Tækniháskóli Íslands

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 12:00:24 (8353)

2002-04-29 12:00:24# 127. lþ. 132.17 fundur 649. mál: #A Tækniháskóli Íslands# frv. 53/2002, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[12:00]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst áður en ég vík að frv. þakka fyrir hversu vel hefur verið unnið að frv. loksins þegar það kom fram í hv. menntmn. Mikil samstaða var innan nefndarinnar um að koma frv. í gegn á þessu þingi og það var unnið fljótt og vel og ég þakka það hversu vel tókst til um starf nefndarinnar að þessu máli.

En það þýðir auðvitað ekki að ekki séu áherslubreytingar á því hvað fólki innan hv. nefndar finnst um einstakar greinar, en þær athugasemdir ná þá yfirleitt til þess að ef ætti að breyta því þyrfti að breyta lögum um háskóla sem í gildi eru og verður sjálfsagt unnið að þeim breytingum á næstu árum. Þessi sérstöku lög taka einungis til þess að samræma lög um Tækniskóla Íslands lögum um háskóla og flytja skólann þannig formlega á háskólastig, en á undanförnum árum hefur skólinn að mestu starfað á háskólastigi og ég sé ekki hvað ætti að koma í veg fyrir það úr því sem komið er að þessi lög fari í gegnum hv. Alþingi. Það er meginmarkmið frv. að staðfesta stöðu skólans sem háskóla í skólakerfinu og laga skipulag hans að lögum um háskóla.

Eins og ég sagði áður er við nánari skoðun ýmislegt sem þarf að færa til betri vegar í þeim lögum og verður sjálfsagt gert á næstu árum. Til dæmis er rétt að það komi fram að gert er ráð fyrir og eðlilegt að háskólaráð sé æðsti ákvörðunaraðili innan háskólans og það er gríðarlega mikilvægt að þessi skóli, sérstaklega umfram alla aðra skóla, hafi mjög gott samstarf við atvinnulífið. Síðan er gert ráð fyrir að í háskólaráði sitji tveir fulltrúar frá kennurum, einn frá nemendum, rektor og síðan tveir frá menntmrn. Það er ekki formlega kveðið á um það í frv. að fulltrúar atvinnulífsins sitji í háskólaráði. Ég tel að það sé í raun mjög miður og hljóti að verða unnið að því á næstu árum að breyta þessu þannig að í háskólaráði Tækniháskólans sitji fulltrúar atvinnulífsins. Ég tel að það sé mjög mikilvægt.

En ákvæði frv. um stjórnsýslu eru auðvitað í samræmi við lög um Háskóla Íslands og auk þess eru þau samhljóða sambærilegum ákvæðum í lögum um Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Með því á að vera styrktur sá grundvöllur sem þarf að vera fyrir hendi til að milli allra þessara háskóla sé mjög gott og traust samstarf. Ég tel að strax núna hafi verið lagður grundvöllur að slíku samstarfi milli t.d. Tækniháskólans og Háskólans á Akureyri sem vonandi verður eflt til mikilla muna á næstu missirum.

Tækniháskóli Íslands er sérstakur fagháskóli á sviði tækni og rekstrar og það hefur nokkuð verið fundið að því af ýmsum aðilum að rekstrardeildir skólans, eða þær sem ekki eru sérstakar tæknideildir, hafi kannski fullmikla áherslu eins og skólinn er rekinn í dag. Ég tel að það sé mjög eðlilegur hlutur og vil benda á að það er ekkert útilokað að fólk sem er komið inn í t.d. rekstrartæknifræði finni sig sérstaklega í faginu og geti þá flutt sig inn í almenna tæknifræði. Slíkt hefur oft gerst og það er mikilvægt fyrir skóla eins og Tækniháskólann að vera aðlaðandi fyrir almenna nemendur líka vegna þess að úr þeim hópi koma hinir frábæru nemendur, hinir sérstöku úrvalsnemendur sem allir skólar eru alltaf að leita að og geta þá ýtt undir og vonandi eflt til þess að þeir geti farið í framhaldsnám í faginu.

