Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 16:42:50 (8394)

2002-04-29 16:42:50# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, Frsm. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[16:42]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ef hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur fylgst með umræðunni þá hafi hann heyrt það hjá okkur í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að við leggjum megináherslu á að stoðkerfið sé í almannaeign og opinberum rekstri. En við höfum ekkert sett okkur á móti því að seldar séu verksmiðjur af ýmsu tagi. T.d. vorum við ekki andvíg því þegar Kísiliðjan við Mývatn var seld. Það er ekki málið.

Málið er hins vegar að sveitarfélagið er knúið vegna vandræða sinna í rekstri til þess að taka þessa ákvörðun núna á þessum tímapunkti og því erum við andvíg. Við erum t.d. heldur ekkert sérlega hlynnt því, og höfum lagst gegn því í málflutningi okkar, að ríkið styðji t.d. við bakið á erfðagreiningarfyrirtæki, líftækni. Við höfum ekki talað fyrir slíku og leggjumst t.d. gegn ríkisábyrgð hvað það varðar og teljum að það sé ekki hlutverk ríkisins að stuðla að því með þeim hætti sem verið var að gera hér um daginn í umræðunni um bakábyrgðir ríkisins.

Málið snýst um stöðu sveitarfélagsins í þessu tilviki. Við teljum að staðan hafi verið sú að menn hafi verið neyddir til þess að taka þessa ákvörðun og að hana eigi ekki að taka í þessu ljósi. Af tvennu illu væri betra ef ríkið brúaði þetta bil í bili --- þess vegna er það líka lagt til --- þannig að menn næðu áttum og þannig að bæði ríki og bær færu ekki út úr þessu í einu vetfangi og settu e.t.v. framtíðina í uppnám. Við viljum fara varlega að þessu. Þess vegna er í tillögum okkar sá varnagli sleginn að ríkið kæmi þá frekar inn ef sveitarfélagið teldi sig eindregið þurfa að losa þessa peninga.