Þjóðhagsstofnun o.fl.

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 14:45:25 (8362)

2002-04-29 14:45:25# 127. lþ. 132.3 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[14:45]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að framganga forsrh. í þessu máli hefur verið furðuleg en því lýsti hv. þm. svo í viðtali við fjölmiðla í mars 2001. Ekki tekur betra við þegar málinu er þjösnað í gegnum þingið með þeim hætti sem raun ber vitni eftir að stjórnarflokkarnir hafa loksins lamið sig saman um málið í bakherbergjum. Hér áðan gerðist sá dapurlegi atburður að ofan í kaupið felldi meiri hlutinn einfaldar brtt. sem hefðu þó lagfært málið, annars vegar gagnvart starfsmönnum og hins vegar tryggt að Alþingi hefði eitthvert bolmagn til að skoða þjóðhagsleg málefni á sjálfstæðum forsendum eftir að Þjóðhagsstofnun væri slegin af. En það er til marks um vinnubrögðin og viðhorfin hjá stjórnarliðinu að ekki einu sinni er léð máls á lagfæringum af þessu tagi, t.d. hvað það varðar að tryggja starfsmönnum sambærleg störf. Það er of mikið í lagt af hálfu stjórnarinnar. Það er því ekki annað hægt, herra forseti, en að lýsa skömm sinni á þessum vinnubrögðum.