Barnaverndarlög

Laugardaginn 27. apríl 2002, kl. 11:41:59 (8291)

2002-04-27 11:41:59# 127. lþ. 131.2 fundur 318. mál: #A barnaverndarlög# (heildarlög) frv. 80/2002, GÖ
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 127. lþ.

[11:41]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Það verður að segjast eins og er, að hér er afar ánægjulegt frv. á ferð. Mikil og góð vinna hefur verið lögð í það, bæði af hálfu nefndarinnar sem samdi frv. og af hálfu félmn., bæði á síðasta þingi og yfirstandandi þingi. Mjög mikil eindrægni hefur verið varðandi þetta frv., um að það yrði sem best úr garði gert og tryggði hag barna sem allra best. Það hefði ekki verið mjög góður bragur á því ef þingmenn hefðu verið ósammála um hvað væri börnum fyrir bestu. Það færi ekki vel á því á þjóðþinginu.Við höfum því lagt okkur fram um að vinna málið vel, bæði í nefndarvinnu og umræðum og hefur þessi vinna félmn. verið sérstaklega ánægjuleg. Nokkur atriði er þó alltaf þarft að minna á og eins og þingmenn sjá er talsvert af brtt. Meginmarkmið þeirra er fyrst og fremst að hnykkja á réttinum, gera hlutina skýrari þannig að ekkert sé óljóst og túlkunaratriði ekki of opin.

Ef við skoðum t.d. brtt. við 21. gr. þá þekkja þeir sem hafa fylgst með þessu máli að þar er talað um stuðning og annað gagnvart þunguðum konum sem er afar mikilvægt mál. Við gerðum örlitla brtt. á þeirri grein þannig að ekki væri of matskennt hvenær til þess kæmi heldur væru línurnar mjög skýrar. Ég þekki þessi mál náttúrlega afar vel enda kannski frumkvöðull á því sviði á kvennadeild Landspítalans, að vinna með stúlkur sem gætu talist í áhættuhópi. Mikilvægt er að starfsmenn hafi það að leiðarljósi að svona málum sé sinnt þannig að um sé sátt og til að tryggja hag móður og barns sem allra best.

Eins og hv. formaður allshn., Arnbjörg Sveinsdóttir, benti á áðan var í frv. yfirleitt bara talað um fóstur en ekki greint á milli varanlegs og tímabundin fósturs, eins og gert hafði verið í fyrri lögum. Við töldum afar mikilvægt að slíkri aðgreiningu yrði við haldið. Það er t.d. ekki hægt að kalla það varanlegt fóstur ef ungbarn fer á heimili og úrskurðað er um umgengni einu sinni í mánuði með kynforeldrum. Það getur ekki talist varanlegt fóstur heldur hlýtur að vera um tímabundið fóstur að ræða sem miðar að öllu leyti að því að barn fari inn á heimili sitt aftur. Þá er það oft hlutverk þessara tímabundnu fósturforeldra að ganga jafnvel bæði móður og barni tímabundið í foreldra stað. Það hefur sem sagt verið hnykkt á mörgu, talað um stöðugleikann, um hag barnsins og þarfir þess.

[11:45]

Það varð talsverð umræða í nefndinni um vistunarúrræði, t.d. í þungum barnaverndarmálum. Reykjavík er eina sveitarfélagið sem hefur upp á það úrræði að bjóða enda ekki óeðlilegt þegar um svo stórt sveitarfélag er að ræða sem hefur stærstan hluta barnaverndarmála. Reykjavíkurborg verður að hafa á forræði sínu úrræði sem hægt er að grípa til. Þung og erfið barnaverndarmál geta ekki verið í biðstöðu. Það er bara þannig. Þess vegna er afar leitt til þess að vita að sveitarfélög, hvort sem þau eru hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu eða á Norðurlandi, skuli ekki hafa komið sér upp minni úrræðum sem gætu komið inn í slík mál. Það hefur reynst afar erfitt að fá sveitarfélög til að gera slíkt, og eflaust veldur því líka kostnaðurinn sem fylgir. Þá er alveg spurning hvort það væri ekki verðugt verkefni fyrir jöfnunarsjóð að ganga inn í slík verkefni með einhverjum hætti til að tryggja úrræði gagnvart þeim þungu barnaverndarmálum sem geta komið upp á landsbyggðinni.