En eins og allir vita er fólk sem er útskrifað úr tækniháskólum, og ég tala nú ekki um fólk með framhaldsnám á því sviði, einhver verðmætasti starfskraftur sem fyrirfinnst á vinnumarkaði. Það er miklu færra fólk af slíku tagi en þarf í raun til að efla stöðu atvinnulífsins og þetta er sá hluti skólans sem sérstaklega þarf að leggja sig fram um að efla og styrkja á komandi árum.

Ég minni á að þegar Tækniskólinn er orðinn háskóli, formlega kominn á háskólastig, verði gert sérstakt átak í að kynna skólann og kynna námið og varið verði til þess fjármunum, þó það sé ekki raunar í þessum sérstaka háskóla, a.m.k. hefur ekki hingað til verið í neinar sérstakar gullkistur að vísa í því skyni. En ég held að skipti höfuðmáli fyrir skólann að hann verði betur kynntur meðal ungs fólks á Íslandi og þær upplýsingar efldar sem eru gefnar um skólann og þær fari mun víðar en nú gerist.

Fyrirvari minn og hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar felst einkum í því að þessi skóli hefur á undanförnum árum safnað miklum halla vegna þess að í rauninni hefur ekki nægilega mikið mark verið tekið á kostnaðaráætlunum skólans að mínu viti og sá halli sem núna er borðliggjandi staðreynd mun vera um 250 millj. kr.

Þó tekið sé fram í nál. menntmn. að leysa verði þann vanda áður en Tækniháskólinn fer formlega af stað, svo hann geti farið af stað með hreint borð, hefði ég talið æskilegra að mun fastar hefði verið kveðið að orði og betri tryggingar gefnar fyrir því að fjárhagur skólans mætti vera með eðlilegum hætti þegar hann hefur starf sitt á næsta sumri ef allt gengur eins og við vonum.

Nokkuð margar umsagnir bárust um frv. Mig langar, með leyfi hæstv. forseta, að fá að vitna í nokkrar þeirra.

Sú fyrsta sem ég vitna í er frá rektor Tækniháskóla Íslands, Guðbrandi Steinþórssyni, en hann segir stjórnendur skólans leggja mikla áherslu á að í tengslum við skólann verði áfram rekin námsbraut sem veiti nemendum sérhæft aðfararnám að deildum skólans og vitnar þar í athugasemdir við lagafrv.

Ég tek sérstaklega undir þetta. Ég tel mjög mikilvægt vegna sérstöðu þessa náms að áfram verði reknar með fullri reisn þær aðfarardeildir sem hafa verið í skólanum. Það er mikil nauðsyn á þeim og ekki er hægt að vísa þeim inn í nærliggjandi framhaldsskóla vegna þess að hér er um mjög sérhæft nám að ræða og mjög mikilvægt er að skólinn geti með þeim hætti náð í efnilega nemendur í tækniháskólanám.

Rektor talar líka um að unnið hafi verið að því að undirbúa þær breytingar sem lögin hafa í för með sér hvað varðar innra skipulag deilda og yfirstjórnar. Það er mjög mikilvægt að slíkt starf skuli hafa farið fram vegna þess að auðvitað er þetta mikil breyting. Guðbrandur Steinþórsson leggur einnig sérstaka áherslu á að formfesta þurfi aðkomu atvinnulífs og fagfélaga að ákvörðunum um námsframboð og fyrirkomulag þess. Ég tel að þessi umsögn hans styðji það sem ég hef hér áður sagt að nauðsynlegt væri í framtíðinni að formfesta það að í yfirstjórn skólans, háskólaráði, sitji fulltrúar frá atvinnulífinu. Það er kannski enn þá mikilvægara ef við horfum til framtíðar en að í háskólaráði sitji fulltrúar frá kennurum og frá nemendum eins og hér er ráð fyrir gert. Að minnsta kosti þyrfti að bæta formlega við, tel ég, fulltrúum atvinnulífsins.

