Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 11:30:38 (8338)

2002-04-29 11:30:38# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[11:30]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja út af rökstuddri dagskrá sem hér er boðuð af hálfu hv. þingmanns Vinstri grænna í iðnn. en þar kemur fram að vegna þess að meiningar heima í héraði séu deildar skuli þessu máli vísað frá. Mér kemur fyrst í hug: Hvaða mál yfirleitt kæmust í gegnum hv. Alþingi ef það væri skilyrði að um þau ríktu ekki deildar meiningar? Vinstri grænir eru á móti öllum málum sem hér eru flutt.

Svo vil ég segja í sambandi við málið sem heild að um er að ræða heimild til iðnrh. til að selja og hvað varðar samkeppnisþátt málsins er hann til umfjöllunar hjá samkeppnisyfirvöldum. Það er ljóst að ef þaðan kemur ekki grænt ljós verður ekkert af þessari sölu. Hv. þm. er með útúrsnúninga þegar hann gerir þetta að stóru máli.

Af því að hann talaði um Orkubú Vestfjarða rétt einu sinni er það mál þannig vaxið að það var að frumkvæði Vestfirðinga sem farið var út í að kaupa af þeim. Það dugði til að koma fjárhag sveitarfélaganna á réttan kjöl.