Atvinnuréttindi útlendinga

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 15:25:38 (8378)

2002-04-29 15:25:38# 127. lþ. 132.18 fundur 204. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv. 97/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[15:25]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kem aðallega til að fylgja úr hlaði brtt. sem ég flyt við þetta frv. Ég skrifa undir nál. félmn. með fyrirvara eins og væntanlega hefur komið fram þegar fyrir því nál. var samviskusamlega mælt fyrr í sögu þessa þings. Ástæðan er sú að mér finnast nokkur atriði þessa frv. vera gölluð eða mega betur fara, og ég hef gert tilraun til að lagfæra þá smíði í nokkrum atriðum þar sem mér finnst að sérstaklega mætti fara betur.

Það er út af fyrir sig margt sem orkar tvímælis eða er álitamál þegar löggjöf af þessu tagi er sett. Frv. sem slíkt er til bóta að mestu leyti. Það er rétt og skylt að taka fram. Í því eru allmörg nýmæli sem eru eðlileg og sjálfsögð, og þarft að fá inn í löggjöf um þessi efni. Eiginlega væri skrýtið, herra forseti, eins hratt og hlutirnir hafa verið að breytast á þessu sviði ef ekki væru tilefni til að taka á móti þeim breytingum með breytingum í löggjöf.

Því til staðfestingar er svo sú staðreynd að fyrir þinginu liggur einnig frv. að nýjum heildarlögum um málefni útlendinga. Sá angi málsins sem fjallað er um í sérlögum og heyrir undir svið félmrn., þar sem um vinnumarkaðsmál er að ræða, þarfnast auðvitað líka endurskoðunar.

Að vísu má segja að þau réttindi sem samningar eins og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið skapa hundruðum milljóna launamanna, ef út í það er farið, dragi úr vægi þessara ákvæða sem að mestu leyti snúa þá að öðrum. Engu að síður skiptir það miklu máli. Og praktískt er það þannig að að uppistöðu til eru þeir menn af erlendu bergi brotnir, sem hér eru tímabundið í störfum, frá löndum sem enn eru utan Evrópusambandsins, hvað sem verður á næstu árum.

Það er reyndar annað, herra forseti, sem ég held að við þyrftum að taka til umræðu á hinu háa Alþingi og í þjóðfélaginu, þ.e. þær miklu breytingar sem munu verða á íslenska vinnumarkaðnum með stækkun Evrópusambandsins. Sáralítið er farið að ræða þær hér. Norðurlöndin hafa t.d. sammælst um að veita Eystrasaltsríkjunum strax frá fyrsta degi fullan aðgang að vinnumarkaði á Norðurlöndunum þegar þau koma inn í Evrópusambandið. Finnar hafa að vísu áskilið sér rétt til eins eða tveggja ára aðlögunar en ekki sjö ára eins og nú stefnir í að flestöll önnur Evrópusambandsríki muni gera. Þessi staðreynd ætti að hringja bjöllum hér á Norðurlöndum vegna þess að þetta þýðir á mannamáli að það verða eingöngu Norðurlöndin sem opnast upp sem sameiginlegur vinnumarkaður fyrir þessi lönd þegar stækkunin gengur í gegn. Það verður þá ekki fyrr en jafnvel sjö árum síðar sem sömu réttindi stofnast á öðrum hlutum Evrópska efnahagssvæðisins.

Þetta kallar á það að menn fari rækilega yfir það hvernig menn verði í stakk búnir til að takast á við þessar breytingar, bæði hvað varðar löggjöf og aðra slíka hluti.

Ég held að eitt í því sambandi sem Norðurlöndin ættu að skoða sé að einhenda sér í að aðstoða Eystrasaltsríkin við að byggja upp skipulag vinnumarkaðsmála sinna áður en að af þessum breytingum verður. Þar er í raun og veru nánast um ekkert slíkt skipulag að ræða eins og við þekkjum það, engin sterk heildarsamtök, annars vegar launamanna og hins vegar atvinnurekenda. Löggjöf er áfátt og annað slíkt sem væri tvímælalaust af hinu góða að hefði verið lagfært eftir því sem kostur er þegar þessar breytingar ganga í gegn.