Félag tækniskólakennara sendi einnig umsögn og fagna þeir þessu frv. til laga. Þeir benda hins vegar á að nauðsynlegt sé að tryggja skólanum viðunandi fjárhagsgrundvöll og minna á að fjárveiting til rekstrar húsnæðis sem nú er við lýði hrekkur ekki nema að hluta til fyrir þeim kostnaði. Þar munar einhverjum tugum milljóna á ári. Til þessa þarf að líta. Svona getur þetta ekki gengið áfram.

Félag tækniskólakennara minnir líka á að við skólann starfi ákveðinn fjöldi kennara sem ekki hefur meistarapróf og þeir telja brýnt að þeim sem hafa hug að auka við menntun sína til að uppfylla skilyrði laganna verði gert það kleift með því að til komi fjárstuðningur frá ríkisvaldinu. Ég tek undir þá ósk þeirra.

Hér er einnig umsögn frá Alþýðusambandi Íslands. Í umsögn sinni minnir það á að milli Alþýðusambandsins og Samtaka iðnaðarins ásamt fleiri aðilum hafi myndast ágætissamstaða þegar þeir áttu í umræðum um yfirtöku á rekstri skólans og frekari þróun hans á háskólastigi. Ég tel ekkert því til fyrirstöðu, jafnvel þótt skólinn verði áfram rekinn sem ríkisskóli, að þetta góða samstarf Alþýðusambandsins og Samtaka iðnaðarins geti orðið skólanum til heilla í framhaldinu.

[12:15]

Þeir segja að af hálfu ASÍ hafi í þessu starfi verið lögð sérstök áhersla á mikilvægi þess að varðveita ákveðin sérkenni Tækniskólans sem hafi verið ein af meginástæðunum fyrir stofnun hans á sínum tíma. Þeir segja að þessi sérkenni hafi birst á tvennan hátt aðallega, þ.e. að Tækniskólinn hafi laðað að námi fólk sem komi með fjölbreytta menntun og reynslu úr atvinnulífinu og að hann hafi lagt sig sérstaklega eftir að þjóna þörfum þessa hóps. Í þeim efnum hafi frumgreinadeild skólans gegnt mikilvægu hlutverki og Tækniskólinn hafi leitast við að eiga gott samstarf við atvinnulífið og fyrirtækin og lagt sig eftir að mæta þörfum þeirra fyrir starfsmenn með trausta og góða tækni- og rekstrarþekkingu.

Þeir telja að frv. styðji kannski ekki alveg nógu vel við þeirra óskir og segja eftirfarandi annmarka vera á frv. Ég tel að jafnvel þó við samþykktum þessi lög núna sé ekkert því til fyrirstöðu að á næstu árum verði gerðar á þessum lögum breytingar ef það hentar til að styðja betra samstarf við atvinnulífið, sem ég legg áherslu á að sé mjög þarft og auðvitað þarf að styðja við þó ég telji að fyrir bestu sé að skólinn sé rekinn sem ríkisháskóli.

En þeir segja þessa annmarka vera eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,1. Tækniskóli Íslands er skóli fyrir atvinnulífið. Í samræmi við þetta sitja fulltrúar atvinnulífsins, fulltrúar launafólks og atvinnurekenda í núverandi stjórn Tækniskólans. Í 5. gr. frumvarps um Tækniháskóla er greint frá sex manna háskólaráði. Það skýtur skökku við að ekki er gert ráð fyrir fulltrúum atvinnulífsins, hvorki fulltrúum launafólks eða atvinnurekenda, í háskólaráði. Með því eru útilokuð bein áhrif atvinnulífsins á stjórn skólans. Slíkt skapar hættu á að skólinn einangrist frá atvinnulífinu ...``

Þetta segja þeir og ég get að nokkru leyti tekið undir þetta og tel að á þessu þurfi að ráða bót í framtíðinni.

