Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 11:29:22 (8337)

2002-04-29 11:29:22# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[11:29]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur ekki skilið málið. Hér er verið að tala um sölu á hlut ríkisins, ekki sölu á hlut sveitarfélagsins. (JÁ: Það hangir saman.) Nei. Það er misskilningur hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að það þurfi að hanga saman. Þarna er um að ræða tvo sjálfstæða eignaraðila þannig að það er bara misskilningur hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni.

Hérna erum við að fjalla um sölu á hlut ríkisins og ríkið kom þar ... (JÁ: ... sveitarfélagið selji þá?) Það er þess ákvörðun. Þó ég telji það ranga ákvörðun hjá þeim þá er það þess ákvörðun. En við erum hér að fjalla um ákvörðun ríkisins um að selja sinn hlut, sem mér finnst ranglega rökstudd hér. Samtímis erum við að ræða um að ríkið setji 20 milljarða kr. í stórt og mikið fyrirtæki þannig að ekki er nú verið að ræða hér um einhver prinsippmál. Ég tel að ríkið beri ábyrgð og við þarna sameiginlega og að ástæðulaust sé að ríkið sé að rugga stöðu þessa fyrirtækis með því að draga sig út úr eignarhaldi þess.