[15:30]

Ég leyfi mér að nota þetta tækifæri, herra forseti, til að drepa aðeins á þetta mál vegna þess að ég hef satt best að segja nánast ekki orðið var við umræður um slíkt hér á landi enn þá, en annars staðar á Norðurlöndunum er þetta talsvert til umræðu og ég veit t.d. til þess að verkalýðssamtök sums staðar á hinum Norðurlöndunum, í Finnlandi, Danmörku og sjálfsagt víðar, eru nú að taka við sér í þessum efnum. Það væri margt vitlausara held ég en að Norðurlöndin sammæltust um átak og sérstakar aðgerðir á sínum vettvangi, að sjálfsögðu þá eðlilega í gegnum Norðurlandaráð eða annars staðar þar sem eðlilegast væri að koma slíku við, um samstarf við þessi lönd í aðdraganda þess að þau verða hlutar af hinum sameiginlega vinnumarkaði frá fyrsta degi gildistöku stækkunarinnar miðað við þetta. Það er mikil breyting frá því sem við höfum búið við hingað til. Nóg um það, herra forseti.

Í fyrsta lagi vil ég segja að fyrsta brtt. sem ég flyt á þskj. 1150 lýtur að orðskýringargrein laganna. Það er nú ósköp einfaldlega vegna þess, herra forseti, að það fer svo gríðarlega í taugarnar á mér orðskrípið ,,óbundið atvinnuleyfi``. 4. tölul. 3. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Óbundið atvinnuleyfi: Ótímabundið leyfi veitt útlendingi til að vinna á Íslandi.``

Ég segi: Af hverju má þetta þá ekki heita ótímabundið atvinnuleyfi? Úr því óbundið atvinnuleyfi er ótímabundið atvinnuleyfi, af hverju má það þá ekki heita það?

Mér finnst þetta vera afar vandræðalegt, herra forseti, að ekki skuli vera hægt að nota þarna betri hugtök og ég hef ekki sannfærst um að það skapi bara nokkur einustu vandræði að kalla þetta annars vegar ,,tímabundið`` og hins vegar ,,ótímabundið atvinnuleyfi``. Það er um tvenns konar leyfi að ræða, annað er til bráðabirgða, takmarkað í tíma, en hitt ótakmarkað. Og hvers vegna má það þá ekki heita það?

Þarna finnst mér menn vera að rembast eins og rjúpan við staurinn við orðskýringar sem eru í raun og veru út í loftið. Og það má segja að ekki þyrfti einu sinni að vera með þetta í orðskýringarkafla. Ég held að Íslendingar séu nú ekki svo illa á vegi staddir enn þá í sambandi við hið ástkæra ylhýra mál að útskýra þurfi sérstaklega í lögum hvað tímabundið og ótímabundið þýðir með orðskýringum í orðskýringagrein. Eru menn nú ekki stundum farnir að sækja vatnið yfir lækinn, herra forseti, í þessum efnum?

Mér finnst það einhvern veginn liggja svoleiðis í augum uppi að ótímabundið og tímabundið atvinnuleyfi þýði það sem það þýðir samkvæmt orðanna hljóðan og ekki þurfi að vandræðast neitt með það meir og þetta mætti hvort tveggja fara út úr lögunum, en ef það stendur þarna, þá fái þetta að standa eins og þetta hljómar, ótímabundið annars vegar og tímabundið atvinnuleyfi hins vegar. Nema menn hafi betri uppástungur --- en óbundið atvinnuleyfi finnst mér alveg óskapleg vandræðanafngift, herra forseti.

Ekki yrði nú neinn héraðsbrestur held ég þó þau stórtíðindi gerðust að hér yrði einu sinni samþykkt ein lítil tillaga frá minni hlutanum og væri gaman að vita hvað virðulegur forseti vor hefði til málanna að leggja ef hann vippaði sér úr stólnum og brysti á hér í umræðum um þetta mál með okkur, hafandi velt þessu fyrir sér stundarkorn, hvort þetta er nú góð íslenska sem þarna á að fara að lögfesta.

Við 8. gr., herra forseti, legg ég til breytingu sem er efnisbreyting, kannski ekki ýkja stór eða lætur lítið yfir sér, en þó held ég að ljóst sé að þar greinir okkur nokkuð á og í reynd er sú breyting sem ég legg til að mörgu leyti hliðstæð breytingu í 3. tölul. á brtt. frá hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur og Guðrúnu Ögmundsdóttur, þar sem þær leggja til að orðið ,,ríkar`` í 2. línu 8. gr. falli út. Þetta lýtur að því, herra forseti, að í 8. gr. er fjallað um það sem er hin almenna regla laganna að tímabundið atvinnuleyfi skuli liggja fyrir áður en útlendingur kemur í fyrsta skipti til starfa á Íslandi. Þetta þýðir ef við förum yfir í hinar aðstæðurnar að í reynd hafa menn þurft að fara úr landi ef þeir hafa komið hingað án þess að hafa atvinnuleyfi, ætla síðan að fara að vinna vegna þess að aðstæður þeirra hafa breyst eða eitthvað því um líkt, þá hafa þeir í raun og veru þurft að fara úr landi, sækja þaðan fyrst um tímabundið atvinnuleyfi og koma svo inn í landið aftur.

