Atvinnuréttindi útlendinga

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 15:49:02 (8381)

2002-04-29 15:49:02# 127. lþ. 132.18 fundur 204. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv. 97/2002, Frsm. ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[15:49]

Frsm. félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil einkum víkja að tveimur atriðum sem koma fram í brtt. hv. þm. Steingrími J. Sigfússonar, þ.e. spurningunni um hvort þarna eigi að standa óbundið atvinnuleyfi eða ótímabundið atvinnuleyfi.

Ástæða þess að þetta orðalag er notað áfram í lagatextanum er að þetta er hugtak sem notað hefur verið fram að þessu varðandi þessi leyfi og ekki er talin ástæða til þess að breyta heitinu á leyfinu.

Varðandi 8. gr. leggur hann til að orðalagi verði breytt eða ég lít svo á að þarna sé nánast um orðalagsbreytingar að ræða, því þó að í textanum standi ,,ríkar sanngirnisástæður`` þá er, eins og fram kemur í athugasemdum við þessa grein, auðvitað gert ráð fyrir því að tekið sé tillit til þeirra ástæðna sem hann tekur fram í sínum texta, þ.e. að þarna verði um sanngirnisástæður og mannúðarsjónarmið að ræða. Í upplegginu í frv. er hreinlega gert ráð fyrir þessu sem fram kemur í brtt. hans.