Að öðru leyti segja þeir, með leyfi forseta:

,,2. Tækniskólinn hefur hingað til veitt iðnaðarmönnum og í vaxandi mæli á seinni árum öðrum sem koma úr atvinnulífinu framhaldsmenntun. Aðgengi þessara aðila að skólanum hefur verið tryggt með starfrækslu svokallaðrar frumgreinadeildar við skólann. Í frumvarpinu er ekkert kveðið á um núverandi frumgreinadeild eða með hvaða hætti þjónusta hennar verður leyst af hendi við stofnun Tækniháskólans. Í athugasemdum við frumvarpið segir aðeins: ,,Hins vegar er gert ráð fyrir áframhaldandi rekstri frumgreinadeildar við Tækniháskóla Íslands sem verði byggður á samningi milli háskólans og ráðuneytisins.`` Þessi málsgrein verður að teljast veikur grunnur til að tryggja þjónustu frumgreinadeildar.``

Ég vil segja að ég verð að vona að þetta sé nægilegt vegna þess að ég tel mjög mikilvægt í framhaldinu að þessi frumgreinadeild verði rekin með svipuðum hætti og hingað til. Þó auðvitað hefði verið æskilegt að það hefði verið tryggt betur í frv. verðum við að vona að með því að þessa er getið í athugasemdum á þennan hátt sé áframhaldandi rekstur deildarinnar tryggður.

Þeir ítreka að lokum í umsögn sinni að mikilvægt sé að lög um Tækniháskóla feli í sér möguleika á öflugum gagnvirkum samskiptum skólans við atvinnulífið. Undir það tek ég heils hugar.

Hér er umsögn frá BHM sem leggur sem endranær áherslu á náið samráð, einnig á undirbúningsstigum mála, við stéttarfélög starfsmanna og vill með þeim fyrirvara lýsa ánægju með sveigjanlega lausn í e-lið ákvæðis til bráðabirgða, enda er gert ráð fyrir að þeirri heimild verði beitt af jafnræði og með formlegum hætti.

Að því sögðu vill BHM fagna frv., enda virðist sú menntun sem um ræðir í frv. sett á borð með annarri menntun á háskólastigi og gerir BHM ráð fyrir --- ég vil undirstrika þetta --- að jafnræðis verði sömuleiðis gætt í fjárveitingum til háskólans.

Hér er hins vegar ein umsögn sem er svolítið í öðrum dúr. Hún er frá Háskóla Íslands. Þeir eru ekki alveg inni á þeirri hugmynd að reka Tækniháskólann sem sérstakan háskóla og segja í umsögn sinni m.a., með leyfi forseta:

,,Háskóli Íslands telur skynsamlegt að hugað verði að öðrum kostum en þeim að setja á laggirnar nýjan háskóla og vill benda á eftirfarandi hugmyndir sem þyrfti að að kanna og ræða miklu betur en gert hefur verið:

1. Tækniskólinn verði sjálfstæð deild í Háskóla Íslands með sérstakri áherslu á að styrkja hagnýtar rannsóknir í verklegum og tæknilegum efnum.

2. Tækniskólinn verði að sérstakri skor innan verkfræðideildar Háskóla Íslands.``

Einnig er í sérstakri tillögu sem send var frá Háskóla Íslands til hæstv. menntmrh. árið 1999 lagt til að iðnfræðinám verði flutt til Borgarholtsskólans. Iðnfræði er fimm anna viðbótarnám fyrir iðnmenntað fólk. Í öðru lagi benda þeir á að frumgreinadeild verði starfrækt við Borgarholtsskólann í Reykjavík og muni veita tæknistúdentspróf.

