Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 16:40:41 (8393)

2002-04-29 16:40:41# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[16:40]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég spurði hv. þm. Jón Bjarnason í andsvari hver stefna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs væri varðandi það sem sveitarfélögin og ríkið ættu að eiga og reka í atvinnurekstrinum, og ef við værum að tala um fyrirtæki af þessu tagi sem framleiðir byggingarefni, hvort þá væri hugmyndin að ríkið eða sveitarfélögin ættu að eiga fyrirtæki sem framleiða t.d. steypuefni, húseiningar, innréttingar eða aðra slíka hluti, (KHG: Kaupa BYKO.) þ.e. hvernig þetta væri hugsað svona í heildina tekið. Mér virðist augljóst að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð sé alfarið á móti því að eignarhlutir af þessu tagi séu seldir. Hér er verið að framleiða einangrunarefni. Það er byggingarefni. Því hlýtur að vakna spurning um hvernig þetta er skilgreint.

Síðan hef ég aðrar spurningar, t.d.: Hversu mikið eiga sveitarfélögin að eiga í svona fyrirtækjum? Er það einhver tiltekinn hluti? Hversu mikið á ríkið að eiga í svona fyrirtækjum? Er það einhver tiltekinn hluti? Hvað væri eðlilegt að ríkið ætti mikið í þessu fyrirtæki? Nú er verið að tala um að selja 30%. Líta menn þannig á það hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að ríkið eigi t.d. að grípa tækifærið og kaupa í byggingarfyrirtækjum sem verða til sölu á einstökum svæðum í landinu og hvar þá? Er þetta hluti af byggðastefnu eða er þetta hluti af almennri stefnumörkun flokksins? (SJS: Hver er stefna Samfylkingarinnar?)