Atvinnuréttindi útlendinga

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 16:10:16 (8386)

2002-04-29 16:10:16# 127. lþ. 132.18 fundur 204. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv. 97/2002, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[16:10]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að hafa í huga að þegar verið var að semja frv. vildi ég hafa sem besta samstöðu um málið, og til samningarinnar voru kallaðir, auk fulltrúa frá mér, fulltrúar frá Vinnumálastofnun, Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands og dómsmrn. Og þetta er niðurstaða af samkomulagi. Það er ekki neinn einn sem skrifar þetta heldur er þetta samkomulag, niðurstaða af samkomulagi aðila sem voru með mismunandi sjónarmið og voru að reyna að varðveita mismunandi hagsmuni. Alþýðusamband Íslands vill ekki opna of mikið, þ.e. vill passa upp á að hér verði ekki offramboð á vinnumarkaði. Samtök atvinnulífsins eru kannski ekki eins upptekin af því atriði. Þannig eru sjónarmiðin mismunandi.

Þess vegna er t.d. með orðalagi eins og ,,rík sanngirnissjónarmið`` einfaldlega átt við sanngirnissjónarmiðin. Þau þurfa að vera fyrir hendi, það verður að vera hægt að rökstyðja að það sé sanngjarnt að gera þetta.

Ég tel að hér sé um greiðari leið fyrir námsmenn að ræða en í fyrri lögum. Eins og ég sagði áðan þurfti umsögn stéttarfélags til þess að þeir gætu fengið atvinnuleyfi. Sex mánuðir eða tólf mánuðir --- ég geri ekki mikinn mun á því af því að hægt er að framlengja þetta leyfi og yfirleitt eru skiptinemar ekki í vinnu árum saman. Þeir koma hér í öðrum tilgangi.

Varðandi ótímabundið eða óbundið geri ég svo sem ekki mikið með það. Málsmekkur manna getur ráðið því hvort þeir eru samþykkir því eða ekki.