Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 10:32:42 (8331)

2002-04-29 10:32:42# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[10:32]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vek athygli á þeim orðum hv. þm. áðan um að það væri að frumkvæði heimamanna sem þessi mál væru komin á þetta stig. Þá held ég að iðnn. hafi líka verið ljóst að um þetta var mikill ágreiningur heima í héraði. Ég er hér með t.d. bókun sjálfstæðismanna í sveitarstjórn Skagafjarðar þar sem þeir átelja harðlega vinnubrögð meiri hlutans og sveitarstjóra varðandi fund iðnn. og mun koma nánar að henni í ræðu minni á eftir.

Hv. þm. vék sér undan að svara því hvers vegna Samkeppnisstofnun hefði ekki verið kölluð til, hún sem hefur mikil áhrif á það hvort þetta verður lögleitt eða ekki, hún sem fyrir nokkrum árum síðan, eða samkeppnisráð, kvað upp þann úrskurð að samningur um einkasöluleyfi þessara sömu aðila á framleiðslu verksmiðjunnar væri talinn brjóta gegn samkeppnislögum og var hafnað. Sömu aðilar eiga nú að fara að kaupa verksmiðjuna. Það var því fyllilega ástæða til fyrir iðnn. að skoða þetta mál miklu ítarlegar.

Til viðbótar er í frv. gert ráð fyrir því að söluandvirðinu, áður en selt er, sé varið til ákveðinna framkvæmda sem eiga að framkvæmast af fjármagni ríkisins á annan hátt, eins og til vegaframkvæmda í héraðinu, það er kveðið er á um það í frumvarpinu. Það er líka á svig við lög um fjárreiður ríkisins. Hvers vegna var þá ekki málið sent til umsagnar fjárln.? Það liggur engin heimild fyrir á fjárlögum um sölu. (Gripið fram í.) Ekki eftir réttum leiðum, virðulegi þingmaður, Svanfríður Jónasdóttir, það er ekki rétt leið. Það er fjárln. sem afgreiðir öll þessi mál til þingsins og það ætti hv. þm. og formanni iðnn. að vera ljóst.

Ég tel því að sú vinna sem iðnn. er hér að skila af sér sé alveg fádæma léleg og illa unnin.