Lagaákvæði er varða samgönguáætlun o.fl.

Laugardaginn 27. apríl 2002, kl. 16:22:37 (8312)

2002-04-27 16:22:37# 127. lþ. 131.6 fundur 385. mál: #A lagaákvæði er varða samgönguáætlun o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv. 73/2002, Frsm. meiri hluta ArnbS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 127. lþ.

[16:22]

Frsm. meiri hluta samgn. (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frhnál. um frv. til laga um breytingu á lagaákvæðum er varða samgönguáætlun o.fl., frá meiri hluta samgn.

Nefndin fjallaði um málið að nýju og fékk á sinn fund Jóhann Guðmundsson frá samgönguráðuneytinu.

Tekið var fyrir bréf ráðuneytisins, dagsett 20. mars 2002, þar sem óskað er eftir því við samgöngunefnd að hún leggi til breytingartillögu við frumvarpið sem heimili Alþingi að afgreiða á þessu þingi vegáætlun og flugmálaáætlun til eins árs fyrir árið 2002. Í bréfi ráðuneytisins eru eftirfarandi rök tíunduð. Samkvæmt frumvarpi til laga um samgönguáætlun, 384. máli, og því frumvarpi sem hér er til umræðu er gert ráð fyrir að samræmd samgönguáætlun, þ.e. tólf ára áætlun annars vegar og hins vegar fjögurra ára áætlun, verði lögð fram á þingi í haust og komi í stað núgildandi hafnaáætlunar, sjóvarnaáætlunar, vegáætlunar og flugmálaáætlunar og gildi frá 1. janúar 2003.

Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið hvorki hyggilegt né hagkvæmt að leggja fram vegáætlun og flugmálaáætlun til fjögurra ára þegar fyrir liggur að áætlanirnar munu einungis gilda út þetta ár. Jafnframt telur ráðuneytið viðbúið að ýmsar forsendur geti breyst við gerð hinnar nýju samræmdu samgönguáætlunar. Með því að fjalla nú eingöngu um þingsályktanir um vegáætlun og flugmálaáætlun til eins árs fyrir árið 2002 næst eðlilegt samhengi að mati ráðuneytisins.

Í bréfi ráðuneytisins kemur fram að vandamál, formlegs eðlis, geti skapast hjá Vegagerðinni verði þessi leið farin. Vandamál þetta felst í því að óvissa getur orðið um heimildir stofnana til þess að bjóða út á þessu ári framkvæmdir sem ætlunin er að ráðast í á næsta ári eða síðar. Jafnframt geti skapast óvissa um sams konar framkvæmdir sem þegar hafa verið boðnar út á þessu ári en eru til lengri tíma. Til að mæta þessu gerir ráðuneytið ráð fyrir að með þingsályktun um vegáætlun fyrir árið 2002 fylgi listi yfir fyrirhugaðar framkvæmdir sem Vegagerðin geti stuðst við. Ráðuneytið ítrekar að hér er aðeins um formsatriði að ræða þar sem vænta má tillögu um samgönguáætlun og fjögurra ára áætlun strax á upphafsdögum Alþingis í haust.

Meiri hluti nefndarinnar er sammála því að hagkvæmt og eðlilegt sé að takmarka endurskoðun vegáætlunar og flugmálaáætlunar við árið 2002 með vísan til væntanlegra samræmdra samgönguáætlana. Nefndin leggur þó áherslu á að tryggilega verði gengið frá málum svo að starfsemi Vegagerðarinnar raskist ekki.

Meiri hlutinn leggur til að við frumvarpið bætist nýtt ákvæði þess efnis að þrátt fyrir 1. mgr. 18. gr. vegalaga og 3. mgr. 1. gr. laga um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum, sem kveða á um að vegáætlun og flugmálaáætlun skuli afgreiddar til fjögurra ára, verði Alþingi heimilt á yfirstandandi þingi að afgreiða þessar áætlanir til eins árs, þ.e. fyrir árið 2002.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali.

Undir þetta nál. rita hv. þingmenn Guðmundur Hallvarðsson, Magnús Stefánsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Sigríður Ingvarsdóttir og Drífa Hjartardóttir.

Þessu til viðbótar eru á þskj. 1328 brtt. sem aðlaga frv. að gildandi hafnalögum og eru fram bornar af hv. formanni samgn. Guðmundi Hallvarðssyni.