Tækniháskóli Íslands

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 11:54:33 (8352)

2002-04-29 11:54:33# 127. lþ. 132.17 fundur 649. mál: #A Tækniháskóli Íslands# frv. 53/2002, Frsm. GunnB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[11:54]

Frsm. menntmn. (Gunnar Birgisson):

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um Tækniskóla Íslands.

Með lagafrv. þessu er verið að samræma lög um Tækniháskóla Íslands lögum um háskóla, en þau lög kveða á um að sérlög um einstakar háskólastofnanir verði endurskoðuð og efni þeirra aðlagað þeim lögum.

Mestur hluti náms við Tækniskóla Íslands hefur verið á háskólastigi og hefur skólinn útskrifað nemendur með viðurkenndar háskólagráður. Jafnframt hefur skólinn átt aðild að samstarfsnefnd háskólastigsins ásamt öðrum háskólum. Með frv. er verið að staðfesta stöðu skólans sem háskóla í skólakerfinu jafnframt því sem skipulag skólans er aðlagað háskólalögum.

Ég mæli fyrir nál. menntmn. Nefndin fékk á sinn fund Val Árnason og Hellen Gunnarsdóttur frá menntamálaráðuneyti og frá Tækniskóla Íslands komu Guðbrandur Steinþórsson, Rúnar Pálmason, Grétar Páll Jónsson, Guðlaugur Einarsson, Haraldur Auðunsson og Steindór Haarde. Umsagnir bárust frá Félagi geislafræðinga, Félagi tækniskólakennara, Samtökum iðnaðarins, rektor Tækniskóla Íslands, Iðnfræðingafélagi Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Kennaraháskóla Íslands, Bandalagi háskólamanna, Kennarasambandi Íslands, Háskóla Íslands, Reykjavíkurakademíunni, Háskólanum á Akureyri, Tæknifræðingafélagi Íslands og Háskólanum í Reykjavík. Þá barst sameiginleg umsögn frá fimm kennurum verkfræðideildar Háskóla Íslands, þeim Birni Kristinssyni, Bjarna Bessasyni, Guðmundi R. Jónssyni, Jóni Atla Benediktssyni og Sigurði Brynjólfssyni.

Meginmarkmið frumvarpsins er að staðfesta stöðu skólans sem háskóla í skólakerfinu og laga skipulag hans að lögum um háskóla. Háskólaráð verður æðsti ákvörðunaraðili innan háskólans nema annað sé ótvírætt tekið fram í lögum og gert er ráð fyrir því að menntamálaráðherra skipi tvo fulltrúa af sex í ráðið. Nefndin telur mikilvægt að fulltrúar þeir sem ráðherra tilnefnir komi úr atvinnulífinu.

Ákvæði frumvarpsins um stjórnsýslu háskólans eru í samræmi við lög um háskóla en auk þess eru ýmis ákvæði frumvarpsins sambærileg ákvæðum laga um Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Með þessu er stuðlað að samræmi á milli þessara háskóla og jafnframt lagður traustari grunnur að auknu samstarfi Tækniháskólans við aðra skóla á háskólastigi.

Tækniháskóli Íslands á að vera fagháskóli á sviði tækni og rekstrar sem miðlar sérhæfðri þekkingu á háskólastigi. Tækniskóli Íslands veitir nú menntun á tækni-, iðnaðar-, heilbrigðis- og rekstrarsviðum og hefur mestur hluti námsins verið á háskólastigi. Nefndin tekur undir þá staðhæfingu sem fram kemur í frumvarpinu að ekkert sé því til fyrirstöðu að námsframboð háskólans geti breyst í framtíðinni þótt aðaláherslan verði lögð á tæknimenntun.

Nefndin ræddi á fundum sínum þá rannsóknaheimild til handa háskólanum sem fram kemur í 1. gr. Að loknum viðræðum við gesti er það mat hennar að eðlilegt sé að umrætt ákvæði feli í sér heimild en ekki skyldu til rannsókna þar sem slíkt ákvæði gæti verið íþyngjandi fyrir háskólann. Heimildin er þannig höfð opin til þess að háskólinn geti lagað sig að rannsóknarvinnu.

Þá leggur nefndin áherslu á mikilvægi þeirrar heimildar sem fram kemur í 14. gr. um gerð samstarfssamninga milli háskólans og annarra stofnana og fyrirtækja sem tengjast starfssviði háskólans. Tækniháskóla Íslands er þannig gert kleift að hafa samstarf við fyrirtæki og rannsóknastofnanir atvinnulífsins á fjölbreyttum grunni sem er mikilvægt til að efla og styrkja starfsemi hans og uppbyggingu til frambúðar. Nefndin telur að hér sé um að ræða lykilatriði í þeim tilgangi að tengja Tækniháskólann við atvinnulífið.

Fram kemur í 15. gr. að gert er ráð fyrir að Tækniháskóli Íslands taki við skuldbindingum sem gerðar hafa verið í nafni Tækniskóla Íslands. Í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins kemur fram að halli á rekstri Tækniskóla Íslands nemi nú um 260 millj. kr. Þá er því jafnframt haldið fram að frumvarpið gefi tilefni til nokkurs útgjaldaauka vegna ýmissa atriða.

Nefndin lítur svo á að leysa verði uppsafnaðan fjárhagsvanda Tækniskóla Íslands þannig að Tækniháskóli Íslands geti hafið starfsemi með hreint borð.

Þá leggur nefndin til brtt. sem fylgja með nál. Það eru breytingar við 1. gr., 9. gr., 11. gr. og 12. gr. og eru þær allar smávægilegar, og við ákvæði til bráðabirgða í stað dagsetningarinnar ,,30. júní`` í 3. málsl. e-liðar komi: 31. júlí.

Undir nál. skrifa Gunnar Birgisson, formaður, Sigríður Jóhannesdóttir, með fyrirvara, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Einar Már Sigurðarson, með fyrirvara, Sigríður Ingvarsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Kjartan Ólafsson og Kristinn H. Gunnarsson.