Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 11:45:48 (8351)

2002-04-29 11:45:48# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, AKG
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[11:45]

Anna Kristín Gunnarsdóttir:

Herra forseti. Sala Steinullarverksmiðjunnar á Sauðárkróki er afar mikilvægt mál fyrir fjárhagslega afkomu Sveitarfélagsins Skagafjarðar en það á tæplega 24% eignarhlut í fyrirtækinu. Sveitarfélagið er eins og fram hefur komið afar skuldsett og verður ekki rekið með viðunandi hætti nema fjárhagsgrunnur þess sé styrktur. Samkvæmt uppgjöri 30. júní 2001 voru skuldir sveitarsjóðs rúmir 1,5 milljarðar kr., en heildarskuldir sveitarsjóðs og fyrirtækja rúmir 2,5 milljarðar kr. Skatttekjur sveitarfélagsins á árinu 2001 voru tæpur milljarður og rekstur málaflokka um 900 milljónir og greiðslubyrði lána og greiddir vextir rúmlega 323 milljónir. Sem sagt, endar náðu ekki saman. Svo getur að sjálfsögðu ekki gengið til lengdar og er sala Steinullarverksmiðjunnar einn síðasti hlutinn af margvíslegum ráðstöfunum sveitarstjórnar til þess að koma skikki á fjármálin. Það hefur reyndar staðið til svo lengi sem ég man eftir og hef ég setið ein 12 ár í sveitarstjórn, að verksmiðjan yrði seld um leið og fært yrði, enda ekki lögboðið hlutverk sveitarfélaga að standa í almennum atvinnurekstri.

Ætíð hefur ríkt einhugur innan fyrst sveitarstjórnar Sauðárkróks og síðan sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar um sölu á verksmiðjunni. Ágreiningurinn sem hefur risið nú er ekki um söluna sjálfa heldur snýst hann um verð sem fyrir hana er boðið og það eru einar 10 milljónir sem út af borðinu standa hjá sjálfstæðismönnum. Ég vek athygli á því að bókunin sem vísað var til áðan snýst um vinnubrögð við söluna, ekki um söluna sjálfa.

Alþingi hefur í nokkur ár ætlað að selja hlut sinn í Steinullarverksmiðjunni og eins og fram hefur komið eru hlutirnir sem til sölu eru settir fram í einu tilboði, þannig að ef sveitarfélagið á að geta selt sinn hlut verður Alþingi að samþykkja sölu á hlut ríkisins.

Nokkuð hefur borið á því að heimamenn séu, algjörlega að óþörfu, hræddir um örlög verksmiðjunnar verði núverandi hlutur eigenda seldur. Undirrituð hefur verið yfirlýsing af hálfu kaupenda um að verksmiðjan verði áfram rekin á Sauðárkróki. Kaupfélag Skagfirðinga mun eiga 25% hlut eins og fram hefur komið og aðrir heimamenn 15%. Þetta er samanlagt meira en heimamenn hafa nokkru sinni átt og ætti eitt sér að tryggja að ekki verði hróflað við staðsetningu verksmiðjunnar. Fulltrúi Paroc í stjórn fyrirtækisins, Leif Korp, tæknilegur samstarfsaðili Steinullarverksmiðjunnar, gerði lítið úr, reyndar blés á möguleikann á að verksmiðjan yrði flutt, þar sem áætlað er að það kosti 1,2--1,5 milljarða að byggja nýja verksmiðju. Þar að auki mundi það þýða hálft ár í vinnslustöðvun á verksmiðjunni og menn leika sér ekki að því að loka slíku fyrirtæki um lengri tíma með því tekjutapi sem óhjákvæmilega mundi fylgja. Auk þess er verið að selja verksmiðjuna á 800 milljónir, þannig að þar með liggur ljóst fyrir um hve mikla fjármuni er að ræða.

Heildarflutningskostnaður verksmiðjunnar á ári eru á milli 120 og 140 milljónir og þá er talinn með kostnaður við aðföng, þ.e. kostnaður við flutning á erlendan markað og kostnaður frá verksmiðjunni.

Sparnaður í flutningskostnaði við að flytja verksmiðjuna --- ekki til Reykjavíkur því hún verður væntanlega ekki byggð inni í miðborginni, heldur einhvers staðar kannski í grenndinni --- er metinn í mesta lagi 40--50 millj. kr. og þar með liggur ljóst fyrir að raunverulegur flutningur borgar sig alls ekki vegna þess að slíkur arður er allt of óverulegur til þess að standa undir byggingu nýrrar verksmiðju og tekjutapinu sem á sér stað meðan á flutningi stendur og viðbættu kaupverði á núverandi eignum.

Það er illa gert að reyna að slá ryki í augu fólks og vekja óþarfaugg um atvinnuöryggi og afkomu með þeim hræðsluáróðri sem settur hefur verið fram. Sveitarstjórn er og hefur ætíð verið einróma samþykk sölu á verksmiðjunni og engin ástæða er til að óttast það að reksturinn verði fluttur úr héraði.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. spurði áðan hvers vegna fulltrúi Vinstri grænna hefði ekki verið kallaður á fund iðnn. til þess að ræða um málið. Það er nú vandséð að mínu mati hvernig fara hefði átt að því þar sem Vinstri grænir eru ekki til sem stjórnmálafl innan sveitarstjórnar í Skagafirði. Hins vegar er einn og einn aðili starfandi innan Skagafjarðarlistans sem talinn er styðja Vinstri græna, en ég vek athygli á því að þeir hafa ekki lýst neinni andstöðu innan Skagafjarðarlistans við sölu á verksmiðjunni. Þannig að sá ágreiningur sem komið hefur fram innan héraðs er fyrst og fremst vegna þess að sjálfstæðismenn vilja slá sig til riddara núna á síðari stigum þar sem þeir hafa orðið varir við þennan óþarfaótta heimamanna um að breytingar yrðu á rekstri verksmiðjunnar við söluna. En það er líka þáttur sem er alkunnur þegar breytingar verða á eignarhaldi og rekstri fyrirtækja að starfsmenn óttast um hag sinn og það sem rétt er að gera er að upplýsa fólk um hvernig málin raunverulega standa en ekki kynda undir hræðslu í pólitískum tilgangi.