Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 15:03:44 (8371)

2002-04-29 15:03:44# 127. lþ. 132.15 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, SJS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[15:03]

Steingrímur J. Sigfússon (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í raun og veru ætti að vísa þessu máli frá, alveg óháð og burt séð frá efnislegum ágreiningi um innihald þess. Þetta mál er einfaldlega svo vanbúið og illa reifað fyrir þinginu að það er algerlega fráleitt að standa að verki með þessum hætti. Og það að hæstv. fjmrh. kemur hér upp og reynir að þvo hendur sínar með því að vísa til þess að um heimildarlög sé að ræða og að farið verði varlega með heimildina er eins og til þess að snúa hnífnum í sári Alþingis. Er það þannig sem Alþingi á að standa að verki, herra forseti? (Forseti hringir.) Ég segi nei. Ég tel því, herra forseti, að eðlilegast væri að vísa þessu máli frá eða þá fella það ef ekki vill betur til. Hér á að standa þannig að verki að víkja lögum um ríkisábyrgð frá. Ekkert áhættumat á að liggja til grundvallar því að Alþingi veiti heimildina fyrir sitt leyti í lögum. Það er fullkomlega óeðlilegt að svona skuli að verki staðið. Það veit hæstv. fjmrh. vel þó að hann reyni að (Forseti hringir.) skjóta fyrir sig skildi með þessum aumlega hætti.

(Forseti (HBl): Ekki er ekki ætlast til þess að menn eigi í orðaskiptum hverjir við aðra þegar þeir kveðja sér hljóðs um atkvæðagreiðsluna heldur að þeir skýri afstöðu sína og ræði um það málefni sem þeir hafa kvatt sér hljóðs um.)