Atvinnuréttindi útlendinga

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 15:54:37 (8384)

2002-04-29 15:54:37# 127. lþ. 132.18 fundur 204. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv. 97/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[15:54]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig alveg rétt að ef þannig viðhorf verða ríkjandi í framkvæmd þessara mála að þar séu menn mildilegir og túlki orðalag þolendum í vil og reyni að greiða götu fólks en ekki hitt þá kann þetta allt saman að vera brúklegt eins og þetta er. En við höfum enga tryggingu fyrir því að þannig verði um aldur og ævi. Mér finnst, herra forseti, ég verð að segja það alveg eins og er, að maður verði var við vaxandi tilhneigingar einmitt hjá yfirvöldum þessara mála til þess að fara í hina áttina, samanber fréttir núna þessa sólarhringana. Manni bregður dálítið í brún þegar menn tortryggja hér hóp manna sem eru að koma frá Kína á vegum stofnunar sem Íslendingar hafa átt þátt í að setja á fót með uppáskriftum frá sendiráðum Íslands og Danmerkur. Samt telur Útlendingaeftirlitið ástæðu til að vera á svo stífum gormum í þessum efnum að mönnunum er meinað að koma hingað. Maður hrekkur við og spyr sig hvaða viðhorf séu þarna á ferðinni. Eiga menn ekki að njóta vafans? Á að gefa sér að menn hafi eitthvað misjafnt í pokahorninu þangað til þeir eru búnir að þrautsanna hið gagnstæða? Er það viðhorfið sem Útlendingaeftirlitið er farið að vinna eftir, sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli eða hver sem þetta nú er?

Ég verð auðvitað að segja alveg eins og er að í og með er maður að skoða þessi ákvæði út frá því að kannski verða yfirvöldin ekki alltaf svo mildileg í sinni framgöngu, í sinni beitingu þessara ákvæða og reglna. Ég kæri mig ekki um þannig viðhorf í okkar samfélagi og finnst það andstætt því að menn búi hér í opnu þjóðfélagi. (KPál: Á að hleypa mönnum inn viðstöðulaust?)

Það er svo annað mál, hv. þm. Kristján Pálsson. Við getum farið í þá umræðu alla saman. En við erum að reyna að setja okkur hér einhverjar skynsamlegar reglur og mér finnst ekki rétt að skilja eftir meira til túlkunar í þeim en þörf er þó fyrir, sérstaklega ekki ef hugarfarið kynni að verða á þá leið sem manni félli ekki við.