Þessi mál hafa verið rædd á tveimur þingum en það er afar brýnt að þetta mál verði klárað núna enda sveitarstjórnarkosningar fram undan og mjög mikilvægt að nýjar nefndir geti komið að nýjum lögum. Skipan barnaverndarnefndanna var auðvitað líka rædd í nefndinni og gagnrýnt að þær skuli skipaðar pólitískt í stað þess að hafa þær kannski fagpólitískar, þ.e. að í rauninni sé það ekki hinna pólitísku flokka að skipa endilega ,,sína fulltrúa`` í þær heldur eigi fyrst og fremst að hugsa til þess að það sé fagfólk sem komi að þessari vinnu.

Auðvitað hefur verið farið vel yfir nýmæli frv. og þá er það ekki síst kærunefndin sem er afar brýnt nýmæli. Lengi hefur verið knúið á um að úrskurðarmál og erfið mál færu í þennan farveg. En ég tel enn rétt að árétta að öll sú vinna sem farið hefur fram í barnaverndarráði, sem hefur í rauninni haft þetta hlutverk, þó kannski með aðeins öðrum hætti, hefur verið alveg með eindæmum góð á allan hátt. Það hefur haft mjög góða lögmenn, barnalækna, sálfræðinga og aðra á sínum snærum til þess að fara yfir sín mál. Rétt er að halda því til haga og brýna það að úrskurðum barnaverndarráðs hefur aldrei verið hnekkt, hvorki fyrir dómstólum né annars staðar. Það er mjög brýnt að halda því til haga. Ef kærunefndin verður skipuð ámóta góðu fólki og barnaverndarráð hefur verið skipað eru börn þessa lands heppin.

Nefndinni bárust afar góðar og miklar umsagnir eins og ég nefndi í ræðu minni við 1. umr. um málið í haust., nema frá Lögfræðingafélaginu. Mér finnst afar sérstakt að frá því félagi sem ég hef séð margar umsagnir frá um ýmis frv., stór og smá, skuli menn ekki hafa séð sér fært að koma með umsögn um þetta afar brýna hagsmunamál barna. Kannski er þetta sá málaflokkur sem margir eru mjög hræddir við og vilja helst ekki fara inn í --- en ef Lögfræðingafélagið er hrætt, hvað má þá segja um aðrar fagstéttir? Þetta er þó sú stétt sem bæði er að verja og sækja í þessum málum og afar brýnt að þeir sjái hagsmunum barna sem best borgið. Ég minni því enn á þessa gagnrýni.

Nefndinni bárust afar góðar og faglegar umsagnir sem var auðvitað farið í gegnum. Margir komu til fundar við nefndina, eins og hv. formaður fór yfir áðan, og mesta gagnrýnin beindist að 75. gr. Fólki fannst vera komið mikið afturhvarf til verri tíma, 50--70 ár aftur í tímann, þegar tiltaka átti sérstaklega varðandi akstur og skóla fósturbarna. Því var breytt á þann hátt sem er mikilvægast, þ.e. að ef sveitarfélag er með börn sem eru í tímabundnu fóstri --- því getur fylgt afar mikill kostnaður --- er mjög eðlilegt að á því sé tekið. Þessi breyting var því afar jákvæð.

Það var hnykkt á varðandi skyldur foreldra og forráðamanna í lokagreinum frv. Þetta með hið almenna eftirlit barnaverndarnefndanna sýnist kannski sumum skarast fullmikið á við starf félagsmálanefnda sveitarfélaganna en svo á ekki að vera því að oft er um að ræða sömu nefndina, eða að barnaverndarnefnd er, eins og stundum er kallað, undir verndarvæng félmn. Ef ekki, þá er yfirleitt mjög náið samstarf með félagsmálanefndum og barnaverndarnefndum enda er það afar mikilvægt þannig að allir séu meðvitaðir um hvað er í gangi í sínu sveitarfélagi þegar brýnustu málin eru höfð í huga, eins og hagsmunir barna.

Ég get sagt frá því að hér í Reykjavík, á meðan ég var formaður félagsmálaráðs, héldum við alltaf einn til tvo samráðsfundi á ári með barnaverndarnefnd upp á það hvort félagsmálaráð þyrfti að koma með tillögur til úrbóta, hvort eitthvað væri í farvatninu sem þyrfti að skoða eða breyta, áherslumunur, þjónusta o.s.frv. Það er þannig að í barnaverndarmálum, í öllum sveitarfélögum þori ég að fullyrða, er þverpólitísk samstaða um að vinna þau mál sem allra best. Ekki skorast þingmenn undan því að við stöndum öll í nefndinni að nál. og öll höfum við lagt talsverða vinnu í það frv. sem hér er.

Það er von mín að þetta frv. færi börnum gæfu og betri réttarstöðu. Frv. fer nú til 3. umr. en það er ekki langt í að við sjáum það samþykkt.