Nú má segja að ef þetta er hin almenna regla að menn fái ekki atvinnuleyfi eftir að þeir eru komnir inn í landið, heldur skuli þeir sækja um það áður, þá geti auðvitað þessar aðstæður komið upp. Menn geta sem sagt ekki komið hingað sem ferðamenn og allt í einu ákveðið að fara að vinna hér. Það eru skiljanlegar ástæður fyrir þessu, en það er alveg ljóst að til eru þau tilvik og það er reyndar viðurkennt með undanþægum ákvæðum sem hér eru lögð til, að ærnar ástæður geti verið fyrir hendi til þess að víkja frá þeirri reglu. Þá er það orðað þannig hér í 8. gr. að frá þessu megi þó víkja ef ríkar sanngirnisástæður eru fyrir hendi, einnig ef skilyrði samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sem er um hæli eða bráðabirgðadvalarleyfi, og 3. mgr. 7. gr. eru fyrir hendi.

Þarna, herra forseti, finnst mér að menn séu dálítið þrengslalegir í hugsun sinni. Fyrir það fyrsta má velta vöngum yfir því lengi dags hvernig á að meta það hvað séu ríkar sanngirnisástæður. Hvar er kvarðinn, herra forseti? Er ekki bara nóg að tala þá um sanngirnisástæður? Sanngirnisástæður, mér finnst voðalega erfitt að sjá fyrir mér sanngirnishugtakið kvarðað. Er það á skalanum 0--10? Og hefur hæstv. félmrh. upplýsingar um skalann? Eða er þetta kíló eða hvað er þetta?

Ég sætti mig ekki alveg við slíka nálgun, herra forseti, og tel að annað tveggja væri rétt að gera eins og hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir og Guðrún Ögmundsdóttir leggja til að þetta orð félli einfaldlega brott, eða hitt að umorða regluna þannig eins og ég legg til í brtt. minni á þskj. 1150, að tveir fyrstu málsliðir 8. gr. orðist svo:

,,Tímabundið atvinnuleyfi skal að jafnaði liggja fyrir áður en útlendingur kemur í fyrsta skipti til starfa á Íslandi. Frá þessu má víkja ef sanngirnisástæður eða mannúðarsjónarmið mæla með því.``

Ég held ósköp einfaldlega, herra forseti, að úr því að menn eru á því á annað borð að þarna eigi að vera einhverjar undanþáguheimildir, þá eigi menn ekkert að vera að reyna að afmarka þær meira en með einhverju svona móti og hitt verði svo að verða framkvæmdaregla sem menn þá móta og eftir atvikum gæti verið reglugerðarefni jafnvel eða annað í þeim dúr.

Ég held að þarna eigi bæði að vitna til sanngirnisástæða og síðan mannúðarsjónarmiða. Menn geta sagt að það hljóti þá að flokkast undir sanngirnisástæður, en mér finnst rétt að nefna þetta líka vegna þess að það gætu þá verið sérstakar ástæður ríkisfangslausra manna eða einhverra sem hér döguðu uppi, þar sem mannúðarsjónarmið mæltu sérstaklega með því að þeim yrði ekki gert að hverfa úr landi til þess að hírast þar í einhverjar vikur eða mánuði á meðan sótt væri um atvinnuleyfi og síðan kæmu þeir hingað aftur.

Þriðja tillagan er skyld þessari, herra forseti, hún lýtur einnig að því að breyta fyrirbæri þar sem ég tel að menn séu óþarflega strangir á hlutunum. Það eru skilyrðin fyrir því að menn geti fengið ,,óbundið`` eins og það stendur hér því miður, en ætti auðvitað að vera ,,ótímabundið atvinnuleyfi``. Skilyrði þess að heimilt sé að veita útlendingi ótímabundið, ótakmarkað atvinnuleyfi, eru að hann hafi átt lögheimili og dvalið samfellt á Íslandi í þrjú ár, að hann hafi öðlast búsetuleyfi á Íslandi samkvæmt lögum um útlendinga. Og í þriðja lagi að áður hafi verið veitt leyfi samkvæmt 7. gr.

