Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 15:06:40 (8373)

2002-04-29 15:06:40# 127. lþ. 132.15 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[15:06]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Síðasti málsliður 1. gr. hljóðar svo:

,,Fjármálaráðherra veitir ábyrgðina að uppfylltum þeim skilyrðum sem hann metur gild.`` --- Punktur.

Þetta eru hin tilteknu skilyrði sem hæstv. fjmrh. vísar til og reynir að verja sig með. Hér er verið að setja á borð eins manns, hæstv. fjmrh., einhver þann hroðalegasta kaleik sem ég veit til að nokkrum manni hafi verið skenktur í pólitík. En þó að hlutur hæstv. fjmrh. sé ótrúlegur í þessu máli, þ.e. að standa hér að verki með þessum hætti og ómerkja nýlega sett lög um ríkisábyrgð, þá er þetta mál auðvitað á ábyrgð ríkisstjórnarinnar allrar, allra ráðherranna og allra þeirra þingmanna sem ætla að greiða því atkvæði sitt, þar með talið Framsfl. Þó að hann hafi falið sig í þessari umræðu þá birtist hann hérna í atkvæðagreiðslunni.