Atvinnuréttindi útlendinga

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 16:25:57 (8391)

2002-04-29 16:25:57# 127. lþ. 132.18 fundur 204. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv. 97/2002, GAK
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[16:25]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég kem í ræðustól til að lýsa stuðningi við þetta mál. Tel ég að það hafi lagast í meðförum nefndarinnar og þær brtt. sem frá nefndinni koma séu flestar til bóta. Þó vil ég lýsa því yfir, herra forseti, að ég tel að þær brtt. sem koma frá hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur og Guðrúnu Ögmundsdóttur á þskj. 1146 og brtt. frá hv. þm. Steingrími Sigfússyni á þskj. 1150, séu enn frekar til bóta við frv. sem við ræðum og lýsi ég yfir stuðningi við þær tillögur til viðbótar þeim breytingum sem orðið hafa á frv. í meðförum nefndarinnar.

Við í Frjálslynda flokknum eigum ekki aðild að hv. félmn. og ég vildi þess vegna eingöngu koma hér upp til þess að lýsa yfir stuðningi mínum við málið í heild. Ég tel að það hafi batnað í meðförum nefndarinnar og í raun og veru sé ekki mjög mikill ágreiningur um það meðal nefndarmanna þó vissulega skrifi þrír nefndarmenn undir með fyrirvara, en hafa lagt fram brtt. sem skýra í rauninni þá fyrirvara. Þess vegna held ég að eins og málið er nú komið ætti að geta náðst um það nokkuð víðtæk sátt á þingi. Ég vona hins vegar að meiri hluti þingsins taki tillit til þeirra brtt. sem hafa verið ræddar. Ég tel að þær séu til bóta og muni enn laga málið. Að öðru leyti lýsi ég yfir stuðningi okkar í Frjálslynda flokknum við málið.