Þetta er svo sérkennilegt, herra forseti. Það er ekki nóg --- af því það þarf að uppfylla öll þessi skilyrði --- að útlendingur hafi átt lögheimili og dvalið samfellt á Íslandi í þrjú ár og að hann hafi öðlast búsetuleyfi á Íslandi samkvæmt lögum um útlendinga, til að hann geti þá að þessum tveimur skilyrðum uppfyllt fengið ótímabundið atvinnuleyfi. Nei, það þarf líka að áður hafi verið gefið út ótímabundið atvinnuleyfi. Síðan koma að vísu undanþæg ákvæði að víkja megi frá skilyrðum 1. mgr. ef um er að ræða erlendan maka Íslendings o.s.frv. En ég tel, herra forseti, að eðlilegast sé að fella þennan c-lið niður og hann eigi ekki að vera til staðar í 11. gr., það sé með öllu ástæðulaust. Ef menn uppfylla hin skilyrðin sem eru þó þetta ströng að menn hafi átt hér lögheimili og dvalið samfellt á Íslandi í þrjú ár, og þá náttúrlega án þess að vera hér á vinnuamrkaði, því þá væru þeir komnir með atvinnuleyfi og að viðkomandi útlendingur hafi öðlast búsetuleyfi á Íslandi samkvæmt lögum þar um, þá tel ég að ekki eigi að vera að hengja sig í það hvort hann hafi þar til viðbótar þegar fengið tímabundið atvinnuleyfi. Þessu, herra forseti, hefði ég viljað sjá að menn breyttu einfaldlega.

Að síðustu kemur brtt. við 11. gr., b-liður 3. tölul. á breytingartillöguskjalinu er afleiðing af a-liðnum þeim fyrri, þ.e. ef c-liður 11. gr. félli brott, þá mundu undanþæg ákvæði eingöngu lúta að svo sem eins og er í 4. mgr. að skilyrðum 1. mgr. Sem sagt, þá þyrfti ekki að vísa þarna í c-lið, enda væri hann þá enginn orðinn í greininni.

Herra forseti. Þetta voru brtt. Um málið að öðru leyti vil ég aðeins drepa á fáein atriði og það eru kannski frekar hlutir sem ég fagna. Ég vil t.d. þar tiltaka þar ákvæðin í 9. gr. um íslenskukennslu og samfélagsfræðslu. Ég tel að þau séu mikilvæg. Það er að sjálfsögðu rétt að taka inn slík ákvæði nú.

Ég tel einnig að ákvæði 25. gr. um samstarfsnefnd aðila vinnumarkaðarins sé til bóta. Ég held að slík samstarfsnefnd gæti ef vel tekst til skipt þó nokkru máli og kannski ekki galið að reikna með því að slíkri nefnd yrði falið talsvert hlutverk á þessu sviði. Þá vöknuðu að vísu spurningar um samsetningu hennar, hvort t.d. fleiri af stærstu heildarsamtökum launamanna ættu þá ekki að koma þar með við sögu, fleiri en bara Alþýðusambandið, en það er náttúrlega hlutur sem má skoða í framhaldinu.

Þau ákvæði frv. t.d. sem rýmka möguleika nánustu aðstandenda útlendinga til að fá hér tímabundin atvinnuleyfi og annað því um líkt eru að sjálfsögðu af hinu góða og í takt við það sem er að gerast í þessum efnum hér hjá okkur og alls staðar annars staðar í kringum okkur. Sama má segja um möguleika á að veita útlendingum atvinnuleyfi sem hér eru með hælisumsókn í farvegi o.s.frv.

Það er eitt atriði, herra forseti, sem ég hefði gjarnan viljað heyra hæstv. félmrh. aðeins fara yfir mér og e.t.v. fleirum til uppfræðslu og það er hvernig farið er með málefni námsmanna og skiptinema eða annarra slíkra sem hér geta verið á einhverjum slíkum forsendum. Þá er ég fyrst og fremst að hugsa um þá sem ekki féllu undir ákvæði 12. gr. um útlendinga sem hér væru í fullu námi, þannig að hægt væri að leggja mat á það hvað væri fullnægjandi námsframvinda og annað í þeim dúr. Það er augljóst mál að hér geta t.d. verið skiptinemar sem eru að einhverju leyti í námi eða að einhverju leyti í starfi og ýmis slík prógrömm, skipti- og gistiprógrömm gætu komið þar við sögu. Ég spyr hæstv. félmrh.: Er þeim málum eða hvernig verður þeim fyrir komið í þessu, er alveg á hreinu að ekki stofnist til neinna vandræða ef gengið er frá málum með þeim hætti sem hér er lagt til að þessu leyti?

Ég hefði gjarnan viljað að hæstv. ráðherra færi yfir þetta, enda hygg ég að málið sé honum kunnugt því satt best að segja aðvaraði ég hæstv. ráðherra um það að ég hefði áhuga á því að fá um þetta atriði upplýsingar hér við umræðuna.