Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 16:29:31 (8392)

2002-04-29 16:29:31# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, Frsm. minni hluta ÁSJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[16:29]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forseta fyrir að fresta umræðunni um málið en ég er nýkominn úr flugi frá Akureyri, þar var vont veður í morgun og ekki heldur gott veður í háloftunum áðan, þannig að ég er aðeins að ná andanum.

[16:30]

Virðulegi forseti. Mér skilst að hv. 5. þm. Norðurl. v., Jón Bjarnason, sé þegar búinn að mæla fyrir nál. mínu þannig að ég ætla aðeins að hafa örfá orð um þetta frv. til laga um breytingu á lögum nr. 61/1981, um steinullarverksmiðju, þar sem iðnrh. er heimilt að selja eignarhlut íslenska ríkisins í Steinullarverksmiðjunni og að helmingur söluandvirðis skuli renna til samgöngubóta og annarra verkefna í þeim sveitarfélögum sem eiga verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi Steinullarverksmiðjunnar samkvæmt nánari ákvörðun sem ríkisstjórnin tekur væntanlega.

Virðulegi forseti. Steinullarverksmiðjan er gríðarlega mikilvægt fyrirtæki fyrir Sauðárkrók og Skagafjörð eins og náttúrlega landið allt og afstaða Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í þessu máli þarf ekkert að koma neinum á óvart. Við höfum lagst gegn því að við núverandi aðstæður sveitarfélaganna í landinu séu þau knúin hvert af öðru til þess að selja eignir til þess að eiga betri möguleika á því að rétta við efnahag sinn. Við tókumst hér á gríðarlega um sölu Orkubús Vestfjarða á sínum tíma og þetta er algjörlega í samræmi við það sem flokkurinn hefur staðið fyrir í þeim efnum. Við lögðumst á sama hátt gegn því og vorum andvíg því að fjárhagsvandi Sveitarfélagsins Skagafjarðar yrði leystur með því að Rafmagnsveitur ríkisins keyptu rafmagnsveiturnar á Sauðárkróki. Þetta er því alveg í samræmi við málflutning okkar eins og við höfum lagt hann fram.

Við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum þvert á móti þráfaldlega beðið um það á hinu háa Alþingi að fjárhagsstaða sveitarfélaganan yrði tekin til rækilegrar endurskoðunar. Við vitum vel að hluti af vandamálum sveitarfélaganna hefur verið félagslega íbúðakerfið. Við síðustu fjárlög lögðum við til að stigið yrði fyrsta skref í að leysa þann fjárhagsvanda og lögðum til 1 milljarðs kr. framlag í því skyni, en talið er að vandi félagslega íbúðakerfisins á landsgrundvelli sé um 2,8 milljarðar samkvæmt síðustu gögnum sem sett voru fram.

Við erum andvíg sölu ríkisins á eignarhlutanum í Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki við núverandi aðstæður og teljum að sú ráðstöfun sé ekki líkleg til þess að leysa fjárhagsvanda sveitarfélagsins til lengri tíma litið. Fjárhagsstaðan hefur verið slæm og til þess að bæta hana hefur sveitarstjórnin brugðið á það ráð að selja, eins og ég kom inn á áðan, Rafveitu Sauðárkróks. Hún hefur verið seld og nú stendur hugur sveitarstjórnarinnar til þess að losa um fjármagn sem sveitarfélagið á í Steinullarverksmiðjunni, eins og m.a. má sjá af ályktun sem birt er sem fylgiskjal með þessu áliti sem ég hef dreift sem minnihlutaaðili í hv. iðnn.

Ég segi í þessu áliti að á sínum tíma var tekist hart á um stofnsetningu verksmiðjunnar og ekki síst staðsetningu hennar og var pólitísk ákvörðun um að henni var valinn staður á Sauðárkróki.

Steinullarverksmiðjan hefur reynst happafengur fyrir Sauðárkrók og Skagafjörð. Þrátt fyrir nokkra byrjunarörðugleika hefur rekstur hennar gengið vel og hún hefur skilað eigendum sínum drjúgum arði. Hún veitir fjölda bæjarbúa atvinnu, bæði beint og óbeint, og sveitarfélagið hefur af henni umtalsverðar tekjur. Fjárhagur verksmiðjunnar er góður, mjög litlar skuldir hvíla á fyrirtækinu og ekkert bendir til annars en reksturinn geti áfram gengið vel. En skjótt skipast veður í lofti og engin trygging er fyrir því að nýir eigendur verksmiðjunnar hafi jafnmikinn áhuga og núverandi eigendur á því að efla hag hennar á þeim stað þar sem hún er rekin nú. Niðurstaðan gæti orðið brottflutningur starfa og tekjumissir og er þá verr af stað farið en heima setið. Minni hlutinn vill að allra leiða verði leitað til þess að leysa tímabundinn fjárhagsvanda Sveitarfélagsins Skagafjarðar, annarra en að selja drjúgan hluta bestu mjólkurkýrinnar á þeim bæ og setja þar með framtíð Steinullarverksmiðjunnar í algjöra óvissu. Reynist sveitarfélagið hins vegar nauðbeygt til þess að selja hlut sinn í verksmiðjunni telur minni hlutinn að ríkið eigi að leysa þann hlut til sín. Ég vil skjóta því inn í að það mundi vera alla vega betri tímabundin lausn ef það yrði gert á þann hátt.

