig voru lögin nr. 51/1996 mótuð og hugsunin í þeim var þessi og hér er í raun og veru verið að fara á skjön við þá lagasetningu.