Atvinnuréttindi útlendinga

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 15:47:35 (8380)

2002-04-29 15:47:35# 127. lþ. 132.18 fundur 204. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv. 97/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[15:47]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég spurði ekki vegna þess að ég efaðist um hug hæstv. félmrh., þ.e. að hann væri ekki velviljaður því að lög og reglur væru þannig úr garði gerð að það greiddi götu þess frekar en hitt að ungt fólk geti sótt okkur heim og verið hér sem skiptinemar eða námsmenn á einhverjum öðrum forsendum en þeim að sækja hér reglubundið og fullt nám þannig að það geti uppfyllt þessi skilyrði um fullnægjandi námsframvindu eins og þarna á að gera, samanber orðalagið: ,,enda sé námsframvinda eðlileg``.

Það felur út af fyrir sig kannski rýmkun í sér að falla frá því að leitað sé umsagnar verkalýðsfélaga, enda umhendis hygg ég, og tæpast er ástæða til að standa í slíku þegar í hlut eiga erlendir námsmenn sem varla verða það margir að þeir hafi mikil áhrif á vinnumarkaðinn í heild sinni. En ég treysti því, herra forseti, að þannig sé um hnútana búið að ekki þurfi að hafa áhyggjur af þessu atriði og fagna því.