Ummæli þingflokksformanna stjórnarflokkanna

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 10:10:29 (8319)

2002-04-29 10:10:29# 127. lþ. 132.95 fundur 557#B ummæli þingflokksformanna stjórnarflokkanna# (aths. um störf þingsins), SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[10:10]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að ræða stöðu mála í þinginu og til þess að mótmæla alveg sérstaklega ómaklegum og ómerkilegum ummælum sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, formaður þingflokks framsóknarmanna, viðhafði í sjónvarpsfréttum í fyrrakvöld og sendi þar stjórnarandstöðunni og reyndar Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði sérstaklega, kveðjurnar. Þessi ummæli hv. þm. voru vond blanda af skítkasti og hroka og ég vísa þeim til föðurhúsanna. Litlu skárri voru ummæli hv. þm. Sigríðar A. Þórðardóttur, formanns þingflokks Sjálfstfl.

Herra forseti. Það er alveg ljóst hverjum manni sem hér hefur fylgst með störfum að það eru hæstv. ráðherrar og ríkisstjórn sem bera alla ábyrgð á því hvernig staða mála er í þinginu nú. Það eru hæstv. ráðherrar sem hafa mokað hér inn frumvörpum, illa unnum og umdeildum og mjög mörgum eftir að frestir voru útrunnir. Átti þó þessum hæstv. aðilum að vera það jafnljóst og öðrum að starfsáætlun Alþingis hljóðaði upp á það að ljúka störfum óvenjusnemma á þessu vori. Eða vissi ríkisstjórnin ekki af því?

Engu að síður er það svo að mörg stórmál komu inn sólarhringana fyrir þann frest sem tilskilinn er, 1. apríl sl., og ein átta stjfrv. ekki fyrr en komið var langt fram í apríl. Þá liggur það einnig fyrir, herra forseti, að mörg mál hafa tafist í þinginu vegna illdeilna milli stjórnarflokkanna. Þetta veit hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson mætavel. Þetta gildir um byggðamál, sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál o.fl. þannig að ég mótmæli því, herra forseti, að reynt sé að skrifa á reikning stjórnarandstöðunnar það ástand sem hér er upp komið þegar 60 mál eru á dagskrá þingsins og þar af tugir af stórum og umdeildum málum sem ríkisstjórnin hefur skóflað inn á síðustu vikum. Það er ekki við þingmenn og þaðan af síður við stjórnarandstöðuna að sakast í þeim efnum. Ég held því að þessir hv. þm., formenn þingflokka stjórnarliðsins, gætu gert eitthvað annað þarfara, herra forseti, en vera með skeytasendingar af þessu tagi. Það er alla vega ekki til að greiða fyrir þingstörfum hér. Svo mikið er víst.