Ég legg því til að frumvarpinu verði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá, með leyfi forseta:

,,Í ljósi þess að áform um sölu Steinullarverksmiðjunnar eru fyrst og fremst tilkomin vegna bágrar fjárhagsstöðu Sveitarfélagsins Skagafjarðar og þess að um málið eru mjög deildar meiningar heima í héraði leggur minni hlutinn til að málinu verði vísað frá og tekið verði fyrir næsta mál á dagskrá.``

Virðulegi forseti. Frumkvæðið að þessu máli kemur frá sveitarfélagsstjórninni í Skagafirði. Það er alveg ljóst. Hins vegar er þetta nauðvörn sveitarfélagsins og það er alveg borðliggjandi að ef sveitarfélagið hefði ekki verið í fjárhagslegum erfiðleikum þá hefðu menn ekki gripið til þess ráðs heima fyrir að óska eftir sölu verksmiðjunnar. Þær upplýsingar hef ég fengið víða að, að það er samdóma álit manna.

Í hv. iðnn. er þetta frv. til laga til komið í raun vegna þess að grunnvinnan hefur verið undirbúin. Söluaðilar eru fundnir, samningurinn er raunar fyrir hendi og menn eru að velta fyrir sér tölum sem við vitum hverjar eru, þar af leiðandi tillögum um að afraksturinn eða afgangurinn eða það sem kemur út úr þessari sölu, þ.e. að þeir peningar verði notaðir til annarrar uppbyggingar á svæðinu og þá í Sveitarfélaginu Skagafirði og þar um kring.

Þetta teljum við í hæsta máta óeðlilegt. Af tvennu illu hefði verið betra ef ríkið hefði tímabundið leyst til sín hluta Sveitarfélagsins Skagafjarðar, beðið þar með átekta og e.t.v. komið fyrirtækinu á markað þannig að hægt og rólega mætti selja hlut ríkisins til lengri framtíðar litið. En það á ekki að stíga þetta skref.

Virðulegi forseti. Ég tel að engin trygging sé fyrir því að nýir eigendur sem hugsa sér að reka verksmiðjuna geri það endilega til langrar framtíðar. Það er heldur engin trygging fyrir starfsmenn þó það sé sett inn í sölusamninga eins og oft er gert. Þetta fyrirkomulag reyndum við með Rafmagnsveitur ríkisins. Það eru bara almennar yfirlýsingar um að menn stefni að því að halda óbreyttu fyrirkomulagi og að menn þurfi ekki að óttast um sinn hag í bili alla vega.

Ég tel málið því allt hið undarlegasta og versta. Ég tel að þetta sé hættulegt fordæmi, eins og raunar sala Rafveitunnar og sala Orkubús Vestfjarða. Við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði teljum þetta ranga leið. Við teljum að ákvarðanir af þessu tagi séu til komnar vegna þess að sveitarstjórnirnar séu komnar í nauðvörn. Við höfum mörgum sinnum farið í gegnum það að það þyrfti að rétta og bæta stöðu sveitarfélaganna í landinu. Eins og ég sagði áðan þá höfum við gert um það tillögur. Svona mál koma ekki upp --- það vitum við öll hér í þessum sal --- nema bara vegna þess að menn telja sig komna í mikinn vanda. Hugur manna stendur ekki til sölu af þessu tagi nema þeir sjái ekki aðrar leiðir. Þá stendur það upp á hið háa Alþingi að gefa mönnum vonir um að breyta eigi rekstrargrunninum fyrir sveitarfélögin og gefa þeim aðra möguleika, þ.e. nálgast málin á annan hátt. Nefni ég þar sem dæmi, sem ég gat um áðan, félagslega íbúðakerfið.

Virðulegi forseti. Ég tel að þetta mál með Steinullarverksmiðjuna sé e.t.v. bara eitt af mörgum í röð. Talað er t.d. hástöfum um möguleika á sölu hitaveitna hjá skuldsettum sveitarfélögum. Flokkurinn er algjörlega andvígur því. Jafnvel þó það sé ekki beint komið í lagatexta þá eru nú sumir alla vega farnir að velta fyrir sér sölu á vatnsveitum. Þó er það ekki komið á pólitískt skrið. En við höfum reynslu af því á hinu háa Alþingi að yfirleitt líður ekki langur tími frá því farið er að tala um breytingar á rekstrarformi og þar til eitthvað fer af stað í þeim dúr í einkavæðingarátt hjá hæstv. ríkisstjórn.

Allt ber þetta að sama brunni. Við teljum að svona eigi ekki að standa að málum og höfum þess vegna lagt fram þessa frávísunartillögu við þetta frv., virðulegi forseti.