Staða EES-samningsins

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 10:03:50 (8316)

2002-04-29 10:03:50# 127. lþ. 132.91 fundur 552#B staða EES-samningsins# (aths. um störf þingsins), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[10:03]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Þessi skýrsla sem kom út í Noregi sl. föstudag er í reynd ekkert annað en staðfesting á því sem legið hefur fyrir og við höfum verið að ræða á hv. Alþingi. Í skýrslunni er verið að draga upp ákveðnar staðreyndir. Það er ekki verið að taka afstöðu til þess hvað skuli gert í framhaldi af því þannig að ætlunin með þessari skýrslu Norðmanna er því svipuð og ætlunin hefur verið með því upplýsingastarfi sem utanrrn. hefur beitt sér fyrir hér á landi að upplýsa um mál til þess að það skapi umræðu og á því sé tekið. Það kemur fram í þessari skýrslu að EES-samningurinn hafi ekki það vægi sem honum var ætlað í upphafi og því er ég sammála. Það kemur líka fram í skýrslunni að áhrif Norðmanna á mótun gerða innri markaðarins séu óveruleg og aðkoma að mótun gerða sé ófullnægjandi. Ég er líka sammála því að það eigi við um allar þjóðirnar.

Það kemur fram að áhugi Evrópusambandsins á samningnum fari minnkandi sem er rétt og það kemur líka fram að Evrópusambandið haldi áfram að þróast en samningurinn standi í stað. Ekkert af þessu kemur á óvart.

Viðbrögð utanrrn. hafa verið þau að þrýsta á um það að lagfæringar yrðu gerðar á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Hins vegar liggur ljós fyrir sú afstaða framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að þeir séu ekki tilbúnir í það starf fyrr en að loknu stækkunarferlinu og sú skoðun var síðan staðfest í viðræðum sem ég átti við utanríkisráðherra Danmerkur í síðustu viku í Kaupmannahöfn.