Þessi viðhorf Háskóla Íslands fengu ekki miklar undirtektir innan hv. nefndar sem telur mikla nauðsyn fyrir bæði það nám sem er í boði í Háskóla Íslands og einnig það nám sem hefur verið í boði í Tækniskólanum, nú Tækniháskólanum. Þarna er mikill munur á. Ég minni t.d. á heilbrigðisdeildir í Tækniháskólanum sem eru mjög nauðsynlegur þáttur í íslenska menntakerfinu. Ég sé ekki ástæðu til að raska því sem verið hefur. Ég tel hins vegar ástæðu til að efla þessar deildir og efla samstarf þeirra í framtíðinni.

Reykjavíkurakademían veitir umsögn um frv. til laga um Tækniháskóla Íslands og gerir ekki sérstakar athugasemdir við efnisatriði frv. en fagnar megintilgangi þess um að gera háskólann sjálfstæðari og laga skipulag hans og starfsemi að almennum lögum um háskóla. Jafnframt segir í umsögn Reykjavíkurakademíunnar að markmiðin sem skólanum eru sett í frv. mættu e.t.v. vera skýrari.

Tæknifræðingafélag Íslands fagnar þeirri meginhugmynd frv. sem er að staðfesta stöðu Tækniskóla Íslands sem háskóla í skólakerfinu, jafnframt því sem skipulag skólans er aðlagað háskólalögum. Þeir fagna því að aðaláhersla verði lögð á eflingu tæknináms við skólann samkvæmt frv., en sakna þess samt að orðið tæknifræði komi hvergi fyrir í frv. Þeir hafa sérstakar áhyggjur af því að samkvæmt frv. verði ekki séð að fjárveitingar til skólans verði auknar frá því sem nú er og undir áhyggjur þeirra í því máli skal tekið.

Þá vilja þeir minna á að á sameiginlegri menntastefnu Tæknifræðingafélags og Verkfræðingafélags Íslands hafi verið ályktað að námi í verkfræði og tæknifræði væri best fyrir komið í einum öflugum háskóla með sameiginlegri stjórnskipan, en aðskildum námsbrautum. Þeir benda á að hugsanlega gæti slíkur skóli orðið hluti af væntanlegum vísindagörðum sem ætlunin er að rísi í Vatnsmýrinni í Reykjavík á næstu árum.

Þeir tala einnig um frumgreinadeild og segja að einn af hornsteinum Tækniskóla Íslands hafi verið rekstur frumgreinadeildar. Rekstur hennar hafi laðað til sín fjölda nemenda sem telja má fullvíst að ekki hefðu lagt fyrir sig nám í Tækniháskólanum nema vegna tilveru frumgreinadeildar. Til að tryggja rekstur deildarinnar er nauðsynlegt að hennar sé getið í frv. umfram það sem nú er, segja þeir.

Þeir minna á að þörf sé á verulegu markaðsátaki við hinn nýja skóla. Einnig minna þeir á að þörf sé á endurskoðun tæknifræðináms hérlendis til samræmis við þær breytingar sem átt hafa sér stað á Norðurlöndum hin síðari ár. Þau atriði sem þeir horfa til eru eftirfarandi ... (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að telja þau öll upp. En þeir minna einkum á þrjú hér í lokin, þ.e. að koma þurfi á meistaranámi í tæknifræði, að efla þurfi endurmenntun/símenntun í faginu og að efla þurfi samstarf við erlenda tækniháskóla. Þessi viðhorf komu einnig fram hjá aðilum sem komu til viðræðu hjá hv. menntmn. við vinnslu frv.

Ég styð það eindregið að þetta frv. til laga verði afgreitt á þessu þingi. Ég vona samt að fjárhagsmál skólans fái betri afgreiðslu en felst í frv. og minni á að í sérstakri umsögn frá fjmrn. eru ákveðin atriði sem ekki gefa sérstakt tilefni til bjartsýni.